• fim. 12. sep. 2019
  • Landslið
  • Fræðsla
  • Úrtaksæfingar

Þjálfum saman

Fyrir veturinn 2019-2020 setti KSÍ af stað ný verkefni - æfingar fyrir úrtakshópa hvers landshluta fyrir sig. Eitt af þessum verkefnum er Þjálfum saman, sem snýr að suð-vestur horni landsins, 3. flokki karla og kvenna, og miðar að auknu samstarfi við félögin á því landsvæði og þjálfara þeirra. 

Félögum á suð-vestur horninu var boðið að sækja um þátttöku í Þjálfum saman og var umsóknarfrestur til 10. september. Þjálfarar KSÍ hafa nú yfirfarið umsóknir og raðað æfingunum niður á félögin sem sóttu um. Innan skamms verður haft samband við þau félög sem sóttu um æfingar og þau látin vita hvaða æfingum þeim var úthlutað.

Markmiðið með þessum verkefnum er að koma bestu leikmönnunum á hverju landsvæði oftar saman og auka um leið samvinnu við félögin og þjálfara þeirra. Með því að þjálfa saman og ræða saman myndast gott tækifæri fyrir alla aðila til að læra hver af öðrum. Leikmenn njóta jafnframt góðs af þessum æfingum því þarna fá þeir tækifæri til að æfa með góðum leikmönnum á krefjandi æfingum.

Úrtaksæfingar fyrir aðra landshluta eru í fullum gangi og ganga vel.

Nánari upplýsingar um Þjálfum saman verkefnið og úrtaksæfingar veitir Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnusviðs (arnar.vidarsson@ksi.is).