• fös. 06. sep. 2019
  • Landslið
  • U21 karla

U21 karla - 3-0 sigur gegn Lúxemborg

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

U21 ára landslið karla vann 3-0 sigur gegn Lúxemborg í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2021. Sveinn Aron Guðjohnsen, Jón Dagur Þorsteinsson og Willum Þór Willumsson skoruðu mörk Íslands.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og Willum Þór var nálægt því að skora fyrsta mark leiksins eftir aðeins fjórar mínútur, en skalli hans var frábærlega varinn. Fimm mínútum síðar átti Ari Leifsson skalla í slá eftir hornspyrnu og stuttu síðan átti Willum Þór skot rétt fyrir utan teig sem var varið.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þessa frábæru byrjun Íslands, en strákarnir voru þó betri aðilinn allan tímann en tókst ekki að opna vörn Lúxemborgar nægilega vel.

Á 35. mínútu var Jónatan Ingi Jónsson nálægt því að skora. Hann komst einn í gegn, en markvörður Lúxemborgar lokaði markinu vel. Fimm mínútum síðar átti Willum skalla rétt yfir eftir hornspyrnu Jóns Dags.

Staðan því markalaus þegar flautað var til leikhlés. 

Í hálfleik gerði Ísland eina skiptingu. Mikael Neville Anderson kom inn á fyrir Jónatan Inga Jónsson. Mikael var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn, en aðeins tveimur mínútum síðar var hann búinn að fiska vítaspyrnu. Sveinn Aron steig á punktinn og setti hann af öryggi í netið. Ísland komið yfir, 1-0.

Strákarnir héltu áfram að setja mikla pressu á vörn Lúxemborgar og á 58. mínútu skoraði Jón Dagur annað mark leiksins með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teig. Aðeins fimm mínútum síðar var komið að Willum Þór, en hann skoraði með laglegu skoti úr teignum. Staðan orðin 3-0.

Stuttu síðar gerði Ísland tvöfalda skiptingu. Brynjólfur Darri Willumsson og Guðmundur Andri Tryggvason komu inn á, en útaf fóru Sveinn Aron Guðjohnsen og Stefán Teitur Þórðarson.

Fátt markvert gerðist næstu mínúturnar, en Ísland gerði þó tvær skiptingar. Inn á komu þeir Alex Þór Hauksson, Kolbeinn Þórðarson, en útaf fóru Daníel Hafsteinsson og Jón Dagur Þorsteinsson.

Á 83. mínútu voru strákarnir grátlega nálægt því að skora fjórða mark leiksins. Fyrst átti Guðmundur Andri skot í slánna úr teignum, boltinn datt fyrir Kolbein Þórðarson stuttu síðar og skot hans fór í stöngina.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og góður 3-0 sigur staðreynd hjá strákunum.