• lau. 14. sep. 2019
  • Fundargerðir

2223. fundur stjórnar KSÍ - 5. september 2019

Mættir:  Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður (yfirgaf fundinn kl. 19:07 þegar dagskrárliður 10 var til umræðu), Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson. 
Mættir varamenn:  Þóroddur Hjaltalín, Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Jóhann K. Torfason.
Mættir landshlutafulltrúar:  Jakob Skúlason, Björn Friþjófsson, Bjarni Ólafur Birkisson og Tómas Þóroddsson.
Mættur formaður ÍTF:  Haraldur Haraldsson.
Mættur framkvæmdastjóri KSÍ:  Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.   
Gestir (dagskrárliður 1):  Fulltrúar Leikmannasamtaka Íslands; Arnar Sveinn Geirsson forseti og Kristinn Björgúlfsson framkvæmdastjóri.

Forföll:  Ragnhildur Skúladóttir stjórnarmaður 

Þetta var gert:  

  1. Fulltrúar leikmannasamtaka tóku sæti á fundi undir dagskrárlið 1 og kynntu starfsemi samtakanna.

    Fulltrúar Leikmannasamtakanna véku af fundi kl. 16:30.

  2. Fundargerð síðasta fundar
    • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt rafrænt.

  3. Fundargerðir nefnda/starfshópa lagðar fram til kynningar:
    • Fjárhags- og eftirlitsnefnd 8. ágúst 2019.
    • Mótanefnd 22. ágúst 2019.
    • Landsliðsnefnd U21 karla 4. september 2019.
    • Starfshópur um ferðakostnað 11. júní 2019.

  4. Lög og reglugerðir
    • Gísli Gíslason formaður laga- og leikreglnanefndar kynnti mögulega útfærslu á reglugerðarbreytingum vegna þingsályktunartillögu um hlutgengi leikmanna (tillaga samþykkt á síðasta ársþingi KSÍ).  Snúið er að finna fullnægjandi útfærslu sem kemur til móts við þingsályktunartillöguna og vinna þarf málið enn frekar.   
       
  5. Mótamál
    • Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar ræddi vítt og breitt um mótamál sambandsins: 
    • Breiðablik leikur í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna gegn Sparta Prag dagana 11. og 26. september.   Fyrri leikurinn er á Kópavogsvelli.
    • Úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna fór fram 14. ágúst með sigri Selfoss og Víkingur og FH leika til úrslita í Mjólkurbikar karla á Laugardalsvelli 14. sept. 
    • 8 liða úrslitum 4. deildar lauk í vikunni og 4. liða úrslit hefjast um helgina.
    • Mótanefnd hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að útfæra tillögu Gróttu frá síðasta ársþingi sem vísað var til stjórnar KSÍ.  Stefnt er að því að hægt verði að kynna útfærslur á formannafundi í lok nóvember.
    • Polla- og Hnátumótin (6. flokkur). Það er mat starfsmanna mótamála að þessi mót gangi illa og að áhugi félaga sé lítill fyrir þessu móti.  Þátttaka hefur minnkað verulega undanfarin ár. Lið mæta sum hver ekki til leiks, jafnvel ekki í úrslitakeppnina sjálfa.  Mótanefnd skoðar nú hvort ástæða sé til þess að leggja til við stjórn KSÍ að leggja mótið af.
    • U17 kvenna leikur í undankeppni EM dagana 15. – 21. september sem fer ofan í tvær síðustu umferðirnar í Pepsi Max deild kvenna og Inkasso-deild kvenna.

  6. Dómaramál
    • Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar ræddi um dómaramál sambandsins og hóf leikinn á að ræða um þann möguleika að nota VAR á Íslandi.  Málið er á frumstigi en huga þarf að tæknilegum lausnum.  Rætt um frammistöðu dómara og stuðning við minna reynda dómara á lokaspretti mótanna.  Dómaranefnd er að vinna úr þeim atriðum sem komu fram í skýrslum úr heimsóknum til aðildarfélaga.  Einnig rætt um mikilvægi þess að dómarar haldi áfram að dæma fyrir sín félög þó að þeir komi til starfa fyrir KSÍ.

  7. Landsliðsmál
    • U19 karla er við æfingar í þessari viku og fer síðan til Finnlands í æfingaferð í lok mánaðarins.  Framundan er undankeppni EM hjá bæði U17 karla og U19 karla.
    • U15 kvenna lauk keppni á æfingamóti í Víetnam fyrr í dag og bar sigur úr býtum.
    • Framundan er undankeppni EM hjá U17 kvenna og U19 kvenna. 
    • A landslið kvenna hóf undankeppni EM2021 vel og eru 2 sigrar í húsi.   
    • Framundan eru tveir leikir hjá A landsliði karla í undankeppni EM2020, sá fyrri heima gegn Moldóvíu og sá síðari gegn Albaníu ytra. 
    • Framundan eru tveir leikir hjá U21 karla í undankeppni EM, báðir á heimavelli. 

