Handbók leikja 2023

Samþykkt af stjórn KSÍ 29/03/2022 í samræmi við grein 1.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót

Ábendingar og tilmæli til félaga um framkvæmd leikja í meistaraflokki

Handbók leikja 2023 (pdf)

Reglugerðir á vef KSÍ

Eyðublöð á vef KSÍ

Sími510-2900
Netfangksi@ksi.is
Vefsíðawww.ksi.is 


Á vef KSÍ er að finna upplýsingar um allt sem viðkemur starfsemi KSÍ. Sérstaklega skal bent á upplýsingar um knattspyrnumótin. Einnig er hægt að nálgast þar nöfn dómara og eftirlitsmanna einstakra leikja.

Mótavakt KSÍ í síma 510-2925 er starfrækt yfir keppnistímabilið eftir lokun skrifstofu KSÍ (skrifstofan er opin mán-fös 8-16 og fös 8-15) og fram að auglýstum leiktíma í mótum í meistaraflokki. Mótavaktin er til aðstoðar ef upp kom vandamál við framkvæmd leikja, m.a. ef taka þarf ákvörðun um frestanir leikja.

Leiðbeiningar þessar eru ætlaðar öllum félögum við framkvæmd leikja í meistaraflokki karla og kvenna. Sérstaklega er þó tekið mið af leikjum í Bestu deildum og Lengjudeildum og aðalkeppni Mjólkurbikarsins.  ÍTF gefur jafnframt út sérstakar leiðbeiningar til félaga í Bestu deildum varðandi ýmislegt sem tengist samstarfsaðilum.

Fastnúmer leikmanna

Leikmaður sem leikur í Bestu deild karla, Lengjudeild karla og Bestu deild kvenna skal hafa sama númer í öllum leikjum í deildinni og einnig þegar hann tekur þátt í Mjólkurbikarnum.  Leikmenn hvers félags skulu númeraðir frá 1 til 99 en þó skal númerið 1 aðeins úthlutað markverði. Einungis er hægt að úthluta númeri aftur ef viðkomandi leikmaður hefur haft félagaskipti úr félaginu (á ekki við um tímabundin félagaskipti).  Félög í Bestu deild karla og kvenna og Lengjudeild karla skulu tilkynna KSÍ um númer leikmanna fyrir upphaf Íslandsmóts.  Tilkynna skal um fastnúmer nýrra leikmanna til KSÍ í síðasta lagi einum degi fyrir leik (einfaldast er fyrir viðkomandi félag að stofna leikskýrslulista með fastnúmerum á innri vef ksi.is og vinna með hann þar). Í öllum öðrum mótum meistaraflokks á vegum KSÍ skulu leikmenn bera númer 1-99.  Þar er ekki skylda að leikmaður beri sama treyjunúmer allt keppnistímabilið.

A- og B leikmannalistar

Félögum í Bestu deild karla og Lengjudeild karla ber að senda til KSÍ, viku fyrir fyrsta leik, svokallaða A- og B leikmannalista, sbr. 9. gr. reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Leikmannalistarnir eru nánar skilgreindir í ákvæðum 9.2.1. og 9.2.2. en aðeins þeir leikmenn sem þar eru skráðir geta verið á leikskýrslu í leikjum í Bestu deild karla og Lengjudeild karla. Framkvæmdastjóra KSÍ er heimilt að vísa til aga- og úrskurðarnefndar meintum brotum á ákvæðum reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót. Listarnir þurfa að vera uppfærðir, ef við á, og sendir aftur til skrifstofu KSÍ að loknu félagaskiptatímabili.KSÍ skírteini

Handhafi A-aðgönguskírteinis útgefnu af KSÍ hefur ókeypis aðgang að öllum leikjum fyrir sig einan. Handhafi aðgönguskírteinis fyrir tiltekna deild (ED, 1D, 2D, 3D, KV, 1KV) útgefnu af KSÍ hefur ókeypis aðgang að leikjum í viðkomandi deild fyrir sig einan.

Handhafi F-aðgönguskírteinis (fjölmiðlar) útgefnu af KSÍ hefur ókeypis aðgang að öllum leikjum í deild og bikar fyrir sig einan, enda sé viðkomandi að starfa við leikinn, og gildir þá sem aðgangspassi að fjölmiðlaaðstöðu.

Öll aðgönguskírteini KSÍ eru gefin út rafrænt í gegnum miðasöluappið Stubb.

Sérprentaðir aðgöngumiðar

Munið eftir merki mótanna ef aðgöngumiðar eru sérprentaðir af félögunum fyrir leiki í Bestu deild, Lengjudeild eða Mjólkurbikar (sjá einnig „Þáttur samstarfsaðila“).

Miðasöluappið Stubbur

Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki. Stuðningsmaður kaupir miða í appinu og virkjar svo við inngang, sýnir öryggisgæslu í hliðinu miðann í símanum og þarf svo að halda inni óvirkja takka í 2 sekúndur þannig ekki sé hægt að nota miða aftur. Við það dettur miðinn strax út. Ef miði er ekki virkjaður eða notaður þá dettur hann út eftir leik/miðnætti og ekki hægt að nota. 

 Uppgjör á miðasölu í gegnum Stubb eru mánaðarleg og beint til félaga.

Stubbur

Þáttur samstarfsaðila

Lögð er þung áhersla á að félögin haldi merki samstarfsaðila móta á lofti. Framlag þeirra er mikið, ekki síst þáttur þeirra í kynningu mótanna.   Fyrirtækin leggja mikla áherslu á að auka verðmæti samstarfsins eins mikið og mögulegt er með ýmsum aðgerðum og því eru félögin hvött til að eiga gott samstarf við þessi fyrirtæki, enda fara hagsmunir allra þessara aðila saman.

Auglýsingar og umfjöllun

Munið eftir merki keppninnar í auglýsingum þar sem við á (merki Bestu deildar, Lengjudeildar og Mjólkurbikarsins), í prentuðum auglýsingum/kynningum jafnt sem rafrænum. Mikilvægt er að forráðamenn félaga, leikmenn, þjálfarar og starfsmenn noti rétt heiti mótanna í umfjöllun og tali t.d. um Bestu deildina (ekki úrvalsdeild) þar sem við á.

Veggspjöld til að auglýsa leiki

Munið eftir merki keppninnar ef veggspjöld eru notuð til að auglýsa leiki í Bestu deildinni, Lengjudeildinni og Mjólkurbikarnum.

Merkingar á ermum búninga liða

Treyjur leikmanna í Bestu deildum karla og kvenna skulu bera merki keppninnar á hægri ermi. Í úrslitaleikjum Mjólkurbikarsins skulu treyjur bera merkingar keppninnar á báðum ermum.  Þessar merkingar standa utan við reglugerð um búnað knattspyrnuliða og takmarka ekki aðrar auglýsingar sem leyfilegar eru á búningum (athugið að þessar merkingar eiga ekki að vera ofan á öxlinni).

Boltastandar í Bestu deildum

Á leikjum í Bestu deild er notast við sérstakan boltastand með merki keppninnar og merkjum samstarfsaðila Bestu deildarinnar.  Boltastandurinn er staðsettur í gönguleið dómara og liðanna út á völl (sýnilegur áhorfendum og myndavél sjónvarpsrétthafa) og keppnisbolti settur á standinn.  Dómarinn tekur boltann af standinum þegar liðin ganga til leiks.

Í Bestu deildinni eru að auki eru settir upp sex boltastandar (merktir opinberum drykk deildarinnar) í kringum leikvöllinn.  Boltakrakkar geyma boltana á þessum stöndum.

Handabandshlið í Bestu deild

ÍTF stefnir á að framleiða sérstakt handabandshlið sem flakkar á milli valla og er sett upp á völdum sjónvarpsleikjum yfir tímabilið.  Hliðið yrði þá sett upp úti á velli þar sem liðin og svo fyrirliðar/dómarar heilsast fyrir leik.

Auglýsingaskilti samstarfsaðila

Á leikvöllum í Bestu deildum karla og kvenna skulu vera þrjú 1x8 eða 2x4 metra Bestu deildar skilti á besta stað (m.t.t. sjónvarps). Þá skal einnig vera 1x12 metra eða 2x6 metra Bestu deildar skilti gegnt áhorfendum.  Sjá nánar í viðauka.

Óski Lengjan þess skulu vera tvö 1x4 eða 2x4 metra Lengjudeildarskilti á besta stað (m.t.t. sjónvarps) á leikvöllum í Lengjudeildum karla og kvenna. Sjá nánar í viðauka.

Frá og með 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla og 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna skulu skilti með merki keppninnar vera staðsett við völlinn (ef við á).  Sjá nánar í viðauka.  Í úrslitaleikjum beggja kynja, á Laugardalsvelli, er notast við LED ljósaskilti. 

Um skiptingu auglýsinga milli aðila í úrslitum Mjólkurbikars karla og kvenna er fjallað í sérstöku vinnuskjali fyrir bikarúrslitaleiki.  Um er að ræða jafnskiptingu milli þriggja aðila (félags A, félags B og MS/KSÍ).  Engar auglýsingar eða aðrar merkingar frá samkeppnisaðilum MS geta verið á leikvanginum.  Skilti bakhjarla KSÍ við þak austurstúku Laugardalsvallar eru ekki tekin niður á bikarúrslitaleikjum.  Skilti bakhjarla KSÍ á vegg austurstúku eru tekin niður, óski félögin þess sérstaklega.

