• mið. 31. jan. 2018
  • Pistlar

Þróun knattspyrnulaganna á næstu árum

Gylfi_Orrason

Alþjóðanefnd knattspyrnusambanda (IFAB) 

Allt frá árinu 1886 hefur IFAB verið verndari knattspyrnulaganna um heim allan. Nefndin er nú skipuð átta fulltrúum, þ.e. fjórum frá Alþjóða knattspyrnusambandinu (FIFA) og fjórum frá bresku knattspyrnusamböndunum (Englandi, Skotlandi, Wales og N-Írlandi), en til þess að tillaga að lagabreytingu nái fram að ganga þurfa sex af átta fulltrúum IFAB að samþykkja hana. 

Á vegum IFAB starfa nú tveir starfshópar sérfræðinga sem skipaðir eru reynslumiklum fulltrúum frá öllum hagsmunaaðilum knattspyrnunnar, þ.e. leikmönnum, þjálfurum, dómurum, stjórnendum, forráðamönnum, áhorfendum, íþróttafréttamönnum o.s.frv. Hlutverk þeirra er að vega og meta þær fjölmörgu hugmyndir sem berast um breytingar á knattspyrnulögunum og túlkun þeirra og leggja síðan tillögur sínar fyrir ársfund IFAB sem jafnan er haldinn í marsbyrjun ár hvert. 

Áður en lagabreytingar eru endanlega staðfestar eru hins vegar iðulega gerðar tilraunir með breytingar í tilteknum keppnum eða mótum, t.d. eins og þær sem nú standa yfir víða um notkun vídeó-aðstoðardómara, breytingar á RUPL-reglunni, að heimila fjórðu innáskiptinguna í framlengingu, ABBA-spyrnuröðina í vítaspyrnukeppni o.s.frv. 

Fjölmargar breytingar í farvatninu 

Ýmsar frekari hugmyndir um þróun laganna og túlkun þeirra eru nú í mótun hjá IFAB og sérfræðingahópum hennar sem miða að: 

1. Betri hegðun leikmanna og aukinni virðingu. 

2. Auknum "raun-leiktíma". 

3. Meiri sanngirni og auknu aðdráttarafli knattspyrnunnar. 

Hugmyndir þessar eru mislangt á veg komnar, þ.e. sumum þeirra er hægt að hrinda í framkvæmd nú þegar, án lagabreytinga, aðrar eru komnar á tilraunastigið og enn aðrar eru eingöngu á umræðustigi. Skoðum þessar hugmyndir nú aðeins nánar: 

1. Betri hegðun leikmanna og aukin virðing. 

Hegðun leikmanna og þjálfara/forráðamanna verður að breytast og sýna verður "anda og bókstaf laganna" og dómurunum sem beita þeim meiri virðingu. Þannig er hægt að auka ábyrgð fyrirliðanna og fela þeim að annast samskiptin við dómarana fyrir hönd liðsins og jafnframt að aðstoða þá við að róa niður erfiðar aðstæður og æsta leikmenn án þess að til lagabreytinga þurfi að koma. Eins hafa dómararnir nú þegar fengið fyrirmæli um að taka strangar á þeim leikmönnum sem hópast um þá eða aðstoðardómarana, þ.e. að gefa fleiri gul "skylduspjöld". Nokkrar aðrar hugmyndir hvað þetta varðar eru nú einnig fullmótaðar fyrir tilraunir, t.d. að heimila fyrirliðunum einum að nálgast dómarann (eða aðra í teymi hans) þegar um er að ræða "umdeildar" ákvarðanir og jafnvel að beita lið sektum, eða svipta þau stigum, ef leikmenn þeirra gerast sekir um að "hópast um dómarann". Að síðustu eru nokkrar hugmyndir hvað þetta varðar enn á umræðustigi í sérfræðingahópum IFAB, t.d. að dómarinn, fyrirliðarnir og þjálfararnir komi saman við boðvangana rétt fyrir upphafsspyrnuna og taki þar í hönd hvers annars í virðingarskyni. Önnur hugmynd er sú að ef varamaður hlýtur rautt spjald þá sé heimiliðum skiptingum liðs hans í leiknum fækkað um eina. 

