• fim. 29. ágú. 2019
  • A kvenna
  • Landslið

A kvenna - 4-1 sigur gegn Ungverjalandi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

A landslið kvenna vann góðan 4-1 sigur í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2021. Elín Metta Jensen, með tvö, Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og tók frumkvæðið strax frá byrjun. Þrátt fyrir það tókst liðinu ekki að opna ungversku vörnina. En á 10. mínútu dróg til tíðinda. Hallbera Guðný Gísladóttir átti þá flott fyrirgjöf frá vinstri beint á Elínu Mettu og hún setti hann af öryggi í netið. Sanngjörn forusta hjá Íslandi eftir að hafa verið mun sterkari aðilinn þessar fyrstu tíu mínútur.

Ungverjar komust hægt og bítandi betur inn í leikinn, en þó án þess að skapa sér færi. Það sem kom nálægt íslenska markinu hirti Sandra Sigurðardóttir auðveldlega upp. Það breyttist þó undir lok fyrri hálfleiks. Ungverjar áttu þá góða skyndisókn. Boltinn barst til Fanni Vágó. Hún kom boltanum í gegnum vörn Íslands og þar var Henrietta Csiszár mætt og setti boltann af öryggi í markið. Staðan orðin 1-1 og var það enn þegar flautað var til hálfleiks.

Stelpurnar byrjuðu síðari hálfleikinn af kraft eins og þann fyrri og eftir um fimm mínútur átti Glódís Perla Viggósdóttir frábæran skalla að marki en Réka Szocs varði frábærlega. Þremur mínútum síðar var komið að Söru Björk Gunnarsdóttur. Boltinn datt fyrir hana rétt fyrir utan teig en aftur var það Szocs sem varði í marki Ungverja. Stuttu síðar komst Dagný Brynjarsdóttir í gegn en Szocs varði aftur.

Ísland hélt áfram að þjarma að marki Ungverja og það bar árangur á 59. mínútu. Eftir gott spil barst boltinn til Hlínar og setti hún hann í hornið. Ísland komið aftur yfir og það verðskuldað. Í kjölfarið gerði liðið tvær breytingar. Svava Rós Guðmundsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir komu inn á, en útaf fóru Hlín Eiríksdóttir og Agla María Albertsdóttir.

Það tók stelpurnar aðeins um fimm mínútur að skora þriðja mark sitt. Svava Rós átti þá ágætis skot að marki sem Szocs varði, en Dagný var mætt fyrst á svæðið og setti boltann auðveldlega í markið. Staðan orðin 3-1 og Ísland með mikla yfirburði.

Ísland hélt áfram að setja mikla pressu á Ungverjaland og á 70. mínútu komst Fanndís í ágætis færi vinstra megin í teignum, en skot hennar var varið af Szocs. Tveimur mínútum seinna var Svava Rós nálægt því að skora, en skalli hennar fór rétt framhjá.

Á 73. mínútu kom Margrét Lára Viðarsdóttir inn á í stað Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

Leikurinn róaðist þónokkuð undir lokin, Ungverjar komust meira inn í hann en Ísland var þó áfram hættulegri aðilinn. Undir lok leiksins var Margrét Lára nálægt því að koma boltanum í markið en vörn Ungverja komst í veg fyrir boltann. Það var svo Elín Metta sem skoraði annað mark sitt og fjórða mark Íslands í uppbótartíma.

4-1 sigur staðreynd í fyrsta leik Íslands í undankeppni EM 2021. Stelpurnar mæta næst Slóvakíu á mánudaginn og hefst sá leikur kl. 18:45 og fer fram á Laugardalsvelli.