Félög eru minnt á að engin skilti á leikvöllum eiga að skyggja á skilti samstarfsaðila móta. Auglýsingaréttur samstarfsaðila við leikvöllinn er í fremstu röð skilta og enginn annar getur tekið yfir það svæði sem úthlutað er þeim samstarfsaðila.  Engin önnur skilti geta verið ofan á / undir eða skyggt á þessi skilti á nokkurn hátt

Fánar samstarfsaðila

 • Á leikjum í Bestu deildum karla og kvenna skal flagga Bestu deildar fánum. Minnt er á að Bestu deildar fánarnir eiga að vera áberandi og áhorfendum þarf að vera ljóst að þeir séu að koma á leik í Bestu deildinni.  Staðsetning Bestu deildar fána ætti að miðast við það.
 • Á leikjum Lengjudeildar karla og kvenna skal flagga 3 Lengjudeildarfánum
 • Á leikjum Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna skal flagga fána keppninnar. 
 • Á öllum leikjum skal fáni KSÍ vera uppi ásamt þjóðfánanum.
 • Í Bestu deildum karla og kvenna skal Bestu deilda fáni vera borinn út á undan liðunum þegar þau ganga til leiks (eða kominn út á völl í viðeigandi staðsetningu). 

Inngöngulög

Munið eftir inngöngulagi keppninnar ef slíkt er notað.  Í leikjum Bestu deildarinnar og Mjólkurbikarsins eru leikin sérstök inngöngulög þegar leikmenn ganga til leiks.

Aðstaða áhorfenda

Aðstaða áhorfenda á leikvöllum hefur batnað og mun batna verulega á næstu árum, en stöðugt þarf að huga að úrbótum og sækja á bæjaryfirvöld um aðstoð. Mikilvægt er að áhorfendur hafi ekki aðgang að leikvelli, leikmönnum eða dómurum.  Salernis-aðstaða þarf að vera fullnægjandi.  Stefna ætti að því að veita áhorfendum eins góða aðstöðu og þjónustu og mögulegt er, eins og öðrum mikilvægum viðskiptavinum.  Hafið jafnframt í huga kröfur um aðstöðu og aðgengi fyrir fatlaða stuðningsmenn.

Reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga

Ólíkir hópar áhorfenda

Áhorfendur koma á völlinn á ólíkum forsendum.  Sumir vilja sitja í rólegheitum og njóta þess að horfa á knattspyrnuleik, án þess að vera í miðjum harðasta kjarna stuðnings-manna.  Börn eru einnig mikilvægur hluti áhorfenda og taka verður tillit til þarfa barnanna og fjölskyldna þeirra.  Félögin eru því hvött til að afmarka svæði í áhorfenda-aðstöðu fyrir hörðustu stuðningsmannahópa – bæði fyrir heimalið og gestalið.  Staðsetningar þarf vitanlega að kynna fyrir hópunum þegar þeir koma á svæðið.

Bílastæði

Félög eru minnt á að merkja leið að bílastæðum og að stjórna umferð þar þannig að aðkoma áhorfenda að leikvelli verði sem best. Munið að huga að bílastæðum fyrir aðkomulið, dómara og eftirlitsmann.

Markatafla og klukka

Félögum í Bestu deildum og Lengjudeildum ber að hafa markatöflu og klukku á leikvelli sínum og starfsmann til að sinna henni.

Í öllum leikjum á að stöðva vallarklukku þannig að hún sýni 45 mín. í lok fyrri hálfleiks og 90 mín. í lok leiks. Sama gildir þegar leikir eru framlengdir, þ.e. að vallarklukka sýni 15 mín. í lok fyrri hálfleiks framlengingar og 30 mín. í lok framlengingar.

Risaskjáir á völlum félaga eru góð leið til að eiga samskipti við vallargesti og auka jákvæða upplifun þeirra af viðburðinum. Standi til að sýna sjálfan leikinn á risaskjánum (í heild sinni eða hluta) þarf að hafa reglur UEFA um slíkt í huga, sér í lagi hvað varðar endursýningar á atvikum leiksins og gæta þess að reglum og tilmælum UEFA/KSÍ sé fylgt (sjá nánar í viðauka). 

Hljóðkerfi

Félögum í Bestu deildum og Lengjudeildum ber að hafa hátalarakerfi á leikvöllum sínum. Mikilvægur þáttur í umgjörð leiksins er að koma skilaboðum og upplýsingum til áhorfenda.

Aðstaða liða

Heimafélag skal kappkosta að búa báðum liðum sem besta aðstöðu. Í búningsklefum beggja liða skal vera nuddbekkur og tafla fyrir leikrænar leiðbeiningar þjálfara. Búningsklefar, ásamt vinnuaðstöðu og þjónustusvæði, skulu að öllu jöfnu vera aðgengilegir fyrir bæði lið tveimur tímum fyrir leik. Æskilegt er að takmarka aðgengi aðila sem eru óviðkomandi leiknum og framkvæmd hans að fyrrgreindum svæðum frá þeim tíma. Aðkomulið kemur með sína eigin knetti til upphitunar.

Aðstaða eftirlitsmanns KSÍ

Eftirlitsmanni skal útvegað sæti á besta stað í stúku, eða á öðrum góðum stað sé stúka ekki til staðar.

Aðstaða dómara og aðstoðardómara

Lágmarksbúnaður í dómaraherbergi eru stólar, borð, tölva með nettengingu (vegna skráningar á leikskýrslu), skriffæri og flögg fyrir aðstoðardómara. Æskilegt er einnig að þar séu til staðar boltapumpa, loftmælir og vog.  Munið eftir aðstöðu fyrir fjórða dómara þegar við á.  Taka þarf frá upphitunarsvæði á vellinum fyrir dómara leiksins.

Upphitunarsvæði dómara (mynd).

Leikvöllur

 • Góður og sléttur leikvöllur er ein af forsendum skemmtilegrar knattspyrnu.  Grasvelli ætti að slá á leikdegi (sláttuhæð 25-30 mm).
 • Kynnið ykkur lágmarksstærð leikvalla í reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga.
 • Það er á ábyrgð heimaliðs að leikvöllur sé rétt merktur (helst eftir línu) og að það sé gert tímanlega. Mikilvægt er í þessu sambandi að fylgjast vel með veðri. Í mikilli vætu getur þurft að endurstrika línur rétt fyrir leik og í hálfleik.
 • Dómari og aðstoðardómarar skulu í sameiningu skoða leikvöll og vallaraðstæður fyrir leik. Fulltrúi heimafélags og/eða vallaryfirvalda skal ætíð vera tiltækur og einnig viðstaddur óski dómari þess.
 • Það er alfarið á valdi dómara að ákvarða hvort leikvöllur og vallaraðstæður séu fullnægjandi og hvort leikur skuli fara fram.
 • Ef leikvöllur er vökvaður fyrir leik og/eða í leikhléi, ber að upplýsa andstæðinginn um slíkt. Jafnframt ber þá að vökva báða leikhluta vallarins.

Varamannaskýli

Í öllum leikjum í meistaraflokki er gerð krafa um varamannaskýli og skulu þau rúma a.m.k. 14 manns.  Vakin er athygli á því að í keppni meistaraflokks mega varamenn vera allt að 7 og allt að 7 menn í liðsstjórn.  Á varamannabekk sitja aðeins þeir sem skráðir hafa verið á leikskýrslu. Félög skulu gæta þess að varamenn og liðsstjórn verði ekki fyrir aðkasti áhorfenda, t.d. með því að girða af varamannaskýli þar sem við á og nauðsynlegt þykir að gera slíkt. Mælt er með að fjarlægð girðingar til hliðar frá varamannaskýlum sé a.m.k. 10 metrar og 5 metrar aftur fyrir skýlin, þar sem því verður við komið.

Skiptispjöld

Skiptispjöld skulu vera til staðar á leikvöllum og skulu notuð til að auðvelda leikmannaskipti. Þar sem við á þurfa spjöldin a.m.k. að geta sýnt númer frá 1 upp í 99.  Skiptispjöldin skulu staðsett milli varamannaskýla eða hjá fjórða dómara.

Sjúkrabörur

Sjúkrabörur skulu vera tvær á öllum leikjum.  Heimalið þarf að manna þær  (2-4 starfsmenn). Í Bestu deildum, Lengjudeildum og í Mjólkurbikarnum (frá 32-liða úrslitum karla og frá 16-liða úrslitum kvenna) fá meiddir leikmenn ekki meðhöndlun á leikvelli. Þeir skulu fara út fyrir leikvöll til meðferðar og skal aðeins gera undantekningu þegar markvörður á í hlut eða dómari telur að um alvarleg meiðsli geti verið að ræða.  Dómarinn skal kanna hvort leik­maðurinn geti farið sjálfur af velli, en láta ella bera hann út af á sjúkrabörum. 

Læknir eða sjúkraþjálfari á leikjum

Í staðalformi leikmannasamnings er þess getið í kafla um skyldur félags að samningafélag skuli „sjá til þess að á leikjum meistaraflokks sé til taks læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraþjálfari“.

Staðalform leikmannasamnings

Hjartastuðtæki

Hjartastuðtæki á að vera til staðar á öllum leikvöngum og aðgengi að því auðvelt og fljótlegt komi upp sú staða að nota þurfi tækið á og/eða við leiksvæðið.

Mörk

Mörkin og netin skulu vera samkvæmt knattspyrnulögunum. Minnt er á, að markstangir og þverslá skulu vera hvítar að lit. Einnig þurfa að vera til staðar varamörk.