2. Aukinn "raun-leiktími" (RLT). 

Flestir knattspyrnuaðdáendur kannast við hversu pirrandi það getur verið í venjulegum 90 mínútna leik að boltinn skuli einungis vera í leik í u.þ.b. 60 mínútur eða jafnvel skemur. Því þarf að þróa lögin og túlkun þeirra í þá veru að þau setji tálmanir við óþarfar tafir og flýti fyrir "gangsetningu" leiksins að nýju eftir að hann hefur verið stöðvaður. 

Þannig væri, án lagabreytinga, hægt að hrinda strax í framkvæmd ýmsum aðgerðum í þeim tilgangi, s.s. að gefa dómurunum fyrirmæli um að mæla af meiri nákvæmni þann tíma sem fer forgörðum vegna skiptinga, meiðsla, tafa o.s.frv., t.d. þegar: 

• Vítaspyrna er dæmd. Klukkan sé stoppuð um leið og vítaspyrnan er dæmd allt þar til spyrnan hefur verið tekin. 

• Mark er skorað. Klukkan sé stoppuð um leið og markið er skorað allt þar til að leikurinn er flautaður á að nýju. 

• Meiðsli eiga sér stað. Klukkan sé stoppuð frá því að dómarinn spyr leikmanninn hvort hann þarfnist aðhlynningar allt þar til að leikurinn er flautaður á að nýju. 

• Gul og rauð spjöld eru sýnd. Klukkan sé stoppuð um leið og dæmt er á brotið sem var tilefni spjaldsins allt þar til leikurinn er flautaður á að nýju. 

• Leikmannaskipti fara fram. Klukkan sé stoppuð frá því að dómarinn gefur merki um skiptinguna allt þar til leikurinn er flautaður á að nýju. Þarna hefur dómarinn það einnig í hendi sér að gefa leikmanninum sem yfirgefur völlinn fyrirmæli um að gera það um þá útlínu vallarins sem er næst honum, enda er ekkert ákvæði um það í knattspyrnulögunum að leikmaðurinn skuli yfirgefa leikvöllinn við boðvangana. 

• 9,15m fjarlægðin er mæld. Klukkan sé stoppuð frá því að dómarinn byrjar að færa vegginn allt þar til að leikurinn hefur verið flautaður á að nýju. 

• Markvörður heldur á boltanum. Dómurum sé uppálagt að framfylgja "sex sekúndna reglunni" af meiri hörku. 

Þessu til viðbótar er fjöldinn allur af hugmyndum hvað varðar aukinn RLT nú til umræðu í sérfræðingahópunum, en þær eru þessar helstar: 

• RLT - klukkan sé stoppuð í hvert skipti sem boltinn fer úr leik í lok beggja hálfleikja. Þetta væri hægt að gera á mismunandi vegu, t.d. á síðustu 5 mínútum fyrri hálfleiks og síðustu 10 mínútum seinni hálfleiks (hið sama gildi um framlengingar), enda eru þetta þau tímabil leiksins sem leikmenn eru líklegastir til þess að freista þess að tefja leikinn. 

• RLT - klukkan sé stoppuð í hvert skipti sem boltinn fer úr leik allan leikinn. Þetta myndi hafa í för með sér að taka þarf ákvörðun um styttingu leiktímans, t.d. að RLT skuli vera 30 mínútur í hvorum hálfleik. Þetta myndi ekki einungis draga úr hvatanum fyrir leikmenn til þess að tefja leikinn heldur einnig tryggja að RLT sé hinn sami í öllum leikjum viðkomandi móta. 

