Ársþing

Fjölmiðlaverðlaun til RUV og Guðjóns Guðmundssonar

Fjölmiðlaverðlaun afhent á 70. ársþingi KSÍ

13.2.2016

Það voru tveir aðilar sem fengu afhent fjölmiðlaverðlaun á 70. ársþingi KSÍ sem haldið er á Hótel Nordica Reykjavík.  Annars vegar var það RUV vegna útsendinga á leikjum í undankeppn EM og hinsvegar Guðjón Guðmundsson sem hefur séð um þætti um knatspyrnumót yngstu iðkendanna.

RUV

Fyrir undankeppni EM karlalandsliða 2016 seldi Knattspyrnusamband Evrópu sjónvarps-réttindi að leikjunum fyrir hönd allra aðildarlandanna og voru markmiðin m.a. að auka sjónvarpstekjur og samræma gæðakröfur í framkvæmd leikjanna. 

Gæðakröfurnar sem settar voru fram sneru að flestum þáttum framkvæmdar leikjanna, ekki síst að þeim kröfum sem gerðar voru til þeirra sjónvarpsstöðva sem sýndu leikina í beinni útsendingu.  Kröfurnar sneru að öllum þáttum sjónvarpsútsendingar - fjölda myndavéla á leiknum og eiginleika þeirra, myndgæða, endursýninga, grafík og skjáupplýsinga, svo eitthvað sé nefnt, auk samræmingar allra aðgerða í útsendingunni og skipulags hennar þvert á leiki keppninnar.

Framkvæmd leikjanna var mikil áskorun fyrir Knattspyrnusamband Íslands, og ekki síður fyrir sjónvarpsrétthafann, RÚV, sem þurfti að skila gríðarlega mikilli vinnu og útsendingu með mynd- og hljóðvinnslu í hæsta gæðaflokki á evrópskan mælikvarða.  Alls komu milli 50 og 70 manns á vegum RÚV að útsendingu frá hverjum leik.

Umsögn fulltrúa UEFA, sem störfuðu á leikjum undankeppninnar á Laugardalsvelli við hlið fulltrúa KSÍ og RÚV,  um frammistöðu RÚV og starfsfólks þess í þessari undankeppni, ber vitni um mikla þekkingu, færni og fagmennsku á sviði sjónvarpsútsendinga frá knattspyrnuleikjum á hæsta þrepi íþróttarinnar.

Guðjón Guðmundsson

Þættir Stöðvar 2 Sports um krakkamótin 2015 vöktu mikla lukku og áhorf á þá var mikið.  Guðjón Guðmundsson, sem er á meðal reynslumestu íþróttafréttamanna landsins, stýrði þáttunum af miklum sóma og heimsótti mörg mót. Opinn og afslappaður samskiptamáti Guðjóns virkaði vel í við gerð þátta Stöðvar 2 Sports um krakkamótin 2015. 

Samspil hans og ungra iðkenda á knattspyrnumótum sumarsins var stór þáttur í því að gera þættina jafn áhugaverða og raunin var og gáfu þættirnir góða innsýn inn í þessa umfangsmiklu viðburði sem aðildarfélög KSÍ hafa svo mikla og góða reynslu af.
Ársþing
Aðildarfélög
Aðildarfélög