Hornfánar

Minnt er á að lágmarkshæð hornfána er 1,5 m.  Heimilt er að setja merki knattspyrnusambands eða knattspyrnufélags, merki viðkomandi keppni o.s.frv. á hornfánana.  Ekki er heimilt að setja auglýsingar á hornfána.

Auglýsingaskilti

Fjarlægðir frá auglýsingaskiltum að leikvelli verða að standast mannvirkjareglugerð.  Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga ef strikaður keppnisvöllur er færður til innan leiksvæðisins á keppnistímabilinu. 

 • Fjarlægð milli hliðarlínu og auglýsingaskilta skal vera a.m.k. 4 metrar.
 • Fyrir aftan mark skal fjarlægðin vera a.m.k. 5 metrar, en má minnka smám saman í 3 metra við hornfána.
 • Tveggja metra há auglýsingaskilti skulu vera 6 metra frá endalínu.
 • Liggjandi auglýsingar á öryggissvæði vallarins skulu vera 1 metra fyrir aftan endalínu og 1 metra frá marki. Auglýsingarnar mega ekki skyggja á aðrar auglýsingar eða hafa truflandi áhrif á umgjörð leiks. Ekki er heimilt að vera með liggjandi auglýsingu á hliðarlínu valla.

Auglýsingarnar skulu vera úr efni sem er ætlað til slíkra nota og festar á þann hátt að þær færist ekki úr stað né valdi hættu fyrir leikmenn eða aðra. Auglýsingarnar verða að þola að gengið sé á þeim.

Fánar og fánastangir

 Á leikvöngum í Bestu deildum skulu vera a.m.k. 12 fánastangir, en 6 í Lengjudeildum.

Samþykktar tillögur ársþings KSÍ 2023 um flóðlýsingu og ljósleiðaratengingu

Ársþing KSÍ 2023 samþykkti tvær tillögur sem snúa að mannvirkja- og aðstöðumálum.  Annars vegar er um að ræða samþykkt tillögu um flóðlýsingu á leikvöllum og hins vegar samþykkt tillögu um ljósleiðaratengingu.  Rétt er að geta þessara samþykkta hér, þó þær komi ekki til framkvæmda fyrir komandi keppnistímabil.

 • Ársþing KSÍ samþykkir að sett verði inn ákvæði í reglugerð um knattspyrnuleikvanga að allir leikvellir í efstu deild karla og kvenna verði búnir flóðljósum með að lágmarki 800 lux (útfærsla í höndum mannvirkjanefndar) og uppfylli önnur skilyrði sem UEFA setur varðandi flóðlýsingu á leikvöllum.  Aðlögun verði gefin til þess að uppfylla þetta skilyrði til upphaf keppnistímabilsins 2026.
 • Ársþing KSÍ samþykkir að sett verði inn ákvæði í reglugerð um knattspyrnuleikvanga að allir leikvellir í tveimur efstu deildum karla og kvenna séu tengdir ljósleiðara-tengingum og verði félögum veitt aðlögun til keppnistímabilsins 2024 til þess að verða við þessum breytingum.

Umgjörð leikja skal vera í anda íþróttarinnar

Framkvæmdaraðili leiks skal leitast við að skapa umgjörð í kringum leikinn af sönnum íþróttaanda og er því óheimilt að gera nokkuð það í umgjörð leiksins sem mismunað getur félögum. Þetta getur átt við um vinnu boltakrakka, yfirborð leikvallarins, notkun hljóðkerfis og annað í tengslum við umgjörð og framkvæmd leiksins. 

Dagur, tími og leikvöllur

Munið að láta alla hlutaðeigandi vita ef leikdegi, leiktíma og/eða leikvelli hefur verið breytt frá mótaskrá.

Búningar liða (og litblinda)

Klukkustund fyrir leik skulu forráðamenn beggja liða sýna dómurum keppnisbúninga sína.  Að öðru leyti ákveður dómari hvar og hvenær hann skoðar búnað leikmanna fyrir leik.  Séu búningar keppnisliðanna of líkir að mati dómara, ber aðkomuliði að leika í varabúningi. Samkvæmt reglugerð KSÍ um búnað knattspyrnuliða skulu aðalllitir varakeppnisbúnings vera aðrir en litir aðalkeppnisbúnings. Hér þarf að gæta þess að litirnir séu aðgreinanlegir m.t.t. litbindu.  Gæta skal þess jafnframt að búningur markvarðar sé ekki líkur búningum útileikmanna liðanna.

Gæta þarf sérstaklega að búningum liða, litum þeirra og samsetningu, þegar um er að ræða leik í beinni sjónvarpsútsendingu.  Ákjósanlegast er að annað liðið sé í ljósum búningum og hitt í dökkum, þar sem því verður við komið.

Í viðauka með Handbók leikja er að finna yfirlit yfir búninga liða í leikjum Bestu deilda og Lengjudeilda, skv. upplýsingum frá félögunum.  Fylgið því yfirliti, en gerið ráðstafanir þar sem þarf sbr. litblindu. Tilkynnið um breytingar.

Athugið að leikmaður má ekki klæðast búningi sem á eru blóðblettir.  Hafið því ávallt ónúmeraða treyju og buxur til taks á varamannabekk fyrir leikmann sem verður fyrir því að fá blóð í búning sinn.

Reglugerð KSÍ um búnað knattspyrnuliða

Litblinda:

1 af hverjum 12 körlum og 1 af hverjum 200 konum er litblind. Litblinda getur haft áhrif á alla sem tengjast knattspyrnu - áhorfendur, leikmenn, þjálfara, dómara og aðra starfsmenn í kringum leikinn. Félögum er sérstaklega bent á að hafa litblinda þátttakendur leiksins í huga við litaval á keppnisbúningum sínum.

Algeng litblinda:

 • Rauður-grænn-grár (algengasta litblindan).
 • Blár-ljósblár-fjólublár.
 • Gulur-appelsínuguur.
 • Gulur-rauður.
 • Rauður-vínrauður-brúnn.

Í einhverjum tilfellum getur verið snúið að koma í veg fyrir árekstra, en ef algengasta litblindan hér að ofan er höfð í huga, eða að annað liðið sé í ljósum búningum en hitt í dökkum, þá gerbreytir það leiknum fyrir litblinda.

Litblinda í fótbolta

Leikur skal byrja á réttum tíma

Liðin eru minnt á að koma strax úr búningsklefa þegar dómari kallar þau til leiks. Allir leikmenn skulu ganga saman til leiks. Leikurinn skal hefjast á réttum tíma.  Það er sérstaklega mikilvægt þegar leikur er í beinni útsendingu sjónvarps að hann hefjist ekki fyrr en útgefinn leiktími segir til um. Hálfleikurinn ætti að vera nákvæmlega 15 mínútur og alls ekki styttri sé um beina sjónvarpsútsendingu að ræða.

Frítt á leiki

Ef boðið er frítt á tiltekna leiki, t.d. í boði ákveðins fyrirtækis, þá þarf hver og einn vallargestur að vera með aðgöngumiða á völlinn, til að hægt sé að fylgjast nákvæmlega með fjölda áhorfenda.  Þannig mætti t.d. bjóða fólki að sækja frímiða á ákveðinn stað fyrir viðkomandi leik (eða bjóða fólki að sækja miða í miðasöluappið Stubb þar sem við á).  Það skiptir máli að áhorfendatölur séu áreiðanlegar og eins nákvæmar og hægt er.

Heiðursgestur, mínútuþögn o.fl.

Þegar félag býður heiðursgesti á leik, sem heilsar upp á liðin áður en leikur hefst, er nauðsynlegt að kynna slíkt fyrir aðkomuliði og dómara þannig að fullt tillit verði tekið til þess.  Tilkynnið einnig dómara ef lukkukrakkar fylgja liðum út á völlinn, ef haldin verður mínútuþögn fyrir leikinn, eða ef um aðrar uppákomur er að ræða. Jafnframt þarf að tilkynna sjónvarpsrétthafa um allar slíkar uppákomur ef um beina útsendingu er að ræða.

Skemmtiatriði

Félög þurfa að laða að áhorfendur. Skemmtiatriði, lukkudýr, hressileg tónlist og aðrar uppákomur fyrir leik eða í hálfleik geta haft góð áhrif á aðsókn.

Rafknúin gjallarhorn, trommur og/eða önnur hljóðfæri

Vakin er athygli á rafknúnum gjallarhornum sem notuð eru á meðal (oftast) hörðustu stuðningsmanna liðanna.  Það er algjörlega á valdi vallaryfirvalda á hverjum stað fyrir sig að setja reglur um gjallarhorn, trommur og/eða önnur hljóðfæri.  Það sem ber að hafa í huga er að notkunin trufli ekki aðra vallargesti og hafi bein (neikvæð) áhrif á upplifun þeirra af leiknum. 

Ef notkunin gengur út á að hvetja stuðningsmenn til dáða og stýra stemmningunni ætti ekki að gera athugasemdir við notkunina.  Ef hins vegar gjallarhornið er notað til að koma miður fallegum skilaboðum áleiðis, til hvaða aðila sem er, ætti tafarlaust að gera viðeigandi ráðstafanir.

Boðvangurinn

Boðvangurinn er vinnusvæði þjálfara og annarra starfsmanna liðanna sem skráðir eru á leikskýrslu.  Þar ættu engir aðrir að vera nema þeir sem skráðir eru á leikskýrsluna.  Þjálfarar og aðrir starfsmenn verða að fá vinnufrið á sínu svæði.

