• þri. 07. maí 2019
  • Landslið
  • U17 karla
  • EM U17 karla

U17 karla - 1-2 tap gegn Ungverjalandi

Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi 1-2 í öðrum leik liðsins á EM 2019, en leikið er í Dublin.

Ungverjar byrjuðu leikinn af krafti og héldu boltanum nokkuð vel og fengu strax fyrsta færi leiksins á fyrstu mínútu hans. Boltinn datt fyrir sóknarmann þeirra en Ólafur Kristófer Helgason varði skotið. 

Leikurinn var jafn framan af, en þó voru Ungverjar meira með boltann. Hvorugt liðið náði hins vegar að skapa sér færi að ráði.

Á 18. mínútu komust Ungverjar einir í gegn en Ólafur Kristófer varði frábærlega. Það var svo á 31. mínútu leiksins sem fyrsta markið leit dagsins ljós og voru það Ungverjar sem skoruðu það. Rajmund Molnár skoraði það með góðu skoti úr teignum.

Sex mínútum síðar áttu Ungverjar síðan skot rétt fyrir utan teig sem fór framhjá markinu. Staðan 0-1 í hálfleik.

Baldur Hannes Stefánsson kom inn á í hálfleik fyrir Hákon Arnar Haraldsson.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og pressuðu vel á vörn Ungverjalands. Sú pressa skilaði sér á 51. mínútu þegar Mikael Egill komst í gegn og skoraði með góðu skoti. Staðan orðin jöfn, 1-1.

Strákarnir héldu áfram að pressa vel á Ungverjana, en þeir komust þó betur og betur inn í leikinn að nýju. Á 63. mínútu áttu þeir góða skyndisókn en Ólafur Kristófer varði skot þeirra vel.

Á 74. mínútu komu þeir Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Lucas Guðjohnsen og Andri Fannar Baldursson inn á. Útaf fóru Danijel Dejan Djuric, Kristall Máni Ingason og Davíð Snær Jóhannsson.

Leikurinn var jafn allt til leiksloka, en á 90. mínútu leiksins skoruðu Ungverjar sigurmarkið af vítapunktinum. Undir lok leiks kom Elmar Þór Jónsson inn á, en útaf fór Mikael Egill Ellertsson. Svekkjandi 1-2 tap staðreynd.

Næsti leikur liðsins er á föstudaginn þegar Ísland mætir Portúgal.