Umboðsmenn

Skrifstofa KSÍ heldur utan um skráða umboðsmenn og sér til þess að þeir fái viðeigandi þjónustu

Rétt er að árétta að einungis umboðsmenn í knattspyrnu sem skráðir hafa verið hjá KSÍ eða öðru knattspyrnusambandi innan FIFA mega starfa sem umboðsmenn leikmanna eða félaga við samningsgerð og félagaskipti. Skulu umboðsmenn í knattspyrnu hér á landi starfa skv. ákvæðum reglugerðar KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu.

Til þess að einstaklingur/lögaðili geti komið að viðskiptum, sem leiða til þess að leikmaður gerir leikmannssamning við íslenskt félag eða skrifar undir samning um félagaskipti til íslensks félags, þá þarf viðkomandi að vera skráður umboðsmaður í knattspyrnu hjá KSÍ.

Skrifstofa KSÍ heldur utan um skráða umboðsmenn og sér til þess að þeir fái viðeigandi þjónustu. Munu öll helstu eyðublöð vegna starfa umboðsmanna vera aðgengileg á heimasíðu KSÍ auk þess sem birtar verða helstu upplýsingar og fréttir. Líkt og fram kemur í reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu er árgjald skráðra umboðsmanna kr. 100.000,-.

Tengiliður á skrifstofu KSÍ við umboðsmenn í knattspyrnu er Haukur Hinriksson (haukur@ksi.is).

Reglugerð KSÍ um umboðsmenn í knattspyrnu

1. gr.

Skilgreiningar

Í reglugerð þessari þýðir:

  • FIFA: Alþjóðaknattspyrnusambandið.
  • Félag: Aðildarfélag (rekstrarfélag) KSÍ eða annars knattspyrnusambands.
  • Umboðssamningur: Samningur milli umboðsmanns og leikmanns eða félags um að koma fram fyrir hönd leikmanns eða félags sem umboðsmaður.
  • Yfirlýsing umboðsmanns: Yfirlýsing, skv. viðauka 1 eða 2 við reglugerð þessa sem undirrituð er af umboðsmanni eða fulltrúa umboðsmanns.
  • Umboðsmaður í knattspyrnu: Einstaklingur eða lögaðili sem, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, kemur fram fyrir hönd leikmanna og/eða félaga í viðræðum í því augnamiði að gera leikmannssamning eða kemur fram fyrir hönd félaga í viðræðum í því augnamiði að gera samning um félagaskipti. Orðið umboðsmaður í reglugerð þessari merkir umboðsmaður í knattspyrnu.
  • Álfusamband: Samtök knattspyrnusambanda í tiltekinni heimsálfu sem eru aðilar að FIFA, svo sem Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA).

  • 2. grein - Meginreglur
  • Leikmönnum og félögum er heimilt að notfæra sér þjónustu umboðsmanna þegar gerðir eru leikmannssamningar og/eða félagaskiptasamningar.
  • Þegar umboðsmenn eru valdir og þjónusta þeirra nýtt ber leikmönnum og félögum að sýna af sér tilhlýðilega kostgæfni. Í þessu samhengi felur tilhlýðileg kostgæfni í sér að leikmenn og félög skuli leitast við að tryggja að umboðsmennirnir skrifi undir viðeigandi yfirlýsingu umboðsmanna sem og samning við umboðsmann sem aðilarnir tveir gera með sér.
  • Þegar umboðsmaður kemur að viðskiptum skal skrá hann samkvæmt 3. gr. reglugerðar þessarar.
  • Stjórnarmaður, nefndarmaður, dómari, aðstoðardómari, þjálfari eða aðrir þeir sem starfa við tæknileg málefni, læknisfræðileg málefni og stjórnun innan FIFA, álfusamtaka, knattspyrnusambanda, deildarsamtaka og félaga, sem og allir þeir sem heyra undir lög FIFA, geta ekki verið umboðsmenn.
  • Það sem fram kemur í þessari reglugerð hefur ekki áhrif á lögmæti (e. validity) leikmannssamnings eða félagaskipta.


