• mán. 04. sep. 2000
  • Landslið

Danskur sigur á Laugardalsvelli

Ísland og Danmörk áttust við síðastliðinn laugardag í fyrsta leik þjóðanna í 3. riðli undankeppni HM 2002. Það voru Danir sem höfðu betur, sigruðu með tveimur mörkum gegn einu eftir að staðan í hálfleik hafði verið jöfn, 1-1. Íslenska liðið gerði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu, Eyjólfur Sverrisson fylgdi eftir góðum skalla Ríkharðs Daðasonar, sem Peter Schmeichel hafði varið út við stöng. Jon Dahl Tomasson jafnaði leikinn um miðjan fyrri hálfleik með hnitmiðuðu skoti, en sigurmarkið kom fljótlega í seinni hálfleik og var þar að verki Morten Bisgaard, en markið þótti heldur slysalegt. Brynjari Birni Gunnarssyni var síðan vikið af leikvelli upp úr miðjum síðari hálfleik og var á brattann að sækja eftir það.

Önnur úrslit í 3. riðli urðu þau að N.-Írar sigruðu Möltu 1-0 og sömu úrslit urðu í leik Búlgara og Tékka, Tékkum í vil.