• mán. 16. apr. 2018
  • Mótamál

Óúttekin leikbönn í byrjun Íslandsmóts og Meistarakeppni KSÍ 2018

KSÍ hefur tekið saman lista til upplýsinga fyrir félögin um þá leikmenn í meistaraflokki sem eiga eftir að taka út leikbönn vegna leikja fyrir keppnistímabilið 2018. Sérstök athygli er vakin á því að gefnir eru út tveir listar, annars vegar fyrir Íslandsmót og Meistarakeppni KSÍ og hins vegar fyrir bikarkeppni KSÍ. Er það skv. reglugerðarbreytingu frá mars 2015 um að áminningar og brottvísanir skulu meðhöndlaðar sérstaklega í Íslandsmóti annars vegar og bikarkeppni KSÍ hins vegar. Samskonar listi, vegna bikarkeppni KSÍ, hefur þegar verið sendur í tölvupósti á félögin.

Á listunum eru leikmenn skráðir í þau félög sem þeir fengu leikbann með. Frá þeim tíma kunna þessir leikmenn að hafa skipt um félag og er því mjög mikilvægt
að öll félög kynni sér listann bæði hvað varðar stöðu leikmanna frá 2017 og einnig stöðu leikmanna sem gengið hafa til liðs við félagið. Listarnir gefa ekki upplýsingar um óúttekin
leikbönn í öðrum flokkum.

Í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál segir meðal annars:

13.2. Viðurlög aga- og úrskurðarnefndar í agamálum skal afplána í leikjum í Íslandsmóti og meistarakeppni KSÍ annars vegar og hins vegar í bikarkeppni KSÍ nema annað sé tekið fram.

13.3. Agabrot framið á einu keppnistímabili hefur ekki ítrekunaráhrif á því næsta. Ef leikmaður á eftir að taka út agaviðurlög þegar keppnistímabili lýkur, skal það gert í byrjun næsta keppnistímabils viðkomandi leikmanns. Ofangreint nær aðeins til agaviðurlaga vegna brottreksturs en ekki vegna áminninga. Flytjist leikmaður á milli aldursflokka um áramót, skal hann taka út viðurlögin í nýjum aldursflokki.

Listarnir eru birtir með eftirfarandi fyrirvara:

Allir úrskurðir aganefndar 2017 um leikbönn voru tilkynntir félögunum með tölvupósti. Ef leikmaður hefur ekki tekið út leikbann sitt 2017 vegna brottvísunar flyst leikbannið í fyrsta eða fyrstu leiki í Íslandsmóts, bikarkeppni eða Meistarakeppni KSÍ í viðkomandi flokki (nema leikmaðurinn fari upp um aldursflokk og flyst þá leikbannið með honum þangað).

Þessi listi er því hvorki tilkynning um leikbann né leysir hann leikmann undan leikbanni. Listarnir eru aðeins til upplýsinga og áminning til félaganna um að skoða úrskurði aganefndar frá síðasta ári sem sendir voru sendir með tölvupósti og athuga hvort leikmenn eigi eftir að taka út leikbönn.

Ef aðildarfélög finna villu í listunum eða eru í vafa um leikbönn, er þau vinsamlega beðin um að hafa samband við Þorvald Ingimundarson eða Hauk Hinriksson á skrifstofu KSÍ, í síma 510 2903/510 2912 eða í tölvupósti: thorvaldur@ksi.is, haukur@ksi.is.

Agabréfið 2018