3. grein  - Skráning umboðsmanna

  • KSÍ skal halda skrá um umboðsmenn eins og nánar kemur fram í þessari reglugerð. Stjórn KSÍ eða framkvæmdastjóri KSÍ getur sett frekari fyrirmæli eða leiðbeiningar varðandi skráningu. Árgjald umboðsmanna sem skráðir eru hjá KSÍ skal vera kr. 100.000,-.
  • Leikmenn og félög, sem nota umboðsmenn, skulu skila til KSÍ Yfirlýsingu umboðsmanns, skv. 3. - 5. mgr. 3. gr. þessarar reglugerðar. Að beiðni KSÍ ber leikmanni og félagi skylda til að leggja fram frekari gögn, s.s. til stuðnings hæfis umboðsmanns. 
  • Þegar leikmaður, með aðstoð umboðsmanns, gerir leikmannssamning við aðildarfélag KSÍ skal hann senda KSÍ Yfirlýsingu umboðsmanns sem aðstoðaði hann við samningsgerðina. Yfirlýsing umboðsmanns skal einnig send KSÍ þegar leikmenn með aðstoð umboðsmanns og félög endursemja, hvort sem um breytingu er að ræða frá gildandi samningi eða gerður er nýr samningur.
  • a) Þegar aðildarfélag KSÍ gerir leikmannssamning eða semur um félagaskipti úr eða í félagið, skal það senda KSÍ Yfirlýsingu umboðsmanns sem aðstoðaði aðildarfélagið við gerninginn.
  • b) Þegar aðildarfélag KSÍ semur um félagaskipti leikmanns til erlends félags skal íslenska félagið leggja fram Yfirlýsingu umboðsmanns sem aðstoðaði aðildarfélagið við félagaskiptin sem og þau viðbótargögn sem erlenda knattspyrnusambandið óskar eftir.                                   
  • c) Þegar erlent félag semur um félagaskipti leikmanns frá aðildarfélagi KSÍ skal erlenda félagið senda til KSÍ Yfirlýsingu umboðsmanns sem aðstoðaði það við félagaskiptin.
  • Yfirlýsing umboðsmanns og gögn sem óskað er eftir skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. reglugerðar þessarar verður að leggja fram í sérhverju tilfelli þegar leikmannssamningur er gerður eða samið er um félagaskipti. Innan KSÍ má hins vegar vísa til Yfirlýsingar umboðsmanns ef hún hefur verið lögð fram innan árs frá því að gerningurinn átti sér stað.


4. grein  - Skilyrði fyrir skráningu

KSÍ skal skv. skilyrðum í 2. - 5. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar halda skrá um umboðsmenn, sem hafa óflekkað mannorð.

  • Sé hlutaðeigandi umboðsmaður lögaðili þurfa allir þeir sem koma fram fyrir hönd lögaðilans í tilteknum gerningi að hafa óflekkað mannorð.
  • Það er krafa fyrir skráningu að umboðsmaður hafi ekki við störf sín samningsbundna tengingu við knattspyrnusambönd, deildarsamtök, álfusamtök eða FIFA sem leitt geta til mögulegra hagsmunaárekstra.  Við störf sín er umboðsmönnum óheimilt að gefa í skyn, með beinum eða óbeinum hætti, að slík samningsbundin tenging sé til staðar.
  • Hafi KSÍ fengið undirritaða Yfirlýsingu umboðsmanns, samkvæmt Viðauka 1 eða 2 með reglugerð þessari er litið svo á að það hafi uppfyllt skyldur sínar fyrir skráningu nema annað komi fram.
  • Þegar skráning umboðsmanns fer fram skal afhenda KSÍ umboðssamning.


5. grein  - Umboðssamningur

  • Félög og leikmenn skulu tilgreina í skriflegum umboðssamningi hvers eðlis samband þeirra er við umboðsmenn, t.d. hvort störf viðkomandi umboðsmanns felist í þjónustu, ráðgjöf vegna leikmannssamnings eða félagaskipta, eða hvers kyns lagalegu sambandi öðru.
  • Áður en umboðsmaður hefur störf skulu helstu atriði lagalegs sambands á milli leikmanns og/eða félags og viðkomandi umboðsmanns vera skráð skriflega. Í umboðssamningi þurfa að lágmarki eftirfarandi upplýsingar að koma fram: nöfn aðila, umfang þjónustunnar, tímalengd hins lagalega sambands, þóknun til umboðsmanns, almennir greiðsluskilmálar, dagsetning samnings, riftunarákvæði og undirskriftir aðila. Sé leikmaðurinn ólögráða skal lögráðamaður/-menn leikmannsins einnig undirrita umboðssamninginn.


