• fös. 17. ágú. 2018
  • Mótamál

Mjólkurbikar kvenna - Breiðablik bikarmeistarar 2018!

Breiðablik er Mjólkurbikarmeistari kvenna árið 2018 eftir 2-1 sigur gegn Stjörnunni. Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Guðrún Arnardóttir komu Breiðablik í 2-0, áður en Telma Hjaltalín Þrastardóttir minnkaði muninn þegar stutt var til leiksloka.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og voru nálægt því að komast yfir strax á 6. mínútu leiksins. Þá komst Telma Hjaltalín Þrastardóttir ein í gegn en Sonný Lára Þráinsdóttir varði frábærlega skot hennar. Stjarnan hélt áfram að sækja, en tókst ekki að koma boltanum í markið.

Það var svo á 19. mínútu að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Agla María Albertsdóttir komst upp að endamörkum, sendi boltann fyrir þar sem Berglind Björg var mætt og setti hann snyrtilega í markið. Breiðablik því komið yfir, en það sló Stjörnuna ekki út af laginu. Fjórum mínútum síðar var Harpa Þorsteinsdóttir nálægt því að komast ein í gegn, en Sonný Lára kom út úr teignum og hreinsaði vel. Stuttu síðar var svo aftur komið að Hörpu. Þá braut Guðrún Arnardóttir á henni rétt fyrir utan, en aukaspyrna Hörpu fór í vegginn.

Á 29. mínútu fékk Breiðablik hornspyrnu, boltinn barst til Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur. Hún kom boltanum fyrir, beint á Hildi Antonsdóttur en skot hennar hafnaði í stönginni. Breiðablik mjög nálægt því að auka forskot sitt. Þær gerðu það hins vegar á 36. mínútu. Þá tók Agla María aukaspyrnu úti á kanti sem fór beint á kollinn á Guðrúnu og í netið. Staðan því orðin 2-0 fyrir Breiðablik.

Stjarnan átti svo síðasta færi fyrri hálfleiks. Þórdís Hrönn sendi þá aukaspyrnu inn á teig og Megan Lea Dunnigan skallaði boltann í stöngina. Garðbæingar ótrúlega nálægt því að minnka muninn rétt fyrir leikhlé.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með í seinni hálfleik. Bæði liðin sóttu og voru nálægt því að skapa sér góð færi. Blikar vörðust mjög vel, voru grimmar í öllum sínum aðgerðum og ávallt tilbúnar að sækja hratt þegar tækifæri gafst.

Á 66. mínútu fór Harpa Þorsteinsdóttir af vell og inn á kom Guðmunda Brynja Óladóttir. Stjarnan hélt áfram að reyna allt til að komast inn í leikinn aftur og á 74. mínútu átti Guðmunda Brynja skalla að marki Blika en Sonný Lára varði hann örugglega. Stuttu síðar gerði Breiðablik fyrstu skiptingu sína í leiknum þegar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir kom inná fyrir Karólínu Leu. 

Leikurinn hélt áfram að vera nokkuð jafn, Breiðablik sat til baka og varðist vel á meðan Stjarnan reyndi að skapa sér færi en án árangurs. Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum kom Bryndís Björnsdóttir inn á hjá Stjörnunni, en útaf fór Katrín Ásbjörnsdóttir. 

Á 87. mínútu tókst Stjörnunni svo að minnka muninn. Telma Hjaltalín átti þá skot af löngu færi upp í markhornið, frábært mark. Staðan því orðin 2-1 og ljóst að loka mínúturnar yrðu spennandi. Stuttu síðar kom Ana Victoria Cate inn á í stað Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur.

Stuttu síðar voru Blikar ótrúlega nálægt því að skora sitt þriðja mark. Alexandra Jóhannsdóttir átti sendingu fyrir markið á Berglindi en skot hennar fór í stöngina. Berglind var síðan nálægt því að ná til boltans aftur en Bryndís bjargaði frábærlega.

Mikil spenna var það sem eftir lifði leiks. Stjarnan reyndi allt hvað þær gátu til að jafna leikinn, en vörn Breiðabliks stóð vaktina frábærlega. Breiðablik er því Mjólkurbikarmeistari kvenna 2018!