• þri. 24. júl. 2018
  • Fundargerðir

2208. fundur stjórnar KSÍ - 19. júlí 2018

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Guðrún Inga Sívertsen, Borghildur Sigurðardóttir, Magnús Gylfason, Gísli Gíslason, Ingi Sigurðsson, Valgeir Sigurðsson og Vignir Már Þormóðsson.  
Mættir varamenn:  Kristinn Jakobsson
Mættur landshlutafulltrúi:  Björn Friðþjófsson

Þá sat Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri fundinn og ritaði fundargerð.   

Fjarverandi:  Ragnhildur Skúladóttir, Ingvar Guðjónsson (varamaður í stjórn) og Jóhann Torfason (varamaður í stjórn).

Þetta var gert:   

  1. Fundargerð síðasta fundar
    • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.

  2. Fundargerðir nefnda voru lagðar fram til kynningar.
    • Útbreiðslunefnd 2. júní 2018.

  3. Reglugerðarbreytingar
    • Frestað.

  4. Heimsóknir til aðildarfélaga
    • Tvær heimsóknir hafa farið fram, til Fylkis og Þróttar.  Guðrún Inga fór yfir umræðuna á fundunum en báðar þessar heimsóknir voru gagnlegar.
    • Næstu heimsóknir til aðildarfélaga verða í ágúst.

  5. Málefni Laugardalsvallar
    • Guðni Bergsson formaður fór yfir stöðu mála varðandi Laugardalsvöll en lítil hreyfing hefur verið á málinu síðustu vikur, m.a. vegna sumarleyfa.

