• fös. 22. des. 2017
  • Pistlar

Ómetanlegar minningar

Knattspyrnuárið 2017 hefur verið sannkallaður rússíbani fyrir knattspyrnuáhugafólk og framganga landsliðanna okkar hefur skapað ómetanlegar minningar. 

Kvennalandsliðið lék í úrslitakeppni EM í þriðja sinn í röð, sem er magnaður árangur, þó að úrslitin í Hollandi hafi ekki verið þau sem vonast var eftir. Að því sögðu er mikilvægt að minnast þess hvernig liðið stimplaði sig inn að nýju með frábærri frammistöðu í undankeppni HM 2019, þar sem frábær sigur á margföldu meistaraliði Þjóðverja ber hæst.  Stefnan hefur verið sett á lokakeppnina í Frakklandi.  Þangað ætlum við.  Með frábærum stuðningi úr stúkunni eru okkur allir vegir færir.

A landslið karla tryggði sér með eftirminnilegum hætti sæti á HM í Rússlandi á næsta ári.  Árangur liðsins hefur verið frábær og vakið heimsathygli.  Ég hef hrifist af þeirri fagmennsku og metnaði sem svífur yfir liðinu og það hefur verið gaman fyrir mig sem fyrrum leikmann að upplifa þetta með Heimi og strákunum.  Mikill fjöldi stuðningsmanna mun fylgja liðinu til Rússlands og ljóst að stemningin á völlunum verður frábær.  Ég er ekki í neinum vafa um að Tólfan okkar og stuðningsmenn munu heilla heimsbyggðina með framgöngu sinni, líkt á EM karla í Frakklandi og EM kvenna í Hollandi.  Gestgjafarnir hlakka a.m.k. verulega til þess að taka á móti okkar fólki og það er engum blöðum um það að fletta að fulltrúar FIFA eru meðvitaðir um það að íslenskir stuðningsmenn munu setja sitt mark á mótið með okkar heimsfræga víkingaklappi.  Nú þegar hefur mikill fjöldi Íslendinga sótt um miða á fyrsta leikinn, við Argentínu í Moskvu, en nokkru færri á leikina við Nígeríu og Króatíu.  Allt skipulag verður með allra besta móti í Rússlandi á meðan á mótinu stendur.  Rússnesk yfirvöld munu tryggja öryggi sinna gesta og greiða götu þeirra eins vel og mögulegt er.  Því vil ég nota tækifærið og hvetja knattspyrnuáhugafólk til að sækja um miða á leiki Íslands og fjölmenna til Rússlands. 

Það var mjög mikilvægt skref tekið í október þegar tilkynnt var um skipan starfshóps sem á að skila af sér tillögum um framtíð og væntanlega endurbyggingu Laugardalsvallar.  Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin voru samstíga með KSÍ í þessu og vil ég þakka þá framsýni. Þetta er orðið mjög tímabært og nauðsynlegt ef að við eigum að geta spilað okkar heimaleiki á Laugardalsvelli í framtíðinni.

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan hjá KSÍ og landsliðunum okkar.  Umfang og orðspor íslenskrar knattspyrnu heldur áfram að vaxa og við þurfum að vaxa með.  Það er enginn vafi í mínum huga að knattspyrnuárið 2018 verður enn stærra en 2017.  Höldum áfram að skapa ómetanlegar minningar saman.

Að lokum vil ég óska landsmönnum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Guðni Bergsson

Formaður KSÍ