Keppnisknettir

 Í Bestu deildum og í Mjólkurbikarkeppni karla (frá og með 32-liða úrslitum) leggur heimalið til 7 löglega og eins leikknetti. Í öðrum deildum og í öðrum umferðum Mjólkurbikarkeppni karla leggur heimalið til 3 eins leikknetti.  Þeim skal komið fyrir í dómaraklefa áður en dómarar mæta til leiks.  Gott væri að hafa t.d. appelsínugula knetti til taks í  haustleikjum.

Boltakrakkar

Heimalið skipar boltakrakka sem gæta aukaknatta (gott er að hafa sérstaka boltastanda). Félög skulu gefa krökkunum fyrirmæli um að leika sér ekki með aukaknetti. Í leikjum Bestu deilda og Lengjudeilda klæðast boltakrakkar merktum vestum. Í úrslitaleikjum Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna (og í öðrum leikjum í beinni útsendingu) klæðast boltakrakkar vestum/treyjum með merki bikarsins (ef við á). Boltakrakkar skulu vera 12 ára eða eldri (4. flokkur).

Lukkukrakkar

Fyrir hvern leik í Bestu deildum ganga lukkukrakkar inn á leikvöllinn með liðunum, í búningum sinna félaga. Fjöldi lukkukrakka í hverjum leik og fyrirkomulag er samkomulagsatriði milli félaganna sem leika.

Dómarar og aðstoðardómarar

Félög eru minnt á að tryggja örugga brottför dómara og aðstoðardómara af vettvangi leiksins.

Skilagrein

Eftir leiki í Mjólkurbikarkeppninni ganga félögin sameiginlega frá skilagrein á sérstöku eyðublaði sem KSÍ hefur gefið út. Eyðublaðið er aðgengilegt á vef KSÍ sem formúlusett Excel-skjal undir „Um KSÍ“).  Fjöldi áhorfenda skal ávallt koma skýrt fram.

Í leikjum bikarsins greiða félögin sjálf 20% framkvæmdargjald sem rennur til heimaliðs og ferðakostnað aðkomuliðs og skal sá kostnaður færður á skilagreinina. Skilagreinin skal berast til skrifstofu KSÍ innan 8 daga frá leikdegi ásamt greiðslu í tapsjóð sem greiðist af nettótekjum frá og með 16 liða úrslitum sem hér segir:

 • 10% í 16 og 8 liða úrslitum
 • 15% í undanúrslitum og úrslitaleik

Skilagrein yfir tekjur og gjöld í bikarkeppni

Aðkomulið

Fulltrúi heimafélags tekur á móti aðkomuliði og vísar því til búningsklefa.  Í hálfleik og í leikslok skal vera kaffi (og/eða te) í klefanum fyrir liðið og svaladrykkir.

Móttaka gesta og veitingar

Það er sjálfsögð kurteisi að bjóða forráðamönnum aðkomuliðs og eftirlitsmanni KSÍ (ásamt öðrum gestum heimaliðsins) í veitingar í hálfleik. Slíkt þarf að gera með ákveðnum hætti fyrir leik.  Í sumum tilfellum eru forráðamenn gestaliðs komnir á leikstað á sama tíma og leikmenn og þjálfarar (70-90 mínútum fyrir leik).  Þá er auðvitað sjálfsagt að bjóða fólki upp á kaffi.

Veitingasala

Veitingasölu þarf að undirbúa vel enda mikilvæg þjónusta við áhorfendur. Seljið alla drykki helst í plast- eða pappamálum. Glerflöskur eru bannaðar

Ef drykkir eru seldir í plastflöskum með skrúfutappa ætti að taka tappann af áður en kaupanda er afhent flaskan.  Ef drykkir eru seldir í áldósum ætti að opna dósina áður en kaupanda er afhent dósin.  Upp hafa komið mál þar sem lokuðum plastflöskum eða áldósum er kastað í dómara, starfsmenn eða áhorfendur.  Ef tappinn er tekinn af plastflöskunni eða áldósin opnuð er mun erfiðara að kasta flöskunni/dósinni.

Dómarar og eftirlitsmaður

 • Dómari og aðstoðardómarar skulu vera komnir á leikstað eigi síðar en klukkustund fyrir leik og skal fulltrúi heimafélags taka á móti þeim. Ef dómari er ekki mættur 45 mínútum fyrir leik skal strax haft samband við mótavakt KSÍ (510-2925). 
 • Heitir drykkir og svaladrykkir skulu vera til reiðu í dómaraherbergi fyrir leik, í leikhléi og eftir leik.
 • Eftirlitsmaður KSÍ skal koma á leikstað eigi síðar en klukkustund fyrir leik og skal hann strax hafa samband við fulltrúa heimafélags og dómara. Hann skal fullvissa sig um að aðbúnaður aðkomufélags sé í lagi.
 • Bjóðið eftirlitsmanni upp á heita drykki fyrir leik og í hálfleik (athugið að hann fer ekki inn í dómaraklefann í hálfleik).
 • Eftirlitsmaður er opinber fulltrúi KSÍ á leik. Hann þarf að eiga frjálsan aðgang að öllu vallarsvæðinu fyrir leik og meðan á leik stendur. Hlutverk eftirlitsmanns er annars vegar að gefa skýrslu um frammistöðu dómara og aðstoðardómara og hins vegar um allt er varðar framkvæmd leiks og umgjörð hans. Að leik loknum skal eftirlitsmaður fara til dómaraherbergis og staðfesta leikskýrslu með áritun sinni og kennitölu.
 •  Fyrir leik og eftir að leik lýkur skulu dómari og aðstoðardómarar að jafnaði hafa algert næði í búningsherbergi sínu. Undantekningar eru óhjákvæmileg samskipti þeirra við eftirlitsmann og fulltrúa félaganna. Heimafélag skal gæta þess, að þeir verði ekki fyrir óþarfa truflun og þá skal alls ekki ónáða í leikhléi.

Ábyrgðarmaður leiksins

Félög ættu að tilgreina einn aðila sem er ábyrgur fyrir framkvæmd leiksins og umgjörð hans.  Ábyrgðarmaðurinn stjórnar öllum aðgerðum og verður að vera staðsettur þannig á leikvanginum að auðvelt sé að ná til hans.  Þá verður að nást í hann símleiðis fyrir leik, á meðan á leik stendur og eftir leik.  Mikilvægt er að dómarar og eftirlitsmaður geti leitað til hans, sem og fulltrúar gestaliðs, fulltrúar fjölmiðla og aðrir. Ábyrgðarmaðurinn gefur sig fram við dómara og eftirlitsmann þegar þeir mæta til leiks. Í flestum tilfellum ætti þetta að vera framkvæmdastjórinn.  Athugið að hann ætti ekki jafnframt að gegna hlutverki öryggisstjóra, fjölmiðlafulltrúa, tengiliðs við stuðningsmenn, og/eða öðrum stórum hlutverkum í framkvæmd leiksins.

Öryggisstjóri

Í samræmi við reglur leyfiskerfis KSÍ hafa félög í Bestu deild karla skipað öryggisstjóra heimaleikja.  Hann skal vera tiltækur á öllum heimaleikjum félagsins og hafa náið samstarf við vallarþul og ábyrgðarmann leiksins.  Æskilegt er að viðkomandi hafi reynslu af skipulagningu gæslumála á íþróttaviðburðum eða öðrum ámóta samkomum og gerð er krafa um að hann uppfylli þau skilyrði sem skilgreind eru í leyfisreglugerð KSÍ.

Leyfisreglugerð KSÍ

Tengiliður við stuðningsmenn / Tengiliður við fatlaða stuðningsmenn

Í samræmi við reglur leyfiskerfis KSÍ hafa félög í Bestu deild karla skipað sérstakan tengilið við stuðningsmenn og jafnframt sérstakan tengilið við fatlaða stuðningsmenn og er þeim báðum ætlað að hafa náið samstarf við öryggisstjóra. 

Helstu hlutverk beggja:

 • Tengill milli knattspyrnufélagsins og stuðningsmanna liða þess, ábyrgur fyrir upplýsingagjöf til allra viðeigandi aðila.
 • Þarf að þekkja siði og venjur helsta stuðningsmannahóps og njóta trausts bæði stuðningsmannanna og fulltrúa félagsins.
 • Hefur samband við tengiliði hjá öðrum félögum fyrir leiki til að afla upplýsinga og veita upplýsingar um fyrirætlanir og venjur stuðningsmanna liðanna.

Tengiliður við fatlaða stuðningsmenn:

 • Heldur einnig utan um stuðning við fatlaða stuðningsmenn og tryggir aðgengilega aðstöðu og þjónustu fyrir þá.

Leyfisreglugerð KSÍ

Gæslumenn

Gæslu má skipta í tvennt, annars vegar er um að ræða gæslu við ytri mörk leikvallar og hins vegar við leikvöll. Heimafélag er ábyrgt fyrir öryggi leikmanna, dómara, aðstoðardómara og eftirlitsmanns. Skal þess vandlega gætt að nauðsynleg öryggisgæsla sé til staðar og að leikmenn, dómarar og aðstoðardómarar fái fylgd að og frá leikvelli þannig að áhorfendur eða forráðamenn félaga eigi ekki óhindraðan aðgang að þeim (sérstaklega í leikslok). Gefið þessum aðilum skýr fyrirmæli þannig að gæslan bregðist ekki. Þetta er sérlega mikilvægt, þegar ekki er unnt að aðskilja leiðir leikmanna og dómara annars vegar og áhorfenda hins vegar. Munið að ævinlega þarf sérstaka menn til að gæta öryggis dómara og aðstoðardómara.  Lágmarksfjöldi gæslumanna í Bestu deildum og Lengjudeildum er 5.  Athugið að gæslumenn skulu vera auðkenndir á áberandi hátt til að ekki fari á milli mála hverjir eru í gæslu.  Athugið einnig að gæslumenn eru starfsmenn leiksins og eiga því að gæta fyllsta hlutleysis og gæta framkomu sinnar gagnvart dómurum, áhorfendum og öðrum.

