• fim. 06. jún. 2019
  • Agamál
  • Lög og reglugerðir

Úrskurðaður í 5 leikja bann

Aga- og úrskurðarnefnd hefur kveðið upp úrskurð sinn í máli nr 3/2019 – KSÍ gegn Björgvini Stefánssyni og til réttargæslu Knattspyrnudeild Hauka og Knattspyrnudeild KR.

Framkvæmdastjóri KSÍ sendi aga- og úrskurðarnefnd KSÍ greinargerð, dags. 24. maí 2019, varðandi „Ósæmileg ummæli Björgvins Stefánssonar“ þegar hann lýsti leik Hauka og Þróttar R. í Inkasso-deild karla, sem fór fram á Ásvöllum 23. maí sl., á vefmiðlinum Haukar TV.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ tók málið fyrir, dags. 28. maí 2019, þar sem ákveðið var að gefa Björgvini og forsvarsmönnum knattspyrnudeilda KR og Hauka kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu. Frestur var veittur fram á hádegi 3. júní sl. til að skila athugasemdum og andmælum. Gögn bárust frá knattspyrnudeild KR og Knattspyrnudeild Hauka.

Aga- og úrskurðarnefnd tók síðan málið fyrir á fundi þriðjudaginn 4. júni og kvað upp neðangreindan úrskurð á fundi sínum fimmtudaginn 6. júní.

„Björgvin Stefánsson skal sæta leikbanni í 5 leiki í keppnum á vegum KSÍ og tekur bannið gildi nú þegar. Auk þess sætir Björgvin banni frá leikvelli Hauka á Ásvöllum á meðan leikbannið varir. Knattspyrnudeild Hauka skal sæta sekt að upphæð kr. 100.000 til KSÍ.“

Smellið hér til að skoða úrskurðinn í heild

Aga- og úrskurðarnefnd er sjálfstætt úrskurðarvald knattspyrnuhreyfingarinnar og starfar óháð stjórn KSÍ, öðrum nefndum, skrifstofu KSÍ, eða öðrum aðilum og einingum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Hlutverki, skipulagi og verklagi aga- og úrskurðarnefndar er lýst í lögum KSÍ, reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál og starfsreglum nefndarinnar.

Málsmeðferðarreglur samkvæmt reglugerð um aga- og úrskurðarmál skiptast í tvennt, annars vegar agamál og hins vegar kærumál vegna meintra brota á lögum og reglugerðum KSÍ, líkt og það mál 3/2019, sem hér er fjallað um. Um agamál er fjallað um á reglubundnum fundum aga- og úrskurðarnefndar, þau ná allajafna til þess sem fram kemur í skýrslu dómara, og úrskurðir eru kveðnir upp á viðkomandi fundi. Kærumál hins vegar lúta öðrum málsmeðferðarreglum, um þau fjallar aga- og úrskurðarnefnd sérstaklega og úrskurðir vegna kærumála koma ekki fram í reglubundnum úrskurðum, heldur eru þeir birtir sérstaklega að lokinni viðeigandi málsmeðferð.

Umrætt brot á 16. grein reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál fellur undir kærumál og lýtur málsmeðferðarreglum samkvæmt því.

Smellið hér að neðan til að lesa meira um lögsögu og hlutverk aga- og úrskurðarnefndar, starfsreglur nefndarinnar reglugerð um aga- og úrskurðarmál.

Reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál

Starfsreglur aga- og úrskurðarnefndar

Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót