• mán. 22. okt. 2018
  • Landslið

A kvenna - Jón Þór Hauksson nýr landsliðsþjálfari

Jón Þór Hauksson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari A landsliðs kvenna, en hann tekur við af Frey Alexanderssyni. Á sama tíma hefur Ian Jeffs verið ráðinn aðstoðarþjálfari. Samningar þeirra eru til tveggja ára.

Jón Þór þjálfaði lengi vel hjá ÍA, var aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla ásamt því að þjálfa 2. og 3. flokk karla um árabil. Einnig var hann yfirþjálfari yngri flokka félagsins frá 2013-2017. Haustið 2017 var Jón Þór ráðinn sem aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki karla hjá Stjörnunni, en þar varð hann bikarmeistari með félaginu.

Hann er með KSÍ A þjálfaragráðu og var í fyrsta hópnum sem útskrifaðist með UEFA Elite Youth License gráðuna.

Ian Jeffs lék í fjölda ára með ÍBV, ásamt sitthvoru tímabilinu með Fylki og Val, og hefur hann spilað 260 leiki og skorað í þeim 48 mörk.

Hann tók við þjálfun meistaraflokks kvenna hjá ÍBV árið 2015 og stýrði liðinu þar til hann hætti að nýliðnu tímabili loknu. Hann kom liðinu í úrslit bikarkeppninnar tvö ár í röð, 2016 og 2017, og hampaði ÍBV bikarnum í fyrra.

Ian er með KSÍ A þjálfaragráðu og UEFA Elite Youth License gráðu.

KSÍ býður þá velkomna til starfa og hlakkar til samstarfsins.