• fim. 11. okt. 2018
  • Landslið

A karla - 2-2 jafntefli gegn Frakklandi

A landslið karla gerði 2-2 jafntefli við Frakkland, en leikið var í Guingamp. Strákarnir áttu frábæran leik, voru 1-0 yfir í hálfleik og hefðu getað skorað enn fleiri mörk. Frakkar skoruðu tvö mörk undir lok leiksins og jafntefli því niðurstaðan.

Frakkar byrjuðu leikinn betur, héldu boltanum vel en tókst ekki að skapa sér nein færi. Það var Arnór Ingvi Traustason sem átti fyrsta skot leiksins, en Hugo Lloris varði það vel í marki Frakklands. Fjórum mínútum síðar var það Alfreð Finnbogason sem lét Lloris verja frá sér. Flott byrjun hjá strákunum.

Fyrsta góða færi Frakklands kom síðan á 19. mínútu. Þá átti Antoine Griezmann góðan skall eftir fyrirgjöf Lucas Digne, en hann fór framhjá marki Íslands. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós eftir um hálftíma leik. Alfreð fór framhjá Presnel Kimpembe og renndi boltanum á Birki sem setti hann frábærlega í hornið. Staðan orðin 1-0 fyrir Íslandi.

Stuttu síðar komst Ousmane Dembele í frábært færi, en Rúnar Alex Rúnarsson varði glæsilega í markinu. Þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum var Ísland grátlega nálægt því að bæta við marki. Ragnar Sigurðsson átti þá flottan skalla eftir hornspyrnu Gylfa Sigurðssonar, en Lloris varði meistaralega í markinu. Eftir smá darraðadans í kjölfarið var dæmd rangstaða og Frakkar sluppu með skrekkinn.

Staðan því 1-0 fyrir Ísland eftir frábæran fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá síðasta, Frakkar voru meira með boltann og sóttu að marki Íslands. Á 54. mínútu varði Hannes Halldórsson stórkostlega skalla frá Griezmann. Fjórum mínútum síðar var það hins vegar Ísland sem jók við forystuna. Kári Árnason stangaði þá boltann í slánna og yfir línuna eftir hornspyrnu Gylfa. 

Eftir markið var lítið skapað af færum, Frakkland voru ennþá meira með boltann og stjórnuðu leiknum á meðan strákarnir vörðust mjög vel. Þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum tókst Frakklandi að minnka muninn. Kylian Mbappe komst í gegn, skaut að marki en Hannes varði. Boltinn fór hins vegar beint í Hólmar Eyjólfsson og í netið. Algjör óheppni og staðan orðin 2-1. 

Fjórum mínútum síðar fengu Frakkland víti þegar boltinn lenti í hendi Kolbeins Sigþórssonar. Mbappe steig á punktinn og skoraði af öryggi. 

Lokastaðan því 2-2. Frábær frammistaða hjá strákunum, en það er stutt í næsta leik og hann er stór. Sviss mætir á Laugardalsvöll á mánudaginn, en sigur þar gæti skilað Íslandi í efsta styrkleikaflokk fyrir undankeppni EM 2020!

Allir á völlinn!