• Vallarklukkan. Vallarklukkan sé stoppuð í hvert skipti sem boltinn fer úr leik, annað hvort með beinni tengingu við klukku dómarans eða með því að stjórnandi klukkunnar sé í sambandi við dómarann í gegnum samskiptabúnað. Á sama tíma yrðu fyrirmælin um að vallarklukkan skuli stoppuð eftir 45 og 90 mínútur felld úr gildi. 

• Að gefa á sjálfan sig úr aukaspyrnu, hornspyrnu eða markspyrnu. Knattspyrnulögin hvetja nú til þess að dómarar leyfi hraðtekningu aukaspyrna, en af hverju ekki að leyfa að leikmönnum snerta boltann strax aftur eftir að hafa tekið úr aukaspyrnu? Þannig gæti t.d. leikmaður sem brotið er á stöðvað boltann og síðan brunað strax af stað aftur í átt að marki mótherjanna eins og ekkert hafi í skorist. Til gamans má geta að leikmönnum var þetta heimilt skv. fyrstu útgáfu knattspyrnulaganna frá árinu 1863. 

• Rúllandi bolti í markspyrnu. Fella úr gildi ákvæðið um að boltinn megi ekki vera á hreyfingu í markspyrnu, þar sem í því fellst enginn raunverulegur hagnaður fyrir þann sem tekur spyrnuna. Það er hins vegar mjög pirrandi fyrir áhorfendur (og tefur tímann) að horfa á dómarann þurfa að láta endurtaka markspyrnu þar sem boltinn er einungis á örlítilli hreyfingu. 

• Staðsetning markspyrnu. Taka verði markspyrnur frá þeim hluta markteigsins þar sem boltinn fór úr leik, sem myndi koma í veg fyrir leiktöf, t.d. þegar boltinn fer úr leik vinstra megin við markið og markvörðurinn sækir hann þangað en gengur síðan í hægðum sínum yfir í hægri hluta markteigsins til þess að taka spyrnuna. 

3. Meiri sanngirni og aukið aðdráttarafl knattspyrnunnar. 

Eftirfarandi hugmyndir hvað þetta varðar eru þegar fullmótaðar fyrir tilraunir: 

• Röðun spyrnenda í vítaspyrnukeppni. Rannsóknir hafa sýnt fram á að liðið sem tekur fyrstu spyrnuna í vítaspyrnukeppni hafi af því hagnað, fyrst og fremst vegna þess að það veldur aukinni pressu á þann sem tekur seinni spyrnuna í hverri umferð (sérstaklega eftir fyrstu spyrnuna og að afloknum fyrstu fjórum umferðunum). Því eru nú þegar í gangi tilraunir með hina svokölluðu "ABBA-röðun" spyrnendanna, þ.e. að röð þeirra verði A-B-B-A-A-B-B-A o.s.frv. 

• Önnur hugmynd sem nú er fullmótuð fyrir tilraunir er að heimila varnarmönnum að leika boltanum áður en hann fer út fyrir vítateiginn í markspyrnum og aukaspyrnum innan eigin vítateigs. Mótherjarnir verði eftir sem áður að halda sig utan vítateigsins þar til boltinn hefur farið út úr vítateignum eða verið snertur innan hans. Þetta ætti að flýta fyrir "gangsetningu" leiksins að nýju, draga úr töfum og jafnframt að hvetja til stutts samspils frekar en "langra kýlinga" úr þessum spyrnum. 

