• fös. 22. feb. 2019
  • Dómaramál
  • Mótamál
  • Knattspyrnulögin

Athyglisverðar breytingar á knattspyrnulögunum framundan?

Á 133. ársfundi IFAB (Alþjóðanefndar knattspyrnusambanda), sem haldinn verður í Skotlandi 2. mars nk., verða lagðar fram til staðfestingar ýmsar athyglisverðar tillögur tækni- og ráðgjafarnefnda IFAB um breytingar á knattspyrnulögunum 2019/2020.

Breytingar þær sem IFAB gerir á knattspyrnulögunum taka alla jafna ekki gildi fyrr en 1. júní ár hvert, en ef að líkum lætur mun stjórn KSÍ líkt og undanfarin ár óska eftir heimild frá IFAB þess efnis að lagabreytingarnar taki gildi á Íslandi allt frá upphafi keppni í Mjólkurbikarnum, sem verður 10. apríl 2019.

Eftirfarandi breytingar á knattspyrnulögunum verða að öllum líkindum staðfestar á ársfundinum:

• Markverðir þurfi einungis að hafa annan fótinn á marklínunni við töku vítaspyrna.

• Leikmönnum sem skipt er af velli beri að yfirgefa völlinn við næstu útlínu hans.

• Gul og rauð spjöld megi nú sýna forráðamönnum á boðvangi (þegar innleitt á Íslandi 2018).

• Leikmenn megi snerta boltann innan eigin vítateigs eftir markspyrnur og aukaspyrnur þaðan. Sóknarmennirnir verði eftir sem áður að halda sig utan vítateigsins þar til boltinn hefur farið út úr vítateignum eða verið snertur af mótherja innan hans.

Ennfremur er gert ráð fyrir að IFAB taki á ársfundinum ákvörðun um að hætta alfarið við fyrirhugaða innleiðingu á svokallaðri "ABBA-spyrnuröð" í vítaspyrnukeppnum.

Þá er gert ráð fyrir að IFAB muni á fundinum freista þess að einfalda og skýra orðalag laganna um hvað teljist "óviljandi" hendi. Þannig verði framvegis dæmd hendi ef leikmaður hagnast með ósanngjörnum hætti á því að fá boltann óvart í höndina/handlegginn, t.d. ef mark er skorað með slíkri snertingu, eða ef hann nær með óviljandi snertingu handarinnar/handleggsins valdi á boltanum og skorar eða leggur síðan upp mark eða marktækifæri í framhaldinu.

Að síðustu er gert ráð fyrir að nefndin ræði (eða samþykki jafnvel strax) ýmsar tillögur sem tengjast svokölluðu "Fair-play" átaki, t.d. hvernig taka beri á sóknarmönnum sem reyna að valda usla við varnarvegginn og að leikur skuli stöðvaður ef boltinn hrekkur af dómaranum þannig að úr því skapist mark, marktækifæri eða vænlegt upphlaup (og leikur hafinn að nýju með því að dómarinn lætur boltann falla).