• mán. 06. maí 2019
  • Fræðsla
  • Útbreiðsla

Knattspyrnan veitir útrás og eflir félagsþroska

Verkefnastjórar Soroptimistaklúbbsins í Árbæ leituðu til KSÍ fyrr á árinu og óskuðu eftir búningum til að gefa áfram til stúlknaliðs í knattspyrnufélaginu Mogbwemo Queens í litlu námuþorpi í Sierra Leone í Afríku. Samkvæmt upplýsingum frá Soroptimistaklúbbnum hafa flestar stúlkurnar í liðinu hlotið litla eða enga menntun og margar eiga átakanlega sögu um ofbeldi.

Það að stofna knattspyrnulið hefur hvatt stúlkurnar til að taka upp námsþráðinn og halda áfram í skólanum. Knattspyrnan veitir þeim útrás, eflir félagsþroska þeirra og þær fá tækifæri til að ferðast til annarra þorpa í landinu, sem þær gætu ekki annars.  Sá sem stofnaði knattspyrnuliðið heitir Emmanuel, fæddur og uppalinn í Bretlandi en hefur tekið ástfóstri við Sierra Leone. Emmanuel heldur utan um rekstur liðsins, fjáraflanir og önnur verkefni, m.a. að leita leiða til að útvega viðeigandi búnað. Þessa dagana er t.d. mikil þörf fyrir fótboltaskó og -sokka. Stúlkurnar vilja heldur notaða skó, í stærðum 38-41 í stað þess að fá peningagjöf fyrir þeim, því úrvalið í landinu er lítið sem ekkert.

Áhugasömum um að leggja verkefninu lið er bent á Soroptimistaklúbb Árbæjar