• mið. 08. sep. 2021
  • A karla
  • Landslið

A karla - 0-4 tap gegn Þjóðverjum

Ísland tapaði 0-4 gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2022.

Þjóðverjar byrjuðu leikinn af krafti og tóku strax forystuna á 6. mínútu þegar Serge Gnabry skoraði eftir góða fyrirgjöf Leroy Sane. Tíu mínútum síðar átti Íslands fyrsta skot sitt í leiknum, en Manuel Neuer varði skot Ísaks Bergmanns Jóhannessonar örugglega. Þýskaland hélt áfram stjórna ferðinni í leiknum og á 24. mínútu skoraði Antonio Rudiger annað mark Þýskalands með glæsilegum skalla eftir aukaspyrnu Joshua Kimmich. Nokkrum mínútum síðar var Leon Goretzka nálægt því að skora þriðja mark kvöldsins, en Hannes Þór Halldórsson varði vel skot hans. Undir lok fyrri hálfleiks var Jóhann Berg Guðmundsson nálægt því að skora fyrsta mark Íslands eftir frábæra sókn, en skot hans var varið af Neuer. Staðan því 0-2 fyrir Þýskaland í hálfleik.

Þýskaland hélt áfram uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks, en Timo Werner komst í gegn um vörn Íslands, náði skoti á markið sem Hannes Þór varði vel. Stuttu síðar átti Jóhann Berg frábært skot sem endaði í stöng þýska marksins, Albert Guðmundsson tók frákastið og setti boltann í netið. Albert var hins vegar rangstæður og markið því dæmt af.

Leroy Sane skoraði þriðja mark Þýskalands á 56. mínútu með frábæru skoti úr teignum eftir sendingu frá Goretzka, staðan orðin 0-3. Þjóðverjar voru sterkari aðilinn allan síðari hálfleik og bætti Timo Werner við fjórða marki liðsins undir lok leiks og 0-4 tap Íslands staðreynd.

Fyrir leikinn voru þeir Birkir Már Sævarsson og Birkir Bjarnason heiðraðir fyrir að hafa leikið landsleik númer 100 í leiknum gegn Norður Makedóníu.