  6. Landsliðsmál
    • Rætt um úrslit landsleikja og úrslit leikja í Evrópukeppnum félagsliða frá síðasta stjórnarfundi.
      • Lokaundirbúningur A landsliðs karla fyrir HM 2018 fór fram á Íslandi og voru leiknir tveir vináttuleikir á Laugardalsvelli.  Fyrst við Noreg laugardaginn 2. júní, þar sem okkar gamli þjálfari Lars Lagerbäck, hafði betur 3-2.  Seinni vináttuleikurinn var gegn Gana og lauk þeim leik með 2-2 jafntefli.  Úrslit leikja Íslands á HM eru flestum kunn; 1-1 jafntefli gegn Argentínu, 0-2 tap gegn Nígeríu og 1-2 tap gegn Króatíu.  Niðurstaðan var sú að Ísland hafnaði í neðsta sæti síns riðils með eitt stig.  Næstu leikir A landsliðs karla eru í hinni nýju Þjóðadeild UEFA í september, útileikur gegn Sviss og heimaleikur gegn HM-bronsliði Belgíu.
      • A landslið kvenna mætti Slóveníu í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvellinum þann 11. júní og vann 2-0 sigur.  Úrslitin þýða að íslenska liðið er í lykilstöðu fyrir síðustu tvo leikina í riðlinum, sem báðir fara fram á Laugardalsvelli.  Fyrst er algjör úrslitaleikur, gegn Þjóðverjum 1. september, þar sem sigur tryggir íslenska liðinu efsta sæti riðilsins og þar með sæti í úrslitakeppni HM.  Jafntefli myndi einnig duga, ef sigur myndi vinnast á Tékklandi í leik sem fram fer 4. september.  Hafni íslenska liðið í 2. sæti síns riðils á liðið möguleika á að fara í umspil um laust sæti í lokakeppni HM.
      • U19 kvenna lék í milliriðli EM ásamt Noregi, Póllandi og Grikklandi.  Sigrar unnust á Póllandi (1-0) og Grikklandi (2-0), en tap í millitíðinni gegn Noregi (0-2) gerði það að verkum að íslenska liðið hafnaði í 2. sæti á eftir því norska, sem vann alla sína leiki, og missti af sæti í lokakeppninni, þrátt fyrir góða frammistöðu.
      • U17 kvenna lék í Norðurlandamótinu og var þar í riðli með Svíum, Englendingum og Þjóðverjum.  Eftir 0-2 tap í fyrsta leik gegn Svíum kom 2-1 sigur gegn Þjóðverjum.  Þeim sigri var fylgt eftir með öðrum sigri, 1-0 gegn Englandi.  Ísland hafnaði í 2. sæti í riðlinum á eftir Svíum.  Ísland lék því um 3. sætið á mótinu gegn Hollandi og eftir markalaust jafntefli vann íslenska liðið 5-4 sigur í vítaspyrnukeppni.
      • U18 karla leikur tvo vináttuleiki við Lettland í vikunni (19. og 21. júlí) og fara báðir leikirnir fram í Riga.
      • Íslensk félög leika seinni leiki sína í UEFA mótum í þessari viku og liggur þegar fyrir að Valur er úr leik í Meistaradeild UEFA eftir samanlagt 3-2 tap gegn norsku meisturunum í Rosenborg.  Valur vann góðan 1-0 sigur í fyrri leiknum, á heimavelli, en tapaði naumlega 3-1 í seinni leiknum í Þrándheimi.  Þessi úrslit þýða að Valsmenn færa sig yfir í Evrópudeild UEFA og mæta þar Santa Coloma frá Andorra í næstu umferð.  Seinni leikir hinna þriggja liðanna í Evrópudeildinni fara fram í kvöld.  ÍBV tapaði fyrri leik sínum gegn Sarpsborg frá Noregi á Hásteinsvelli 0-4.  FH-ingar og Stjörnumenn eru í góðri stöðu, enda unnu bæði liðin fyrri leiki sína 3-0 – FH gegn FC Lahti frá Finnlandi og Stjarnan gegn Nömmu Kalju frá Eistlandi.  FH leikur á Kaplakrikavelli í kvöld, en Stjarnan í Eistlandi.
    • Framkvæmdastjóri kynnti minnisblað um þátttöku Íslands í úrslitakeppni HM en verið er að undirbúa ýtarlega skýrslu um þátttöku Íslands á mótinu.  Í heildina séð er mikil ánægja með undirbúning og skipulag í kringum í þátttöku Íslands.  Stefnt er að því að bráðabirgðauppgjör mótsins verði tilbúið seinna í sumar.  Rætt var um starfsmannamál skrifstofu í tengslum við HM og framhaldið fyrir lausráðna starfsmenn sambandsins.  Stjórn bókaði þakkir til starfsmanna sambandsins fyrir vel unninn störf í tengslum við HM og mótahald hér heima á meðan á HM stóð.  Einnig var bókuð mikil ánægja með framkvæmd mótsins, samskipti við mótshaldara ofl.
    • Farið yfir breytingar á reglugerðum UEFA varðandi landsleiki yngri landsliða ofl.  Breytingarnar hafa m.a. verið kynntar á heimasíðu KSÍ.  Í þessu sambandi var rætt um fjölda skiptinga í lægri deildum á Íslandi og fjölda stöðvana á leiknum til skiptinga.
    • Rætt var um þjálfaramál A landsliðs karla.
      Stjórn KSÍ samþykkti að gefa Guðna Bergssyni formanni umboð til að leiða málið fyrir hönd KSÍ og að stjórn verði kölluð saman þegar frekari frétta er að vænta.

  7. Mótamál
    • Vignir Már Þormóðsson formaður mótanefndar fór yfir stöðuna í mótamálum.  Mótin hafa gengið vel og utanumhald verið með ágætum.  Töluvert hefur þó verið um færslur leikja í neðri deildum.  Stjórn KSÍ fagnaði því að Vængir Júpiters taki þátt í Evrópukeppninni í Futsal.
    • Lagt var fram og rætt um minnisblað um fjölda áhorfenda og fleira tengt deildar-og bikarkeppnum KSÍ.  Almennt hafa félögin lagt meira í markaðs-og kynningarmál en baráttan um athygli fólks er erfið.
        
