• þri. 11. sep. 2018
  • Landslið

A karla - 3-0 tap gegn Belgíu í Þjóðadeildinni

A landslið karla tapaði 3-0 fyrir Belgíu í öðrum leik liðsins í Þjóðadeild UEFA. Næsti leikur liðsins í Þjóðadeildinni fer fram 15. október þegar Ísland mætir Sviss á Laugardalsvelli.

Ísland byrjaði leikinn mjög vel, héldu boltanum ágætlega, gáfu fá færi á sér og voru hættulegir þegar liðið sótti fram. Strákarnir voru í raun betri aðilinn fyrstu 15 mínútur leiksins og voru Belgar í vandræðum með liðið. Gylfi Sigurðsson komst í fær eftir góða sendingu Jóns Daða Böðvarssonar, en Vincent Kompany komst í veg fyrir skot hans.

Eftir þetta komst Belgía betur inn í leikinn, fóru að halda boltanum betur og sækja meira. Þeim tókst þó ekki að skapa sér nein opin færi og lokuðu strákarnir vel á aðgerðir þeirra. Það breyttist hins vegar eftir 28 mínútna leik þegar Romelu Lukaku krækti í vítaspyrnu. Eden Hazard steig á punktinn og skoraði af öryggi. Aðeins þremur mínútum síðar tvöfölduðu þeir forystuna. Kompany átti þá frábæran skalla eftir hornspyrnu sem Hannes Halldórsson varði, en Lukaku náði frákastinu og kom boltanum yfir línuna. Staðan því orðin 2-0.

Fátt annað markvert gerðist til loka fyrri hálfleiks og því fóru Belgar með gott forskot inn í hálfleikinn.

Ísland komu sterkir til baka í síðari hálfleik, byrjuðu hann af krafti aftur og reyndu að sækja. Það gekk þó erfiðlega að skapa færi, Belgar vörðust vel og lokuðu svæðum ágætlega. Gylfi átti besta færi leiksins þegar hann átti gott skot rétt fyrir utan teiginn, en Thibaut Courtois varði frábærlega.

Þegar aðeins um níu mínútur voru eftir af leiknum bætti Lukaku við þriðja marki liðsins, og sínu öðru, og 3-0 sigur þeirra því staðreynd.

Næsti leikur liðsins er gegn Frakklandi, ytra, þann 11. október en um er að ræða vináttuleik. Ísland mætir síðan Sviss 15. október í Þjóðadeild Evrópu á Laugardalsvelli.