• mið. 15. ágú. 2001
  • Landslið

Jafntefli gegn Póllandi

Jafntefli varð í vináttulandsleik Íslands og Póllands, sem fram fór á Laugardalsvellinum í kvöld, 1-1.

Pólverjarnir voru sterkari í fyrri hálfleik en sköpuðu sér engin umtalsverð færi. Þeir komust þó yfir á 17. mínútu með sjálfsmarki Hermanns Hreiðarssonar, sem skallaði knöttinn yfir Árna Gaut sem var kominn út úr markinu og ætlaði að hirða knöttinn.

Íslendingar voru mun sterkari í síðari hálfleik og sóttu nánast látlaust. Allir varamennirnir voru komnir inná þegar íslenska liðinu tókst að jafna metin á 86. mínútu. Ólafur Stígsson sendi langa sendingu inn í vítateiginn frá hægri sem barst síðan til Marels Baldvinssonar vinstra megin í vítateignum. Marel sendi boltann fyrir markið og Andri Sigþórsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Ísland frá markteig.