Nokkrar hugmyndir sem snúa að því hvenær dæma skuli hendi eru nú til umræðu innan sérfræðingahópanna, enda er þar gjarnan um að ræða erfiðustu (og oft umdeildistu) ákvarðanirnar sem dómari þarf að taka í hverjum leik. Handlék leikmaðurinn boltann "viljandi" eða "óviljandi"? Þetta ákvæði 12. greinarinnar þarf því að skýra og skilgreina betur til þess að auka samræmið í túlkun dómaranna á því hvenær dæma skuli hendi og hvenær ekki. Því til viðbótar myndu eftirfarandi breytingar á skilgreiningunni á "viljandi hendi" væntanlega vera sanngjarnar: 

• Leikmaður sem skorar mark með viljandi hendi ætti að vera rekinn af leikvelli (rautt spjald) rétt eins og leikmaður sem viljandi kemur í veg fyrir að mark sér skorað með því að handleika boltann. 

• Dæma ætti vítaspyrnu á markvörð sem handleikur boltann eftir viljandi sendingu eða innkast frá samherja í stað þess að dæma óbeina aukaspyrnu (ásamt viðeigandi agarefsingu, gult eða rautt spjald). 

• Heimila ætti dómara að dæma mark gilt ef varnarmaður kemur í veg fyrir að boltinn fari í markið með því að handleika hann viljandi á (eða mjög nálægt) marklínunni. 

Þessu til viðbótar eru allnokkrar hugmyndir hvað varðar meiri sanngirni og aukið aðdráttarafl leiksins nú til umræðu í sérfræðingahópunum, en þær eru þessar helstar: 

• Einungis skuli flautað til loka fyrri og seinni hálfleiks þegar boltinn er úr leik. Stundum kemur fyrir að dómarinn flauti til loka fyrri eða seinni hálfleiks þegar skot er um það bil að ríða af eða þegar lið er í vænlegri sókn sem líkleg er til að skapa því marktækifæri. Með því að breyta lögunum á þann hátt að dómari geti einungis flautað til loka hvors hálfleiks um sig þegar boltinn hefur farið úr leik má koma í veg fyrir ágreining og pirring og skapa um leið meiri spennu í leikinn. 

• Vítaspyrnur. Sömu takmarkanir séu látnar gilda við vítaspyrnur og gilda í vítaspyrnukeppnum, þ.e. að einu mögulegu niðurstöðurnar séu mark eða ekki mark. Við núverandi aðstæður þá eru leikmenn úr báðum liðum oftast komnir inn í vítateiginn áður en spyrnan er tekin, sem veldur gjarnan pirringi hjá áhorfendum þar sem dómararnir refsa sjaldnast fyrir þetta athæfi, oftast vegna þess að þeir eru að einbeita sér að spyrnandanum og markverðinum. Sem sagt, skori leikmaðurinn úr spyrnunni er dæmt mark, en ef markvörðurinn ver, eða ef skotið er framhjá/yfir, þá dæmi dómarinn markspyrnu. Með því móti verður þannig óþarfi fyrir leikmennina að vera að hnoðast hver í öðrum við vítateiginn til þess að vera í sem bestri stöðu til að ná boltanum sé mark ekki skorað. Til þess að letja þá enn frekar mætti hugsa sér að fari sóknarmaður inn í teiginn áður en vítaspyrnan er tekin skuli hún teljast hafa misfarist og fari varnarmaður of snemma inn í teiginn skuli vítaspyrna, sem ekki var skorað úr, endurtekin. 

Fróðlegt verður að fylgjast með því hverjar af ofangreindum hugmyndum ná fram að ganga og ekki síður þeim hugmyndum um þróun laganna og túlkun þeirra sem eiga eftir að bætast í sarpinn hjá IFAB á næstu árum. En aldrei má gleymast að ein af helstu ástæðum hins gríðarlega aðdráttarafls knattspyrnunnar um gjörvalla heimsbyggðina er hversu leikreglurnar eru í raun einfaldar og nánast þær sömu hvort sem um er að ræða Meistaradeildarleik á Old Trafford eða Orkumótsleik á Hásteinsvelli. Því verður að gæta þess að menn fari sér ekki of óðslega í þessum efnum, því fúsk með knattspyrnulögin mun seint verða íþróttinni til framdráttar. 

/Gylfi Þór Orrason