  8. Ferðakostnaður aðildarfélaga
    • Ingi Sigurðsson formaður starfshóps um ferðakostnað aðildarfélaga kynnti þá vinnu sem fram hefur farið á vettvangi starfshópsins.  Hópurinn hefur m.a. rætt um ferðasjóð íþróttafélaga, skosku leiðina og ferðaþátttökugjald KSÍ.  Stjórn mun vinna áfram með málið á milli funda og taka það aftur inn til frekari umfjöllunar í október.  Stjórn þakkaði starfshópnum fyrir góða vinnu í þessu sambandi. 

  9. Fjármál
    • Stjórn hefur móttekið erindi frá knattspyrnudeild Breiðabliks þar sem óskað er eftir fjárhagslegum stuðningi vegna þátttöku félagsins í Meistaradeild UEFA.  Stjórn samþykkti að styrkja Breiðablik um 1.500.000.- vegna þátttöku félagsins í keppninni.  Stjórn samþykkti ennfremur að beina þeirra áskorun til UEFA að styðja betur við Meistaradeild kvenna.
    • Stjórn samþykkti tillögu framkvæmdastjóra um styrkumsókn í Forward sjóð FIFA til dómaramála. 

  10. Rætt var um þau verkefni sem voru sett í ferli eftir heimsóknir til aðildarfélaga og komu fram í skýrslum
    • Alls hafa 45 heimsóknir til aðildarfélaga átt sér stað. Fyrsta heimsóknin var til Fylkis 7. júní 2018 og síðasti fundur var til Gróttu 18. júní 2019.  Gerð var samantekt eftir hverja heimsókn, allar ábendingar voru flokkaðar og deilt út til viðkomandi nefndar sem nú hafa farið í gegnum ábendingar.  Flokkarnir eru eftirfarandi og verið er að vinna í hverjum málaflokki fyrir sig:
      • Dómaramál
      • Ferðakostnaður
      • Fræðslu- og útbreiðslumál
      • Markaðsmál, leyfiskerfi ofl.
      • Mótamál
    • Stjórn samþykkti að koma lokaskýrslu á framfæri í tengslum við formanna- og framkvæmdastjórafund í nóvember.  Einnig var rætt um að halda deildafundi í tengslum við þann fund og hvort að hægt væri að nýta fjarfundabúnað.

  11. Grasrótarverkefni
    • Stjórn var sammála um að vel hafi til tekist með grasrótarverkefni sumarsins.  Rætt var um eftirfylgni og lagðar fram tillögur að næstu skrefum.

  12. Önnur mál
    • Árleg úttekt UEFA vegna leyfiskerfis KSÍ fór fram í lok ágúst og einnig ítarleg úrtaks útekt 26.-28. ágúst. 
    • Árleg endurskoðun FIFA vegna styrkjakerfis FIFA fór fram þann 26. agúst sl.  Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu FIFA eru hvorki athugasemdir né ábendingar um bókhald KSÍ en beðið er eftir endanlegri skýrslu FIFA. 
    • Lögð var fram fyrirspurn um stefnu KSÍ varðand aðgengi transbarna að knattspyrnu á Íslandi.  Framkvæmdastjóri gaf stjórn upplýsingar um þá vinnu sem er í gangi hjá ÍSÍ en von er á því að ÍSÍ kynni áfangaskýrslu um málið á fundi formanna og framkvæmdastjóra sem fram fer síðar í haust.  Í framhaldi af þeirri skýrslu mun KSÍ skoða málið betur.  Framkvæmdastjóra falið að svara erindinu. 
    • Farið yfir verðlaunaafhendingar um komandi helgi.
    • Stjórn samþykkti lista yfir heiðursviðurkenningar frá Knattspyrnudeild Þróttar.  Gísli Gíslason varaformaður mun afhenda viðurkenningarnar í afmælisveislu Þróttar.  Á milli funda hafa einnig verið veitt heiðursmerki í tilefni vígslu nýs vallar á Dalvík og í Grindavík.   
    • Ingi Sigurðsson minnti á samþykkt stjórnar um fund á Ísafirði.
    • Ingi Sigurðsson spurði um stöðuna á búningasamningi KSÍ.  Guðni Bergsson formaður sambandsins var til svara en málið er í farvegi.
    • Guðjón Bjarni Hálfdánarson spurði um vörumerkjamál KSÍ.  Guðni Bergsson formaður sambandsins var til svara en málið er í farvegi.
    • Þorsteinn Gunnarsson spurði um stöðuna á nýjum Þjóðarleikvangi.  Guðni Bergsson formaður sambandsins var til svara en málið er í farvegi og undirbúningsfélagið fundar vikulega.
    • Valgeir Sigurðsson spurði um framvindu mála gagnvart Reykjavíkurborg vegna samnings um Laugardalsvöll og viðhaldsverkefni.  Formaður og framkvæmdastjóri voru til svara en vonir eru bundnar við það að hreyfing verði á einhverjum viðhaldsmálum á næstu vikum.   
    • Haraldur Haraldssson upplýsti stjórn um að 26 umsóknir hafi borist ÍTF vegna stöðu  framkvæmdastjóra og fram hafa farið viðtöl við 6 aðila.  

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 20:00.