Starfsmenn á öryggisvæði vallarins

Starfsmenn leiks sem þurfa að sinna störfum sínum inni á öryggissvæði vallarins skulu vera auðkenndir á áberandi hátt til að ekki fari á milli mála að þeir séu þar til að sinna hlutverki sínu. Þetta getur t.d. átt við um vallarstarfsmenn, starfsmenn félaganna og aðra.

Kynnir (vallarþulur)

Býður fólk velkomið til leiks í viðkomandi móti. Jafnframt ætti hann að vekja athygli vallargesta á því að leikskýrslu leiksins megi þá þegar nálgast á vef KSÍ.  Vallarþulur kynnir liðin (fyrst gesti), dómara og eftirlitsmann við upphaf leiks, tilkynnir hverjir skora mörk og þegar skiptingar eiga sér stað, auk þess að tilkynna um mörk sem skoruð eru í öðrum leikjum sem fara fram á sama tíma. Ekki er mælt með því að vallarþulur tilkynni um hverjir hljóti áminningar í leiknum, hvorki leikmenn né aðrir. Stuðningi vallarþular við heimalið í gegnum hátalarakerfi vallarins ætti að stilla í hóf og slíkt ætti ekki að eiga sér stað á meðan leikur er í gangi.

Fjölmiðlafulltrúi

Í samræmi við reglur leyfiskerfis KSÍ hafa félög í Bestu deild karla skipað sérstakan fjölmiðlafulltrúa. Fjölmiðlafulltrúi heimaliðs þarf að vera tiltækur á öllum leikjum í deildinni. Afar mikilvægt er að fjölmiðlafulltrúi sé sýnilegur þannig að fjölmiðlafólk geti leitað til hans. Hann skal hafa yfirumsjón með þjónustu við fjölmiðla á leikstað, sjá til þess að leikskýrslur berist og aðstoða við að afla viðtala að leik loknum.  Þegar um beina útsendingu er að ræða gefur fjölmiðlafulltrúi sig fram við starfsfólk sjónvarpsstöðva fyrir leik og ræðir staðsetningu sjónvarpsviðtala í hálfleik og að leik loknum. 

Æskilegt er að fjölmiðlafulltrúi hafi reynslu af fjölmiðlun, hafi þjónustulund og góða hæfileika í almennum samskiptum við fólk.

Ef mögulegt er ætti fjölmiðlafulltrúi að fylgja sínu liði í útileiki.  Þátttaka hans í þjónustu við fjölmiðla að leik loknum (viðtöl) getur skipt sköpum, sérstaklega í beinum útsendingum.

Fjölmiðlafulltrúi á að fylgja sínu liði í úrslitaleikjum Mjólkurbikarsins og aðstoða við öflun viðtala að leik loknum.

Leyfisreglugerð KSÍ

Markaðsfulltrúi 

Til að vinna að aukningu áhorfenda er lagt til að öll félög skipi sérstakan markaðsfulltrúa, sem hefur það hlutverk að vinna markvisst að því að auka fjölda áhorfenda á heimaleikjum síns liðs. Markaðsfulltrúinn ætti að vera virkur í skipulagningu og framkvæmd heimaleikja síns félags.

Almennt eru öll félög hvött til að skipa í fyrrgreindar stöður, burtséð frá því í hvaða deild er leikið og burtséð frá því hvort félagið undirgangist leyfiskerfi KSÍ.

Aðstaða fulltrúa fjölmiðla

Starfsmönnum fjölmiðla þarf að skapa sem besta vinnuaðstöðu. Félög eru minnt á kröfur í reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga. Vinnusvæði fjölmiðla þurfa að vera vel skilgreind og aðgreind frá öðrum svæðum á leikvanginum, s.s. svæði keppnisliðanna og áhorfenda, með viðeigandi girðingu og/eða gæslu.  Félög eru jafnframt minnt á að skapa sem besta aðstöðu til sjónvarps- og útvarpssendinga frá leikvöllum sínum.

Reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga

Sjónvarp og útvarp – Aðkoma útsendingarbíla

Útsendingarbílar þurfa að hafa auðvelt aðgengi að leikvanginum og að vinnusvæði sjónvarps.  Ábyrgðarmaður leiks eða fjölmiðlafulltrúi ætti að gefa sig fram við starfsfólk sjónvarps um leið og bíllinn kemur að leikvanginum og aðstoða eftir bestu getu þannig að undirbúningur útsendingar geti hafist og gangi snurðulaust.  Aðgangur að rafmagni strax við komu er lykilatriði.

Æskilegt er að ljósleiðari sé á sama stað og rafmagnstengi fyrir útsendingarbíl.  Allur leikurinn er tekinn upp í háskerpu (HD) og því nauðsynlegt að aðgengi að ljósleiðara sé til staðar strax við komu á leikvang, hvort sem um að ræða beina útsendingu með útsendingarbíl og viðeigandi útbúnaði eða einungis eina vél sem tekur upp leikinn.

Nauðsynlegt er öryggis vegna að útsendingarbílarnir séu afgirtir frá áhorfenda-svæðum og með viðeigandi gæslu þar sem þarf.  Stórtjón getur orðið á búnaði sé hann rifinn fyrirvaralaust úr sambandi.  Eins er augljóst að ef samband við rafmagn og/eða ljósleiðara rofnar, þá rofnar útsendingin.

Sjónvarp og útvarp - Lýsendur

Samkvæmt reglugerð KSÍ um knattspyrnuleikvanga er mælt með minnst tveimur föstum básum fyrir sjónvarpsþuli og útvarpsþuli. Þeir skulu vera fyrir miðjum velli, helst gegnt aðalstúku, sömu megin og aðalmyndavélarnar, undir þaki frekar en inni, og auðvitað með góðu útsýni yfir leikvöllinn, þannig að gæta þarf þess að hafa gluggana nógu stóra (gámaþjónustur eru með góðar lausnir). Plexigler eða annar álíka búnaður skal aðskilja þularbása frá áhorfendum þar sem við á. Í hverjum bás skal vera borð til skrifta o.fl. og básinn vel upplýstur. Þá skal vera símatengi í hverjum þularbás. Athugið að aðalmyndavél sjónvarps verður að vera sömu megin á öllum leikjum. Félögin verða að tryggja að myndatökumenn fylgi því.

Aðalmyndavél sjónvarps – Staðsetning og aðstaða

Kjörstaðsetning aðalmyndavélar sjónvarps er á móti aðalstúku þannig að áhorfendur séu í bakgrunni. Hæðin þarf að vera í 5 metrum eða ofar (t.d. ofan á tveimur gámum) og fjarlægð frá hliðarlínu ætti að vera a.m.k. 10 metrar (10-15). Myndavélin verður að geta séð allan völlinn. Engir áhorfendur (eða aðrar hindranir) ættu að vera fyrir framan aðalmyndavél. Ekkert má skerða útsýni og sjónarhorn aðalmyndavélar (frekar en annarra véla).

Hefðbundin uppsetning útsendingar er þannig að tvær myndavélar eru fyrir miðjum velli gegnt stúku ofan á gámnum (aðalmyndavél og vél fyrir nærmyndir). Myndavélar (2) á pöllum á hliðarlínu við sitt hvorn vítateiginn. Myndavél milli varamannabekkja (þar sem því er við komið) eða til hliðar við varamannabekki. Sú vél fer að öllu jöfnu út á völl fyrir og eftir leik. Í sumum tilfellum er bætt við myndavél(um) fyrir aftan mörkin.

Sjónvarpsgámar – Myndatökumenn og öryggi þeirra

Gæta þarf vel að öryggi myndatökumanna á þeim völlum þar sem svokallaðir sjónvarpsgámar eru til staðar. Girðing ofan á gámnum þarf að vera trygg (hæð 140 cm), sem og stiginn upp á gáminn (fastur með þrepum). Myndatökumönnum verður að skapa öruggt og þægilegt vinnuumhverfi, enda starfa þeir oft við erfiðar veðurfarslegar aðstæður.

Sjónvarpsgámar – Hljóðeinangrun

Í sjónvarpsgámum verður að setja upp e.k. hljóðeinangrun svo hljómgæði lýsenda í útsendingum verði sem best (ekki „dósahljóð“). Úr þessu er auðvelt að bæta með t.d. steinullarplötum eða gardínum á veggina.

Viðtalsbakgrunnur fyrir sjónvarpsviðtöl

Félög ættu að setja upp viðtalsbakgrunna fyrir sjónvarpsviðtöl eftir leiki.  Staðsetningar ættu að vera í samráði við fulltrúa sjónvarpsstöðvanna og KSÍ.  Á viðtalsbakgrunninum ættu merki helstu samstarfsaðila félaganna auðvitað að vera, auk merkis KSÍ og merkis þess móts sem leikið er í hverju sinni.  Hafið bakgrunninn nógu stóran til að fleiri en einn miðill geti athafnað sig þar á sama tíma.  Jafnvel betra er að vera með tvo bakgrunna. 

