• mið. 06. jún. 2018

Samstarfsverkefni KSÍ og Parkinsonsamtakanna

Knattspyrnusamband Íslands hefur ákveðið að ganga til samstarfs við Parkinsonsamtökin um kynningar- og fjáröflunarverkefni fyrir sérstakt Parkinsonsetur sem verður fyrsta sinna tegundar á Íslandi. Þar sem boðið verður upp á fræðslu, ráðgjöf, stuðning og þjálfunaraðstöðu fyrir fólk með parkinson og aðstandendur þeirra.

Í Parkinsonsetrinu verður einnig dagvist með sérhæfðri endurhæfingu fyrir fólk með langt genginn parkinsonsjúkdóm en það er gríðarlega mikil þörf á þeirri þjónustu. KSÍ ætlar að leggja því þarfa verkefni lið með því að taka virkan og öflugan þátt í árveknisátaki um verkefnið og Parkinsonsjúkdóminn.

Fyrir leikinn við Gana munu 11 Parkinson sjúklingar stilla sér upp úti á velli og verða þar þegar keppnisliðin ganga út. Á meðan þjóðsöngvar verða leiknir standa 11 Parkinson sjúklingar við hlið 11 leikmanna í byrjunarliði Íslands og undir íslenska þjóðsöngnum stendur þessi 22 manna röð öxl við öxl.

Á meðan keppnisliðin heilsast færa Parkinson sjúklingarnir sig saman að hliðarlínu þar sem liðsmyndin verður tekin – 11 leikmenn í byrjunarliði Íslands stilla sér upp með þeim (Parkinson í aftari röð, leikmenn í fremri röð) og liðsmyndin úr þessum leik verður þannig af 22 einstaklingum. Allir 22 einstaklingarnir (leikmenn og Parkinson sjúklingar), munu klæðast sérmerktum peysum undir þjóðsöngnum (á bakinu verður áprentað „Parkinson“.

HVAÐ ER PARKINSON?

Parkinson er taugahrörnunarsjúkdómur sem hefur áhrif á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingu. Einkenni sjúkdómsins byrja hægt en ágerast smám saman eftir því sem tíminn líður. Sjúkdómurinn er nefndur eftir enska lækninum James Parkinson sem greindi fyrst frá einkennum sjúkdómsins árið 1817.

Um það bil 10 milljónir manna eru greindir með parkinsonsjúkdómin um allan heim. Á Íslandi eru um 700 manns með Parkinson en gert er ráð fyrir að fjöldi parkinsongreindra í í Evrópu muni tvöfaldast til ársins 2030 og verði þá um 1.400 hér á landi (vegna fjölda fólks sem er að komast upp á 60 ára+ aldur og vegna lengri lífaldurs almennt). Ísland er í 2. sæti yfir hæstu dánartíðni vegna parkinson í heiminum. Flestir sem greinast með sjúkdóminn eru yfir 60 ára en einn af hverjum tíu eru undir 50 ára aldri við greiningu. Talsvert fleiri karlar en konur frá sjúkdóminn. Parkinson er 2. sæti yfir algengustu taugasjúkdóma í heiminum á eftir Alzheimer.

Parkinsonsjúkdómurinn er mjög persónubundinn og engir tveir upplifa nákvæmlega sömu einkennin en þau geta líka þróast á mismunandi hátt. Einkennin geta verið breytileg dag frá degi og á mismunandi tímum sólarhringsins. Augljósustu einkenni parkinsonsjúkdómsins eru tengd hreyfingu eins og skjálfti, vöðvastífleiki og hægar hreyfingar. Önnur einkenni sem tengjast ekki hreyfingu geta haft mikil áhrif á lífgæði. Helstu einkennin sem ekki tengjast hreyfingu eru svefntruflanir, verkir og þreyta og andleg vanlíðan eins og þunglyndi og kvíði.

Enn sem komið er er ekki vitað hvað veldur parkinsonsjúkdómnum og það er ekki til nein lækning við en það eru margt hægt að gera til auka lífsgæði. Með mikilli hreyfingu og jákvæðu hugarfari virðist vera hægt að hægja á einkennum sjúkdómsins og það hjálpar fólki að vera áfram við stjórnvölinn í eigin lífi.