• lau. 17. nóv. 2018
  • Landslið

U21 - 1-1 jafntefli gegn Kína

U21 ára lið Íslands gerði 1-1 jafntefli við Kína, en leikið var í Chongqing. Þetta var annar leikur liðsins hér í Kína og var það Felix Örn Friðriksson sem skoraði mark strákanna í síðari hálfleik. LIðið mætir Tælandi á mánudag í síðasta leik liðsins á mótinu.

Það voru Kínverjar sem byrjuðu leikinn betur og voru meira með boltann en áttu í vandræðum með að skapa sér færi. Á 13. mínútu áttu þeir gott skot fyrir utan teig, en Aron Birkir Stefánsson varði auðveldlega í marki Íslands. Þremur mínútum síðar var komið að strákunum okkar. Hörður Ingi Gunnarsson átti þá góða fyrirgjöf en Stefán Teitur Þórðarson náði ekki að stýra boltanum á markið með skalla.

Kínverjar tóku síðan forystuna á 18. mínútu þegar þeir skölluðu boltann í netið eftir hornspyrnu og staðan því orðin 1-0 fyrir heimamenn. Leikurinn róaðist aðeins eftir það og var mikið um stöðubaráttur inni á vellinum. Bæði lið áttu færi í lok hálfleiksins en hvorugu tókst að setja boltann í netið. Staðan því 1-0 fyrir Kína í hálfleik.

Ísland gerði sex breytingar í hálfleiknum. Inn á komu þeir Alfons Sampsted, Felix Örn Friðriksson, Alex Þór Hauksson, Sveinn Aron Guðjohnsen, Willum Þór WIllumsson og Kristófer Ingi Kristinsson. Útaf fóru þeir Aron Már Brynjarsson, Jónatan Ingi Jónsson, Stefán Teitur Þórðarson, Ægir Jarl Jónasson, Hörður Ingi Gunnarsson og Daníel Hafsteinsson.

Strákarnir komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðu fljótt góðum tökum á leiknum. Kristófer Ingi átti tvö fín skot á fyrsta korterinu og Aron Birkir varði vel eitt skot fyrir utan teig. Það var svo Felix Örn sem jafnaði leikinn með góðu skoti sem hafnaði í stönginni, í bak markvarðar Kína og í netið. Staðan því orðin jöfn, 1-1.

Júlíus Magnússon kom inn á strax í kjölfar marksins fyrir Guðmund Andra Tryggvason. Nokkrum mínútum síðar var Sveinn Aron nálægt því að koma sér í gott færi en skot hans fór í hliðarnetið.

Aron Birkir átti flottan leik í marki Íslands og á fimm mínútna kafla varði hann frábærlega tvisvar. Leikurinn var nokkuð jafn í lokin og hefðu í raun bæði lið getað stolið sigrinum, en jafntefli sanngjörn úrslit og þar við sat.

Ísland mætir Tælandi á mánudaginn í þriðja, og síðasta, leik liðsins á mótinu áður en haldið er heim á leið.