Þráðlaust net í fjölmiðlaaðstöðu

Minnt er á að setja verður upp þráðlaust net í aðstöðu fjölmiðla. Öflug og traust tenging við internet er algjör grundvallarforsenda þess að fulltrúar fjölmiðla geti unnið sitt starf. Aðgangur fjölmiðla að interneti verður að vera læstur með lykilorði sem einungis fulltrúar þeirra hafa aðgang að. Reikna ætti með að búnaður þráðlauss nets ætti að ráða við a.m.k. 20 tengingar. 

Vinnusvæði ljósmyndara

Mikilvægt er að ljósmyndarar fái ekki mismunandi skilaboð um hvar þeir geti athafnað sig frá einum leik til annars á viðkomandi leikvangi. Meðan á leik stendur skulu ljósmyndarar eingöngu vera við endalínur, en við hliðarlínu þar sem því verður við komið, þó ekki ofar en að vítateigslínu (16 metra) og alls staðar í hæfilegri fjarlægð frá línum vallarins (3-5 metra). Merkja ætti fjarlægðir með einföldum og skýrum hætti.

Ljósmyndarar skulu vera aðgreindir sérstaklega frá öðrum með þar til gerðum vestum. Grár eða brúnn litur er ákjósanlegur fyrir slík vesti, en einnig má notast við t.d. skærgræn. Ljósmyndarar eiga aldrei að fara inn á leikvöllinn, nema með sérstöku leyfi vallaryfirvalda.

Skýringarmynd - vinnusvæði ljósmyndara

Aðgengi sjónvarpsrétthafa

Félög eru hvött til að taka vel í beiðnir fulltrúa sjónvarpsrétthafa um (aukið) aðgengi að leikmönnum, þjálfurum og öðrum fulltrúum sínum og greiða götuna eins og hægt er.  Meiri og betri innsýn inn í starf félaganna og keppnisliða á þeirra vegum gerir knattspyrnuíþróttina meira aðlaðandi og verðmætari fyrir knattspyrnuáhugafólk, fyrirtæki/samstarfsaðila, fjölmiðla og aðra.  Dæmi um slík verkefni eru myndefni frá svæðum þar sem allajafna eru ekki sjónvarpsmyndavélar (búningsklefi fyrir leik, liðsfundur) og veitir þannig innsýn í undirbúning fyrir leiki og nálægð við leikmenn og þjálfara sem stuðningsmenn upplifa allajafna ekki.

Sjónvarpsefni félaga

Félögum sem leika í Bestu deildum karla og kvenna og Mjólkurbikarnum er heimilt að mynda hreyfimyndir (sjónvarpsefni/Club TV) í tengslum við leiki í þeim mótum, að fenginni heimild frá sjónvarpsrétthafa (Stöð 2 sport).  Sjónvarpsrétthafi hefur ávallt forgang varðandi staðsetningar myndavéla (fastar eða hreyfanlegar).  Sjónvarpsmyndavél félags getur, að fengnu samþykki sjónvarpsrétthafa, myndað öll svæði leikvangsins, nema sjálfan leikflötinn á meðan á leik stendur.  

Félagi er skylt að afhenda / deila sjónvarpsmyndefni frá viðkomandi leik með sjónvarpsrétthafa, sé þess óskað.  Sjónvarpsrétthafinn deilir jafnframt myndefni frá leikjunum með viðkomandi félögum, sé þess óskað.  Félögum er að sjálfsögðu heimilt að ljósmynda öll svæði leikvangsins, þar með talinn leikflötinn.

Í mótum þar sem ekki er um einkarétt á sjónvarpsútsendingum að ræða eru viðkomandi félög hvött til að streyma sínum leikjum og bjóða þannig sínum fylgjendum (þeim sem ekki komast á leikina sjálfa) upp á möguleikann að horfa á leiki í beinni vefútsendingu.  Slík þjónusta eflir og styrkir tengslin milli liðsins og stuðningsmanna þess, auk þess að bjóða upp á möguleika á markaðssetningu og tekjuöflun.  Leikir í meistaraflokkum sem eru sýndir í gegnum streymi félaga verða merktir með viðeigandi hætti (merki Club TV eða annað) í leikjalista viðkomandi móts á vef KSÍ.

Þjónusta við fjölmiðla

Leikskýrslu skal komið til fjölmiðla eins fljótt og mögulegt er. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um beina sjónvarpsútsendingu er að ræða. Munið eftir veitingum handa fjölmiðlafólki (ekki gleyma ljósmyndurum og starfsfólki sjónvarpsrétthafa). Afar mikilvægt er að fjölmiðlafulltrúi félags sé til staðar og sé sýnilegur þannig að fjölmiðlafólk geti leitað til hans.

Sjónvarpsviðtöl

Fjölmiðlafulltrúi félags gefur sig fram við starfsfólk sjónvarpsstöðva fyrir leik og ræðir staðsetningu sjónvarpsviðtala fyrir leik, í hálfleik og að leik loknum. Mikilvægt er að sýna samstarfsvilja og sveigjanleika svo hægt verði að ná sem bestum árangri fyrir alla aðila. Félög þurfa að gefa leikmönnum og þjálfurum skýr fyrirmæli um staðsetningu sjónvarpsviðtala.

Athugið að sjónvarpsrétthafi (Stöð 2 Sport) hefur alltaf forgang í viðtöl. Ef leikmaður eða þjálfari er að bíða eftir að fara í viðtal við Stöð 2 Sport í beinni útsendingu ætti að gæta þess að hann fari ekki fyrst í annað viðtal.

Viðtöl fulltrúa fjölmiðla við leikmenn og þjálfara

Mikilvægt er að gefa fjölmiðlafólki tækifæri á viðtölum við þjálfara og leikmenn að leik loknum hvort sem um beina útsendingu frá leiknum er að ræða eður ei. Hafið einnig í huga að prentmiðlar vinna oft á þröngum tímaramma, takið tillit til þeirra. 

Athugið að blaðamenn ættu aldrei að fara inn fyrir girðingu og inn á völlinn í leikslok, ekki frekar en aðrir vallargestir. Aðeins fulltrúar sjónvarpsstöðvar í beinni útsendingu (rétthafi) geta verið fyrir innan girðingu. 

Sjónvarpsvélar og ljósmyndarar eiga aldrei að vera inni í búningsklefa leikmanna, nema með samþykki viðeigandi aðila. 

Í beinni sjónvarpsútsendingu:

 • Fjölmiðlafulltrúi gefur sig fram við fulltrúa sjónvarpsrétthafa (Stöð 2 Sport) fyrir leik og ræðir staðsetningar og fyrirkomulag viðtala í hálfleik og að leik loknum.  Viðtöl fyrir leik og í hálfleik geta farið fram hvar sem er, en viðtöl eftir leik ættu alltaf að fara fram hjá viðtalsbakgrunni. 
 • Skömmu fyrir leikslok fær fjölmiðlafulltrúi upplýsingar hjá fulltrúa sjónvarpsrétthafa um hvaða leikmönnum er óskað eftir í viðtal.  Þjálfarar beggja liða koma fyrstir í viðtal, strax eftir að flautað er af, og þá gefst fjölmiðlafulltrúanum tími til að sækja þá leikmenn sem óskað var eftir.  Þjálfarar og leikmenn eiga að vera klárir í viðtal strax eftir leik og fara ekki fyrst inn í búningsklefa.

Í öðrum leikjum og fyrir alla aðra fjölmiðla: 

 • Fjölmiðlafulltrúi kynnir fyrir blaðamönnum og öðrum viðeigandi aðilum hvar leikmenn verði til taks í viðtöl eftir leik.  Staðsetning ætti að vera ákveðin fyrir keppnistímabilið í samráði við fjölmiðla, nærri búningsklefum, og ætti að haldast óbreytt milli leikja. 
 • Mikilvægt er að fjölmiðlafulltrúi félags sé nálægur til að aðstoða fjölmiðla við öflun viðtala.  Að öllu jöfnu ættu leikmenn og þjálfarar að vera klárir í viðtöl eigi síðar en 10 mínútum eftir að leik lýkur.  

Fjölmiðlafulltrúar félaga eru hvattir til að þrýsta á fulltrúa fjölmiðla að sameinast um viðtöl, sérstaklega við þjálfara liðanna. Ótækt er að þjálfari þurfi að fara í einstaklingsviðtal við alla þá fjölmiðla sem viðstaddir eru leikinn, jafnvel 7-8 viðtöl eftir einn leik.

Úrslitaleikur í Mjólkurbikarkeppninni

Í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppninnar getur einungis sjónvarpsrétthafi fengið viðtöl við þjálfara og/eða leikmenn allt þar til verðlaunaafhendingu og myndatöku lýkur. Þegar sjónvarpsrétthafi hefur lokið sínum viðtölum og sinni útsendingu er fréttamönnum annarra miðla hleypt að.

Félög sem leika til úrslita í Mjólkurbikarkeppninni þurfa að virkja fjölmiðlafulltrúa sína á leiknum, til að styðja fulltrúa sjónvarpsrétthafa við öflun viðtala fyrir leik, í hálfleik og sér í lagi eftir leik.

Leikskýrsla - Form og vinnulag

 • Vinna við gerð leikskýrslunnar fer fram með lykilorði viðkomandi félaga á svæðinu „Innri vefur“ á vef KSÍ.
 • Hvert félag stofnar lista (leikskýrslulista) yfir leikmenn/forráðamenn í viðkomandi aldursflokki.
 • Leikskýrslan er skráð með því að velja viðkomandi leik og velja leikmenn/ forráðamenn á hana úr tilheyrandi leikskýrslulista.
 • Þegar bæði lið hafa fyllt út leikskýrsluna er hún prentuð út, undirrituð af fulltrúum beggja félaga og afhent dómara leiksins, eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik. Bæði félög geta fyllt út skýrsluna með góðum fyrirvara, þess vegna daginn áður. Sú skráning er aðeins aðgengileg viðkomandi félagi og birtist ekki á vef KSÍ fyrr en klukkustund fyrir skráðan leiktíma. Skýrslan er hins vegar ekki aðgengileg til útprentunar fyrr en klukkustund fyrir upphaflegan leiktíma.
 • Í leikjum þar sem dómari er tilnefndur af KSÍ skal hann skrá atburði leiksins á leikskýrslu og staðfesta hana áður en hann yfirgefur leikstað. Í búningsherbergi dómara þarf því að vera nettengd tölva til afnota fyrir dómara leiksins. Í öðrum leikjum ber heimalið ábyrgð á að fylla út leikskýrslu eftir leik og skila frumriti til KSÍ.

Það er á verksviði og ábyrgð heimafélags að koma frágenginni leikskýrslu til dómara á réttum tíma.

Breyting á leikskýrslu

Eftir að útfyllingu leikskýrslu er lokið, hún verið undirrituð af tilskildum aðilum og skilað til dómarans og leikur ekki hafinn, gilda eftirfarandi fyrirmæli um breytingar á henni.

Breyting á byrjunarliði

Ef einhver byrjunarliðsmanna getur ekki leikið vegna óvæntra meiðsla/veikinda gildir eftirfarandi:

 1. 1.  Strikað er yfir nafn leikmannsins á leikskýrslunni.
 2. 2.  Einhver af áður skráðum varamönnum tekur sæti hans í byrjunarliðinu og ör dregin á leikskýrsluna sem sýnir hvaða varamaður kemur í byrjunarliðið.
 3. 3.  Í stað varamannsins kemur svo leikmaður sem ekki var áður skráður á upphaflegu leikskýrsluna.
 4. Leikmaðurinn sem ekki gat byrjað leikinn má ekki sitja á varamannabekk liðsins í leiknum.

Breyting á varamönnum

Ef einhver varamanna getur ekki leikið vegna óvæntra meiðsla/veikinda gildir eftirfarandi:

 1. 1.  Strikað er yfir nafn varamannsins á leikskýrslunni.
 2. 2.  Í stað varamannsins kemur svo leikmaður sem ekki var skráður á upphaflegu leikskýrsluna.
 3. 3.  Varamaðurinn sem ekki gat leikið má ekki sitja á varamannabekk liðsins í leiknum.

Breyting á markmönnum

Ef enginn þeirra markmanna sem skráðir voru á leikskýrsluna getur leikið vegna óvæntra meiðsla/veikinda gildir eftirfarandi:

 1. 1.  Strikað er yfir nafn markmannanna á leikskýrslunni.
 2. 2.  Nýir markmenn eru skráðir á skýrsluna þannig að ljóst sé hver komi í stað hvers.
 3. 3.  Markmennirnir sem reyndust ófærir um að leika mega ekki sitja á varamannabekk liðsins í leiknum.

Almennt í ofangreindum tilvikum

 1. 1.  Liðið getur áfram haft jafn marga varamenn og reglugerð um viðkomandi knattspyrnumót segir til um.
 2. 2.  Áfram er hægt að gera jafn margar skiptingar og reglugerð um viðkomandi knattspyrnumót segir til um.
 3. 3.  Nauðsynlegt er að upplýsa eftirlitsmann og aðra hlutaðeigandi um breytinguna.

Að leik loknum

Þar sem dómari er tilefndur af KSÍ skal hann skrá atburði leiksins og staðfesta leikskýrslu áður en hann yfirgefur leikstað og skal því nettengdur tölvubúnaður vera í búningsherbergi dómara til afnota. Í öðrum leikjum skal heimalið skrá skýrsluna í gagnagrunn KSÍ og koma frumriti hið fyrsta til skrifstofu KSÍ.

Áhorfendatölur 

Eftir hvern leik skal heimalið koma upplýsingum um heildarfjölda áhorfenda (börn, fullorðnir og boðsmiðar meðtaldir - ekki bara seldir miðar) til eftirlitsmanns KSÍ áður en leik lýkur og jafnframt skrá töluna í leikskýrsluformið á vef KSÍ þar sem við á.

Viðbótarefni

Besta deildin


Þrjú 1x8 eða 2x4 metra Bestu deildar auglýsingaskilti við leikvöllinn (TV-Panels).

 - Við mörkin og fyrir miðjum velli.  Nákvæm staðsetning ákvörðuð í samráði við ÍTF, þannig að sem bestum árangri verði náð m.t.t. sjónvarpsútsendinga.Eitt 1x12 eða 2x6 metra Bestu deildar auglýsingaskilti gegnt áhorfendum (Off-Panels).

 - Fyrir miðjum velli.Bestu deildar fánar sem er flaggað.Bestu deildar fáni sem gengið er með á undan liðum út á völl.Hægri ermi á treyjum leikmanna merktar Bestu deildinni.Vesti fyrir boltakrakka merkt samstarfsaðilum.Veggspjöld til að auglýsa leikinn merkt Bestu deildinni.Auglýsingar í fjölmiðlum:

Merki Bestu deildarinnar í öllum auglýsingum félaganna þar sem leikir í deildinni eru kynntir.Viðtalsbakgrunnur fyrir sjónvarpsviðtöl með merki Bestu deildarinnar og samstarfsaðila Bestu deildarinnar


Lengjudeildin


Tvö 1x4 eða 2x4 metra Lengjudeildar-auglýsingaskilti við leikvöllinn (TV-Panels).

 - Við mörkin eða fyrir miðjum velli. Nákvæm staðsetning ákvörðuð í samráði við ÍTF, þannig að sem bestum árangri verði náð m.t.t. sjónvarpsútsendinga.Þrír Lengjudeildarfánar sem er flaggað.Vesti fyrir boltakrakka merkt Lengjudeildinni.Veggspjöld til að auglýsa leikinn merkt Lengjudeildinni.Í leikskrár:  Heilsíðuauglýsing frá Lengjunni og merki Lengjudeildarinnar á forsíðu.Auglýsingar í fjölmiðlum:

Merki Lengjudeildarinnar í öllum auglýsingum félaganna þar sem leikir í deildinni eru kynntir.


Mjólkurbikarkeppni KSÍ


Aðalkeppni Mjólkurbikarsins frá 32-liða úrslitum karla og frá 16-liða úrslitum kvenna):

1x8 eða 2x4 metra auglýsingaskilti við leikvöllinn (TV-Panels)

 - Nákvæm staðsetning ákvörðuð í samráði við KSÍ, þannig að sem bestum árangri verði ná m.t.t. sjónvarpsútsendinga.

Sérlausnir á LED-ljósaskiltum í úrslitaleikjum karla og kvenna.Undanúrslita- og úrslitaleikir:  Peysur fyrir boltakrakka með merki keppninnar.Allir leikir:  Einn fáni frá MS fleiri ef bein útsending, fleiri í undanúrslitum- og úrslitum).Veggspjöld frá MS til að auglýsa leikinn.Í leikskrár:  Merki Mjólkurbikarsins á forsíðu.Auglýsingar í fjölmiðlum: Merki Mjólkurbikarsins.


3. Minnislisti - Skyldur við samstarfsaðila - 2023.docx


Tími

08:00Flagga, fáni félags og samstarfsaðila.

08:00Slá alla flötina ( sláttuhæð helst 25 - 30 mm. ) og mála völlinn ( helst eftir línu ).
Mínútur fyrir leik

-120Búningsklefar tilbúnir.

-120Dómaraklefi - Borð, stólar,  skiptispjöld, loftmælir, flögg og pumpa.

-120Borð og stóll fyrir fjórða dómara ( ef við á ).

-120Beinar útsendingar - Undirbúningur.

-120Skiptimynt í miðasölu og sjoppur.

-120Búningamál, sjúkravörur og sjúkramál.

-90Auglýsingaskilti og fánaborgir tilbúnar.

-90Móttaka leikmanna og stjórnarmanna andstæðinga og starfsmanna leiksins.

-607 keppnisboltar og 6 boltastandar.

-60Öryggismál, girða af varamannaskýli og gönguleið liða að velli.

-60Varamannaskýli. Teppi, 10 á lið (gott í haustleikjum ef hægt er).

-60Miðasala, hliðvarsla og öryggisgæsla.

-60Kaffi / te fyrir / veitingar fyrir lið, dómara og eftirlitsmann.

-45Leikmannalistum skilað til dómara.

-40Ljósritun leikskýrslu og dreifing til fréttamanna.

-45Upphitun beggja liða á leikvelli.

-45Hljóðkerfi og vallarþulur.

-45Veitingar fyrir stjórnarmenn, andstæðinga, maka leikmanna og aðra velunnara (VIP).

-45Veitingar fyrir fjölmiðlafólk og þeirra starfsmenn.

-15Sjúkrabörur og starfsmenn á þær.

-1510-12 boltakrakkar, fánaberar (fánar samstarfsaðila).

-151 til 2 heillakrakkar í félagsbúningi, ef við á.

