• fim. 28. mar. 2019
  • Dómaramál

Gríðarlegur fjöldi dómarastarfa í hverri viku

Starfsmenn dómaramála hjá KSÍ standa í ströngu í hverri viku og fyrir hverja helgi við það að manna þá leiki þar sem KSÍ skaffar dómara.  Að jafnaði er KSÍ að manna 70-80 störf hverja helgi allt frá þeim tíma þegar leikjum Lengjubikarsins fer að fjölga snemma á hverju ári og þar til nær dregur lokum þeirrar keppni.  Yfir stærstu helgarnar er talan nær 90 störfum.  Hér skal áréttað að eingöngu er átt við leiki í meistaraflokkum karla og kvenna í vetrarmótum.  Yfir sumartímann fer þessi tala vel upp fyrir hundraðið og yfir 120 á mestu álagstímunum.

Fyrir utan verkefni skrifstofu KSÍ, þá eru aðildarfélögin að sama skapi að manna ógrynni dómarastarfa fyrir leiki yngri flokka í hverri einustu viku og fyrir hverja einustu helgi - í vetrarmótum og sumarmótum, og er fjöldinn yfir sumarið margfaldur miðað við veturinn.  Það segir sig sjálft að allur þessu fjöldi starfa kallar á mikinn fjölda dómara til að taka að sér þessi verkefni og stöðugt er unnið að því að fjölga í dómarastéttinni.  KSÍ og félögin vinna þarna náið saman og á hverju ári er haldinn fjöldinn allur af dómaranámskeiðum hjá aðildarfélögunum til að hvetja fólk til dáða og koma til starfa fyrir sín félög.

Dómaramál og dómaranámskeið