• mið. 26. jún. 2019
  • Mótamál
  • Mjólkurbikarinn

ÍBV og Víkingur R. hafa fjórum sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ

Boltinn heldur áfram að rúlla í Mjólkurbikar karla og í kvöld fer fram fyrsti leikurinn í 8 liða úrslitum, en þá eigast við ÍBV og Víkingur R. Liðin hafa mæst fjórum sinnum áður í Bikarkeppni KSÍ. ÍBV hefur unnið þrjá leiki, en Víkingur einn.

Fyrsta viðureignin var á malarvellinum í Löngulág í Vestmannaeyjum, þar sem ÍBV vann 4-1 sigur í 8-liða úslitum. ÍBV fór alla leið í bikarnum það árið og hampaði bikarmeistaratitlinum eftir 2-0 sigur á FH í úrslitaleik á Melavellinum í Reykjavík.

Þegar ÍBV og Víkingur áttust við í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins árið 1992 fóru fimm gul spjöld á loft og var jafnt 2-2 eftir venjulegan leiktíma, en Víkingur vann 3-2 eftir æsispennandi framlengingu.

Liðin mættust að nýju 17 árum síðar, í 32-liða úrslitum árið 2009, og þá voru úrslitin einnig 3-2, en að þessu sinni voru það Eyjamenn sem fóru með sigur af hólmi þar sem Viðar Örn Kjartansson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

ÍBV vann Víking svo aftur þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum í bikarnum 2017 í fjörugum leik og niðurstaðan 2-1 sigur ÍBV. Líkt og 1972 fór ÍBV alla leið og fagnaði enn einum bikartitlinum eftir 1-0 sigur gegn FH, eins og 1972, í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli.

Liðin mætast á Hásteinsvelli í Eyjum kl. 18:00 í dag, miðvikudag, og er fólk hvatt til að fjölmenna á völlinn og drekka í sig stemninguna. Þau sem ekki komast á leikinn geta fylgst með í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Mjólkurbikar karla

Dregið verður í undanúrslit Mjólkurbikars karla og kvenna í höfuðstöðvum KSÍ á mánudag kl. 12:00.

Mynd með grein:  Frá leik á Melavelli í Reykjavík, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.