-10Lið ganga til búningsklefa

-10Lokaskoðun leikvallar af dómara.

-5Lið tilbúin til að ganga til leikvallar.

0Leikur hefst.
Mínútur eftir að leikur er hafinn

40Skemmtiatriði í hálfleik undirbúin.

45Veitingar fyrir stjórnarmenn, andstæðinga, maka leikmanna og aðra velunnara.

45Kaffi / te fyrir bæði lið og dómara.

45Veitingar fyrir fjölmiðlafólk og þeirra starfsmenn.

45Lið ganga af leikvelli. Athugið sérstaklega öryggi dómara og leikmanna.

60Seinni hálfleikur hefst.
105Viðtalsveggur tilbúinn.  Viðtöl  rétthafa í beinum útsendingum.

105Lið ganga af leikvelli. Athugið sérstaklega öryggi dómara og leikmanna.

105Veitingar fyrir leikmenn beggja liða og dómara eftir leik.

115Leikmenn og þjálfarar klárir í viðtöl.

120Uppgjör í bikarleikjum.  Áhorfendatölur til KSÍ.  Leikskýrsla skráð á vef KSÍ.


4. Minnislisti - Tímatafla - Besta deildin 2023.xlsx
Besta deild og Mjólkurbikar


17:15KLEFAR  TILBÚNIR  FYRIR  FÉLÖG 


17:45KOMA  LIÐA  TIL  LEIKVALLAR


18:00LEIKSKÝRSLA  ÚTFYLLT  AF  HEIMALIÐI (ÞAR SEM VIÐ Á)


18:15KOMA  DÓMARA  OG EFTIRLITSMANNS TIL  LEIKVALLAR


18:15LEIKSKÝRSLA  ÚTFYLLT  AF  GESTALIÐI (ÞAR SEM VIÐ Á)


18:30LEIKSKÝRSLU  SKILAÐ  TIL  DÓMARA


18:30UPPHITUN  BEGGJA  LIÐA  Á  LEIKVELLI


19:05LIÐ  FARA  TIL  BÚNINGSKLEFA


19:05LOKASKOÐUN  LEIKVALLAR  AF  DÓMARA


19:12LIÐ  BÍÐA  Í  GANGI  TILBÚIN  TIL  AÐ  GANGA  TIL  LEIKVALLAR


19:13LIÐ  GANGA  TIL  LEIKVALLAR  (UNDIR  TÓNLIST  EF  HENTAR)


19:13LEIKMENN  GESTALIÐS  GANGA  Á  RÖÐ  DÓMARA  OG LEIKMANNA

HEIMALIÐS  OG  HEILSA  HVERJUM  LEIKMANNI.

LEIKMENN  HEIMALIÐS  GANGA  Á  RÖÐ DÓMARA  OG  HEILSAR  ÞEIM


19:14LIÐSMYNDATAKA


19:14HLUTKESTI  VARPAÐ  UM  HVORT  LIÐ  SKAL  HEFJA  LEIKINN


19:15LEIKUR  HEFST


8. Countdown - BD og MB 2023.xlsx

4 krakkar, eins klæddir, stilla sér upp fyrir framan liðin með Bestu deildar fánann á milli sín. Krakkarnir ganga á undan byrjunarliðum og dómurum út á völlinn með fánann á milli sín og stilla sér upp fyrir framan dómarana (eða hafa þegar tekið sér stöðu þegar liðin og dómarar ganga inn).

Þegar leikmenn hafa veifað til áhorfenda ganga leikmenn útiliðs í röð á móti dómurum og leikmönnum heimaliðs og hver leikmaður heilsar dómurum og leikmönnum í liði heimaliðs með handabandi um leið og hann gengur framhjá þeim. Síðan ganga leikmenn heimaliðs í röð til dómara og heilsa þeim með handabandi.

Hlutkesti um hvort lið byrjar leikinn og á meðan yfirgefa krakkarnir leikvöllinn með fánana.

Vallarþulur les eftirfarandi texta þegar liðin ganga til leiks:

Verið velkomin á leik (heimalið gegn gestir) í Bestu deildinni.  Það eru Lengjan, Steypustöðin, Eitt sett og Unbroken sem færa þér Bestu deildina.

9. Innganga völl BD 2023.docx

Í leikjum frá og með 8-liða úrslitum:
4 krakkar, eins klæddir, stilla sér upp fyrir framan liðin með fána Mjólkurbikarsins á milli sín. Krakkarnir ganga á undan byrjunarliðum og dómurum út á völlinn með fánann á milli sín og stilla sér upp fyrir framan byrjunarliðin.

Í öllum leikjum:  
Þegar leikmenn hafa veifað til áhorfenda ganga leikmenn útiliðs í röð á móti dómurum og leikmönnum heimaliðs og hver leikmaður heilsar dómurum og leikmönnum í liði heimaliðs með handabandi um leið og hann gengur framhjá þeim. Síðan ganga leikmenn heimaliðs í röð til dómara og heilsa þeim með handabandi.

Þar sem við á: 
Hlutkesti um hvort lið byrjar leikinn og á meðan yfirgefa krakkarnir leikvöllinn með fánann.

Texti fyrir vallarþul í leikjum til og með leikjum í 16-liða úrslitum:

Velkomin til leiks í Mjólkurbikarnum  
KSÍ minnir á að heiðarleg framkoma utan vallar sem innan leiðir af sér betri og skemmtilegri knattspyrnu.  Berum virðingu fyrir öllum þátttakendum leiksins.
   Munum jafnframt að knattspyrnuhreyfingin stendur sameinuð í baráttunni gegn einelti.  

Texti fyrir vallarþul frá og með leikjum í 8-liða úrslitum:

Velkomin til leiks í Mjólkurbikarnum  
  Það eru ungir knattspyrnuiðkendur sem ganga á undan liðunum út á völlinn með fána Mjólkurbikarsins (ef við á).
  KSÍ minnir á að heiðarleg framkoma utan vallar sem innan leiðir af sér betri og skemmtilegri knattspyrnu.  Berum virðingu fyrir öllum þátttakendum leiksins.
  Munum jafnframt að knattspyrnuhreyfingin stendur sameinuð í baráttunni gegn einelti.  

10. Innganga völl - Mjólkurbikarinn 2023.docx

Leiðbeiningar og tilmæli frá mannvirkjanefnd KSÍ varðandi upphitun leikmanna fyrir leik

 • Högum upphitun þannig að völlurinn verði sem bestur í sjálfum leiknum.
 • Upphitun á leikvelli ætti aðeins að vera leyfð frá því 45 mínútum fyrir leik í 35 mínútur og í hálfleik.
 • Þar sem ekki eru aukamörk fyrir upphitun markmanna ætti aðeins nota vítateiga í 5 mínútur fyrir leik.
 • Þar sem aukamörk eru sett upp ætti ekki að hita upp í teigum.
 • Ekki ætti að vera í reitabolta inni á sjálfum keppnisvellinum.
 • Aldrei ætti að taka spyrnur af sjálfum vítapunktinum.
 • Aldrei ætti að hita upp í teigum í hálfleik.
 • Vallarstjórinn ætti ávallt að hafa síðasta orðið varðandi nánari útfærslu.

Betri völlur   -   Betri knattspyrna   -   Fleiri áhorfendur

Risaskjáir á völlum félaga eru góð leið til að eiga samskipti við vallargesti og auka jákvæða upplifun þeirra af viðburðinum. Standi til að sýna sjálfan leikinn á risaskjánum (í heild sinni eða hluta) þarf að hafa reglur UEFA um slíkt í huga, sér í lagi hvað varðar endursýningar á atvikum leiksins og gæta þess að reglum og tilmælum UEFA/KSÍ sé fylgt.

Reglur og tilmæli úr mótareglugerðum UEFA:

Article 33 - Screens 

33.01

Simultaneous transmissions, replays and delayed footage of the match being played in the stadium may be transmitted on the stadium's giant screen provided that the host association has obtained all the necessary third-party permission to transmit such footage, including permission from the UEFA match delegate, the host broadcaster producing the live international feed of the match and any relevant local authorities. However, the host association must ensure that replays and delayed footage are shown on the giant screen during the match only when the ball is out of play and/or during the half-time interval, the break before extra time (if any), the half-time interval during extra time (if any) and/or before the start of the kicks from the penalty mark. Moreover, the host association must ensure that any footage shown on the giant screen under no circumstances includes any images that:

 • a.may have an impact on the playing of the match;
 • b.may be reasonably considered as controversial insofar as they are likely to encourage or incite any form of crowd disorder;
 • c.may display any public disorder, civil disobedience or any commercial and/or offensive material within the crowd or on the pitch; or
 • d.consist of any action or any behaviour which is against the principles of fair play (including any images that are aimed at highlighting, directly or indirectly, any offside offence, foul or potential mistake of a referee); e. are accompanied by sound.

The results of other matches can be shown on the scoreboard and/or giant screen during the match, and simultaneous transmissions and replays are authorised for press monitors and closed-circuit channels.

This article does not apply to any form of replays of the Video Assistant Referee which may be shown on the giant screens strictly in accordance with the relevant guidelines issued by UEFA in this regard. IV – Stadium Infrastructure 25 33.02 Simultaneous or delayed transmissions on public screens outside the stadium in which a match is played (e.g. in a stadium of the visiting association or in a public place anywhere) may be authorised subject to: a. a licence being granted by UEFA; and b. authorisation being granted by the audiovisual rights holders in the territory of the screening and by the public authorities.