  8. Dómaramál
    • Kristinn Jakobsson formaður dómaranefndar fór yfir stöðuna í dómaramálum.  David Ellery fulltrúi UEFA kemur í heimsókn í ágúst og fundar með dómurum.  Dómarar frá Englandi dæma þrjá leiki á næstunni hér á Íslandi og er það hluti af dómaraskiptasamstarfi Englands og Íslands.  Álag á dómara er mikið núna, margir leikir og sumarleyfi dómara.  Áhyggjuefni er hversu fámennur hópurinn er.  Þá lýsti stjórn yfir áhyggjum sínum af framkomu gagnvart dómurum eftir leiki og telur vera þörf á viðhorfsbreytingum í því sambandi.   Stjórn KSÍ samþykkt að senda bréf á öll félög og hvetja til virðingar fyrir leiknum, íslenskri knattspyrnu til heilla.

  9. Önnur mál
    • Gísli Gíslason formaður starfshóps um HM framlag til aðildarfélaga kynnti hugmyndir starfshópsins sem byggir á sambærilegri hugmyndafræði og úthlutunin eftir EM 2016.  Starfshópurinn mun kynna tillögur sínar á næsta stjórnarfundi.  Ítrekað er að til úthlutunar eru 200 milljónir í samræmi við fjárhagsáætlun sambandsins sem samþykkt var á ársþingi 2018.  Úthlutunin mun koma til greiðslu í haust, þegar framlag FIFA hefur borist en enn hefur ekki fengist staðfest hvenær von er á greiðslunni.
    • Lagt var fram bréf frá Stjörnunni vegna höfnunar á úthlutunar úr mannvirkjasjóði KSÍ.  Stjórn fór yfir málið og ítrekaði nauðsynleg þess að endurskoða reglugerð um mannvirkjasjóð.  Þá ræddi stjórn um mikilvægi þess að frumvarp um endurgreiðslu virðisaukaskatt verði samþykkt á Alþingi enda er það mál aðildarfélögum KSÍ mikilvægara en úthlutun úr mannvirkjasjóð.   Stjórn staðfesti að fyrri ákvörðun í málinu standi og var framkvæmdastjóra falið að senda svarbréf til Stjörnunnar.
    • Rætt um útbreiðsluverkefni sambandsins
      • Hæfileikamótun;  Seinni umferð lauk í byrjun júní
      • Hæfileikamót stúlkna verður 21.-22. september
      • Hæfileikamót drengja verður 28. – 29. September
      • Úrtökumót stúlkna (15 ára, yngri ár í 3. flokki) var á Akranesi 12.-16. júní
      • Úrtökumót drengja (15 ára, yngri ár í 3. flokki) var á Akranesi 19.-23. júní
      • Knattspyrnuskóli KSÍ (14 ára, eldra ár í 4. flokki) í Garðinum, stúlkur 17.-19. júlí
      • Knattspyrnuskóli KSÍ (14 ára, eldra ár í 4. flokki) í Garðinum, drengir 19.-21. júlí
      • U15 karla 10. ágúst og 12. ágúst, æfingaleikir gegn Kína og Hong Kong
      • Kristinn Sverrisson hefur heimsótt fjölmörg félag á landsbyggðinni í sumar fyrir hönd KSÍ. Kristinn setur upp knattþrautir fyrir krakka 12 ára og yngri, ásamt því að funda með þjálfurum og forráðamönnum félaganna.
    • Rætt um tónleika Guns and Roses sem fram fara á Laugardalsvelli 24. júlí næstkomandi.
    • Stjórn samþykkt tillögu Magnúsar Gylfasonar að kanna grundvöll fyrir safni/sýningarskápum um íslenska knattspyrnu og um þátttöku Íslands í stórmótum í húsakynnum KSÍ.  Stjórn sammála um þetta væri þarft framtak í tilefni 70 ára afmælis KSÍ og verður málið skoðað betur á milli funda.   

Fundi var slitið kl. 18:30