• þri. 26. jún. 2018
  • Landslið

A karla - 1-2 tap gegn Króatíu í síðasta leik liðsins á HM

Ísland tapaði 1-2 gegn Króatíu í síðasta leik liðsins á HM í Rússlandi. Strákarnir sköpuðu sér fjölda færa og voru grátlega nálægt því að taka öll þrjú stigin. Það var Gylfi Þór Sigurðsson sem skoraði mark Íslands af vítapunktinum á 76. mínútu.

Það var augljóst fyrstu tíu mínúturnar að Króatíu nægði eitt stig til að tryggja sér fyrsta sæti riðilsins. Liðið byrjaði leikinn á því að halda boltanum vel, voru mjög rólegir og ekkert að flýta sér. Ísland gaf þó ekki færi á sér og lokaði svæðunum vel og voru nálægt því að komast í gott færi eftir um rúmlega tíu mínútur, Alfreð Finnbogason fékk þá boltann á hægri kantinum en sending hans á Birkir Bjarnason var stöðvuð af varnarmanni Króatíu.

Leikurinn breytist lítið á næstu mínútum en þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður komst Ísland vel inn í leikinn og skapaði sér töluvert af færum. Á mínútu kafla voru strákarnir tvisvar nálægt því að skora. Fyrst flikkaði Hörður Björgvin áfram löngu innkasti Arons Einars, en strákarnir voru nálægt því að komast í boltann á fjærstönginni. Stuttu síðar átti Jóhann Berg Guðmundsson hornspyrnu sem Hörður skallaði framhjá.

Aðeins um þremur mínútum síðar fékk Ísland aukaspyrnu fyrir utan teig, en Kalinic varði vel skot Gylfa Þórs Sigurðssonar. Strákarnir svo sannarlega komnir almennilega inn í leikinn. Þremur mínútum síðar átti Jóhann Berg hornspyrnu og var Birkir Bjarnason tvisvar nálægt því að setja boltann í netið en í bæði skiptin komust Króatar fyrir boltann. Það var síðan á 40. mínútu sem besta færi Íslands í fyrri hálfleik leit dagsins ljós. Alfreð setti þá frábæra pressu á Luka Modric, tók af honum boltann, tók þríhyrning við Gylfa en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Síðustu tvær mínútur hálfleiksins voru strákarnir mjög nálægt því að taka forystuna. Fyrst var það hornspyrna frá Gylfa, Kalinic kýldi boltann frá sem datt beint fyrir Birki Bjarnason, en skot hans var varið mjög vel af Kalinic. Í seinna skiptið átti Aron Einar frábært skot hægra megin úr teignum en enn og aftur varði Kalinic í marki Króata. Staðan því markalaust í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn til að byrja með og eftir um fímm mínútur áttu Króatar skot í slánna. Þeir tóku hins vegar forystuna efjórum mínútum síðar þegar Milan Badelj setti boltann frábærlega í netið. Staðan 0-1 fyrir Króatíu. Markið virtist ekki hafa mikil áhrif á strákana því stuttu síðar voru þeir tvisvar sinnum ótrúlega nálægt því að jafna leikinn og í bæði skiptin var það Sverrir Ingi Ingason. Fyrst varði Kalinic frábærlega skalla hans og síðan endaði skalli hans eftir hornspyrnuna í slánni. Ótrúlegt að Ísland væri ekki búið að skora á þessum tímapunkti.

Leikurinn róaðist aðeins í kjölfarið eftir gríðarlega hraða byrjun á síðari hálfleik. Gylfi átti skot utarlega í teignum á 65. mínútu sem fór framhjá marki Króata. Á 70. mínútu gerði Ísland sína fyrstu skiptingu. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á, en útaf fór Ragnar Sigurðsson. Stuttu síðar komst Alfreð upp hægri kantinn, átti flotta sendingu fyrir markið en Birkir Bjarnason náði ekki almennilega til boltans og skot hans fór framhjá.

Það var síðan á 76. mínútu sem Ísland jafnaði metin. Sending Gylfa fór þá í hendi Króata í teignum og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Á punktinn steig Gylfi og setti hann örugglega í netið. Staðan því orðin 1-1. Strákarnir héldu áfram að sækja og skapa sér færi, en á 85 mínútu kom Albert Guðmundsson inn á, en útaf fór Alfreð Finnbogason. Þegar 90. mínútur voru komnar á klukkuna kom Arnór Ingvi Traustason inn á í stað Birkis Bjarnasonar. Stuttu síðar skoraði Ivan Perisic fyrir Króatíu og staðan því orðin 1-2. 

Ísland setti mikla pressu á Króatíska markið eftir þetta mark, en allt kom fyrir ekki og 1-2 tap staðreynd. Því er ljóst að Argentína fylgir Króatíu í 16 liða úrslit, en þeir unnu 2-1 sigur á Nígeríu á sama tíma.

Blaðamannafund eftir að leik lýkur má sjá sér í beinni útsendingu.