• mið. 27. feb. 2019
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - Markalaust jafntefli gegn Kanada

Ísland gerði markalaust jafntefli við Kanada í fyrsta leik liðsins á Algarve Cup 2019, en leikið var í Parchal. Liðið mætir næsta Skotlandi 4. mars.

Kanada byrjaði leikinn betur og tók völdin á vellinum fljótlega, á meðan fyrstu 15 mínútur leiksins voru erfiðar fyrir Ísland. Kanada skapaði sér nokkur færi á þessum tíma, en Sandra Sigurðardóttir sá við öllum þeirra tilraunum.

Það var svo á 23. mínútu leiksins sem fyrsta tilraun Íslands leit dagsins ljós. Berglind Björg Þorvaldsdóttir átti þá skot sem fór beint á markvörð Kanada. Sex mínútum síðar voru Agla María Albertsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir nálægt því að skora, en ekki tókst það.

Fá færi litu dagsins ljós það sem eftir lifði hálfleiksins, en Kanada var betri aðilinn á meðan íslenska liðið varðist vel.

Fyrsta færi seinni hálfleiks kom eftir um fimm mínútur þegar Sandra varði frábærlega fá sóknarmanni Kanada. 

Kanada hélt áfram að vera sterkari aðilinn en þó án þess að skapa sér einhver opin færi. Þær voru þó nálægt því á 61. mínútu. Kanada komst upp að endamörkum og áttu frábæra fyrirgjöf fyrir markið, en íslenska vörnin náði að hreinsa á síðustu stundu.

Á 64. mínútu komu þær Svava Rós Guðmundsdóttir, Rakel Hönnudóttir og Anna Björk Kristjánsdóttir inn á, en út fóru þær Sif Atladóttir, Elín Metta Jensen og Berglind Björg Þorvaldsdóttir.

Kanada hélt áfram að halda boltanum vel á meðan Ísland varðist vel og náði að loka á allar aðgerðir Kanada. Á 74. mínútu kom Ásta Eir Árndóttir inn á fyrir Selmu Sól Magnúsdóttur. Sandra Sigurðardóttir varði glæsilega skot Kanada um fimm mínútum síðar.

Þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum kom Dagný Brynjarsdóttir inn á, en um er að ræða fyrsta landsleik hennar síðan 24. október 2017. Stuttu síðar fékk Svava Rós gult spjald.

Kanada setti mikla pressu á Ísland undir lok leiksins, en vörnin hélt og markalaust jafntefli staðreynd.