• fim. 26. sep. 2019
  • Agamál

Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 24. september leiðréttur

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar KSÍ frá 24. september hefur verið leiðréttur í samræmi við ákvæði 9.3. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Á aukafundi nefndarinnar í gær, var leikbann sem Brynjar Ásgeir Guðmundsson hafði verið úrskurðaður í deginum áður, dregið til baka. Ástæða þess er að leikmaðurinn hefur aðeins fengið þrjú gul spjöld á tímabilinu sem leikmaður FH. Brynjar hefur hins vegar fengið eitt gult spjald í starfi sínu sem þjálfari hjá ÍH í 4. deild karla. Ákvað aga- og úrskurðarnefnd því, í samræmi við grein 9.3. og 13.7. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál, að draga leikbannið til baka.

Ákvæði 9.3. er svohljóðandi:
Ef augljóst er, að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður varðandi agamál vegna villandi eða rangra upplýsinga í skýrslu dómara og/eða eftirlitsmanns eða rangrar/ófullnægjandi skráningar eða ef rangar upplýsingar hafa borist skrifstofu KSÍ, þá skal aga- og úrskurðarnefndin halda aukafund sbr. gr. 5.2. í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál, og leiðrétta úrskurð eða kveða upp nýjan. Sá úrskurður skal taka gildi á hádegi næsta dag eftir uppkvaðningu.

Ákvæði 13.7. er svohljóðandi:
Þjálfari eða forystumaður sem tekur út leikbann og mætir á leikstað skal vera meðal áhorfenda frá og með einni klukkustund fyrir leik og þar til dómarar hafa gengið til búningsklefa að leik loknum. Á því tímabili má viðkomandi ekki vera á leikvellinum, í búningsherbergjum eða annars staðar þar sem hann getur verið í tengslum við lið sitt. Ef leikmaður, sem jafnframt er þjálfari annars liðs, er úrskurðaður í leikbann, er honum heimilt að stjórna liði sínu á því tímabili, sem hann tekur út leikbann sem leikmaður.