6. grein - Birting og útgáfa

  • Leikmenn og/eða félög sem skila Yfirlýsingu umboðsmanns, skv. 3. - 5. mgr. 3. gr. skulu veita KSÍ nákvæmar upplýsingar um allar umsamdar þóknanir, hvers eðlis sem þær kunna að vera, sem hafa verið eða munu vera inntar af hendi til umboðsmanns. Sé þess óskað skulu leikmenn og/eða félög enn fremur birta, svo nota megi í rannsóknarskyni, til þess bærum fulltrúum knattspyrnusambanda, deildarsamtaka, álfusamtaka og FIFA alla samninga, samkomulög og skrár vegna umboðsmanns í tengslum við störf er tengjast þessum ákvæðum, að undanskildum umboðssamningnum, en birting hans er skylda samkvæmt 5. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar. Leikmenn og/eða félög skulu tryggja í umboðssamningi við umboðsmann að engar hindranir séu í vegi þess að birta megi ofangreindar upplýsingar og skjöl.
  • Umboðssamningur skal fylgja þegar samið er um félagaskipti eða leikmannssamning eftir því sem við á, við skráningu leikmannsins. Félög eða leikmenn skulu tryggja að sérhver félagaskiptasamkomulag eða leikmannssamningur sem gerður er með aðkomu umboðsmanns beri nafn og undirskrift viðkomandi umboðsmanns. Hafi leikmaður og/eða félag ekki notfært sér þjónustu umboðsmanns í samningaviðræðum skal það koma fram í viðeigandi gögnum sem lögð eru fram.
  • Í lok marsmánaðar á hverju almanaksári birtir KSÍ opinberlega á heimasíðu sinni, nöfn allra umboðsmanna sem þau hafa skráð ásamt þeim gerningum sem þeir hafa komið að. Enn fremur skulu sambönd birta heildarupphæð allra þóknana eða greiðslna sem raunverulega hafa verið inntar af hendi til umboðsmanna af hálfu skráðra leikmanna og af hálfu hvers félags sem þeir tengjast. Tölurnar sem birta skal eru samanlögð heildarupphæð fyrir alla leikmenn og samanlögð heildarupphæð hvers félags.
  • Einnig getur KSÍ veitt skráðum leikmönnum sínum og aðildarfélögum allar upplýsingar sem tengjast gerningum sem hafa reynst brjóta í bága við reglur KSÍ og þessi ákvæði og skipta máli fyrir viðkomandi tilvik.


