• þri. 30. apr. 2019
  • Ársþing

Kolbrún Hrund í framboði til framkvæmdastjórnar ÍSÍ

74. Íþróttaþing ÍSÍ verður haldið í Gullhömrum í Reykjavík 3.-4. maí nk. Fyrir þinginu liggja 24 tillögur frá framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum og má finna öll þinggögn og tillögur á vef ÍSÍ.

Nánar um íþróttaþing ÍSÍ

Alls eiga 108 fulltrúar sérsambanda og 108 fulltrúar íþróttahéraða fullan seturétt á þinginu, en auk þess eiga 18 íþróttahéruð rétt á einum áheyrnarfulltrúa til viðbótar. Kosningar til framkvæmdastjórnar ÍSÍ fara fram á laugardeginum 4. maí og er þar í framboði Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, sem er formaður knattspyrnudeildar Fylkis. Kolbrún, sem er menntaður grunnskólakennari með meistaragráðu í kynjafræði og diplómu í kynfræði, hefur setið í stjórn knattspyrnudeildar Fylkis síðan 2016 og tók við sem formaður knattspyrnudeildar haustið 2018. Kolbrún var í útbreiðslunefnd KSÍ 2018, er Jafnréttisfulltrúi Fylkis og hefur verið það síðan 2015, auk þess að hafa verið liðsstjóri og hópeflisþjálfari hjá meistaraflokki kvenna í Fylki 2016.