• mán. 08. júl. 2019
  • Fræðsla

KSÍ VI þjálfaranámskeið 2019

(Frétt áður birt 14. maí)

Næsta haust mun Knattspyrnusamband Íslands halda KSÍ VI þjálfaranámskeið. Fyrsti hluti námskeiðsins er leikgreiningarnámskeið helgina 21.-22. september. Síðari hluti námskeiðsins verður svo í Danmörku dagana 16.-22. október 2019.

Útlistun á umsóknarferli og uppbygging námskeiðsins í grófum dráttum er sem hér segir:

• Allir þjálfarar sem sækja um þurfa að taka KSÍ A þjálfaraskólann (viðhengi). Þjálfarar þurfa að ljúka Þjálfaraskólanum í síðasta lagi föstudaginn 16. ágúst. Þjálfaraskóli KSÍ kostar 15.000 kr.
• Þeir þjálfarar sem hafa tekið KSÍ A þjálfaraskólann áður, þurfa ekki að gera það aftur. En það er valfrjálst. Allir sem sækja um í fyrsta sinn þurfa hins vegar að taka KSÍ A þjálfaraskólann.
• Umsækjendur þurfa jafnframt að hafa lokið KSÍ V þjálfaranámskeiði. Hins vegar geta þeir þjálfarar sem eiga eftir að taka KSÍ V námskeið gert það helgina 4.-6. október 2019 og verið þar með gjaldgengir á KSÍ VI námskeiðið. Þeir þjálfarar þurfa samt sem áður að skila inn umsókn fyrir tiltekin tíma og taka Þjálfaraskólann.
• Umsóknarfrestur er til föstudagsins 23. ágúst. Reiknað er með að fleiri þjálfarar sæki um námskeiðið en hægt er að taka inn. Umsækjendur þurfa því að fylla út umsóknareyðublað (viðhengi). Fræðslunefnd KSÍ mun svo í kjölfarið velja 12 þjálfara til þátttöku á námskeiðinu.
• Hópurinn sem valinn verður mun svo hittast helgina 21.-22. september. Þá helgi verður námskeið í leikgreiningu þar sem leikgreindir verða leikir í Pepsi-deild karla og þátttakendur fá kennslu á Sideline hugbúnaðinn. Þátttakendur fá sinn eigin aðgang að Sideline analyzer í þrjá mánuði og Sideline organizer í eitt ár og er það innifalið í námskeiðgjaldinu.
• Miðvikudaginn 16. október verður haldið til Kaupmannahafnar. Námskeiðið verður í Farum í útjaðri Kaupmannahafnar þar sem gist verður á hóteli sem staðsett er á keppnisvelli FC Nordsjælland. Heimsóttir verða tveir klúbbar í ferðinni, en í nágreninu eru m.a. FC Köbenhavn og Bröndby IF.
• Stór hluti námskeiðsins verður helgaður áætlunargerð. Þátttakendur þurfa að vinna æfingaáætlun fyrir sitt lið og skiladagur er 11. desember 2019.
• C.a. þremur vikum eftir að heim er komið verður skriflegt próf þar sem prófað er úr námsefni af KSÍ V og KSÍ VI.

KSÍ VI þjálfaranámskeiðið er hluti af UEFA A þjálfaragráðunni en þjálfarar í Pepsi-deildum karla og kvenna, 1. deild karla og yfirþjálfarar unglingastarfs félaga í þessum deildum þurfa að hafa UEFA A þjálfaragráðu samkvæmt reglugerð KSÍ um menntun þjálfara og kröfu leyfisnefndar KSÍ.

Í viðhengi er umsókn að KSÍ VI þjálfaranámskeiðinu, dagskrá síðasta KSÍ VI námskeiðs sem haldið var í Danmörku, upplýsingar um Þjálfaraskóla KSÍ og reglugerð KSÍ um menntun þjálfara. Upplýsingar um Hotel Farum Park má finna hér: http://www.fcnhotel.dk/

KSÍ vekur athygli á því að síðasti dagur til að skila inn umsókninni er 23. ágúst næstkomandi, en auðvitað má skila umsóknum fyrr. Ljúka þarf KSÍ A þjálfaraskólanum í síðasta lagi 16. ágúst.

ATH. Í samræmi við reglugerð UEFA um menntun þjálfara, þá þarf að líða a.m.k. eitt ár frá því að þjálfari klárar UEFA B þjálfaragráðuna þar til að þjálfari hefur nám á UEFA A þjálfaragráðu. Það þýðir að þeir þjálfarar sem kláruðu UEFA B þjálfaragráðuna á vorönn 2019 þurfa að bíða til 2020 með að sækja um inngöngu á UEFA A þjálfaragráðuna. Þeir þjálfarar sem klára UEFA B þjálfaragráðuna í maí 2019 geta aftur á móti tekið 5. stigs námskeiðið sem haldið verður 4.-6. október 2019.

Námskeiðið kostar 300.000 kr.

Fræðslunefnd KSÍ stefnir á að taka 12 þjálfara inn á námskeiðið.

Á námskeiðinu er 100% mætingarskylda og það er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur gætu þurft að taka þátt í verklegum tímum. Á námskeiðinu kenna kennarar frá KSÍ og erlendir fyrirlesarar. Hluti námskeiðsins fer fram á ensku.

Dagskrá námskeiðsins er í vinnslu og verður gefin út þegar nær dregur.

Allar nánari upplýsingar um námskeiðið veita Dagur Sveinn Dagbjartsson í dagur@ksi.is og Arnar Bill Gunnarsson í arnarbill@ksi.is

Reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara

Þjálfaraskóli KSÍ

KSÍ VI 2018 - 1. hluti

KSÍ VI 2019 - Danmörk

Umsóknareyðublað - KSÍ VI 2019