7. grein - Greiðslur til umboðsmanna

  • Reikna skal upphæð þóknunar til umboðsmanns sem aðstoðar leikmann út frá heildartekjum leikmannsins út samningstímann.
  • Félög sem nýta sér þjónustu umboðsmanns skulu greiða honum í einu lagi upphæð sem samið er um áður en viðkomandi samningur er gerður. Semjist aðilum svo um má greiða slíka greiðslu með afborgunum.
  • Leikmönnum og félögum er ráðlagt að setja sér eftirfarandi viðmið varðandi þóknun til umboðsmanns:
  • Þóknun til umboðsmanns sem aðstoðar leikmann ætti ekki fara yfir þrjú prósent (3%) af heildartekjum leikmannsins út samningstíma viðkomandi leikmannssamnings.
  • Þóknun til umboðsmanns sem aðstoðar félag við að gera samning við leikmann ætti ekki fara yfir þrjú prósent (3%) af heildartekjum leikmannsins út samningstíma viðkomandi leikmannssamnings.
  • Þóknun til umboðsmanns sem aðstoðar félag við félagaskipti leikmanns ætti ekki fara yfir þrjú prósent (3%) af félagaskiptaupphæðinni.
  • Félagaskiptabætur, s.s. uppeldis - og samstöðubætur, eða aðrar bætur sem greiðast frá einu félagi til annars við félagaskipti skulu ekki greiddar til umboðsmanna eða af umboðsmönnum. Þetta felur í sér, en takmarkast ekki við, að umboðsmaður getur ekki átt hlut í félagaskiptabótum eða framtíðarfélagaskiptabótum leikmanns. Sömuleiðis er framsal á kröfum til umboðsmanns óleyfilegt.
  • Samkvæmt 6. og 8. mgr. 7. gr. reglugerðar þessarar skal sérhver greiðsla fyrir störf umboðsmanns einungis innt af hendi af hálfu þess sem umboðsmaðurinn aðstoðar.
  • Þegar viðkomandi gerningi er lokið, og að því gefnu að félagið fallist á það, getur leikmaður veitt félaginu skriflegt leyfi til að greiða umboðsmanni fyrir sína hönd. Greiðslan sem innt er af hendi fyrir hönd leikmannsins skal vera í samræmi við þá greiðsluskilmála sem leikmaðurinn og umboðsmaðurinn hafa samið um.
  • Stjórnarmanni, nefndarmanni, dómara, aðstoðardómara, þjálfara eða öðrum þeim sem starfa við tæknileg málefni, læknisfræðileg málefni og stjórnun innan FIFA, álfusamtaka, knattspyrnusambanda, deildarsamtaka og félaga, sem og öllum þeim sem heyra undir lög FIFA, er óheimilt að taka við nokkurri greiðslu frá umboðsmanni upp á allt eða hluta þeirra gjalda sem umboðsmanni eru greidd.
  • Leikmönnum og félögum sem nýta sér störf umboðsmann við gerð leikmannssamnings og/eða félagskiptasamkomulags er ekki heimilt að inna af hendi nokkrar greiðslur til slíks umboðsmann ef leikmaðurinn sem í hlut á er ekki orðinn 18 ára.


8. grein - Hagsmunaárekstrar

  • Áður en leikmenn og félög nýta sér störf umboðsmann skulu þau kappkosta að tryggja að engir hagsmunaárekstrar séu til staðar eða séu líklegir til að koma upp, hvorki fyrir leikmenn, félög né umboðsmenn.
  • Ekki er litið svo á að um hagsmunaárekstur sé að ræða ef umboðsmaður upplýsir skriflega um alla fyrirliggjandi eða hugsanlega hagsmunaárekstra hans við einhvern hinna aðilanna sem hlut eiga að máli, í tengslum við viðskipti, umboðssamning eða sameiginlega hagsmuni, og ef hann fær skriflegt samþykki allra annarra hlutaðeigandi aðila áður en viðkomandi viðræður hefjast.
  • Vilji leikmaður og félag nýta sér þjónustu sama umboðsmann við sömu viðskipti, samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru fram í 2. mgr., skulu leikmaðurinn og félagið sem í hlut eiga leggja fram skriflegt samþykki áður en viðkomandi viðræður hefjast, ásamt því að staðfesta skriflega hvaða aðili (leikmaðurinn og/eða félagið) muni greiða þóknun viðkomandi umboðsmanns. Aðilar skulu upplýsa viðeigandi samband um alla slíka samninga og skila inn öllum ofangreindum skriflegum gögnum í skráningarferlinu (sbr. gr. 3 og 4 hér fyrir ofan).


9. grein - Viðurlög

  • Viðurlög við brotum á reglugerð þessari innan vébanda KSÍ geta verið eftirfarandi og skal það vera í höndum aga- og úrskurðarnefndar KSÍ að fjalla um þau:
  • a) aðvörun,
  • b) áminning,
  • c) sekt,
  • d) réttindamissir tímabundið,
  • e) réttindamissir.
  • Beita má fleiri en einni refsingu saman og skal upplýsa FIFA um öll viðurlög sem umboðsmaður er beittur.
  • Áfrýja má úrskurði aga- og úrskurðarnefndar til áfrýjunardómstóls KSÍ.

 

10. grein - Gildistaka

  • Reglugerð þessi tók gildi 1. apríl 2015.
  • Ef ákvæði í reglugerð þessari ganga gegn skylduákvæðum í reglum FIFA um milliliði gilda reglur FIFA.

 

Samþykkt af stjórn KSÍ 19. október 2017.