• þri. 15. okt. 2019
  • Landslið
  • U21 karla

U21 karla - 1-0 sigur gegn Írlandi

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann 1-0 sigur gegn Írlandi í undankeppni EM 2021, en það var Sveinn Aron Guðjohnsen sem skoraði mark Íslands.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn, en bæði lið áttu sína kafla og héldu boltanum vel. Ísland átti þó ívið fleiri færi og það fyrsta kom á 16. mínútu þegar markvörður Íra varði skot Jóns Dags Þorsteinssonar frábærlega.

Fimm mínútum síðar áttu Írar skot yfir úr aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Íslands. Á 27. mínútu kom fyrsta mark leiksins, en þá fór skot Ara Leifssonar í hendi varnarmanns Íra og vítaspyrna var dæmd. Sveinn Aron steig á punktinn og skoraði af öryggi. 

Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta og náði hvorugt lið að skapa sér opin færi. Írar voru þó nálægt því að skora tvisvar undir lok fyrri hálfleiks. Fyrst varði Patrik Sigurður Gunnarsson skot þeirra, en í seinna skiptið áttu þeir skalla rétt yfir markið. Staðan því 1-0 fyrir Ísland þegar flautað var til hálfleiks.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn vel og sóttu að mark Írlands. Eftir um sjö mínútna leik átti Stefán Teitur Þórðarson skot að marki sem endaði í varnarmanni og fór framhjá.

Á 60. mínútu fengu Írar ágætis skotfæri hægra megin í teignum, en skot þeirra fór hátt yfir. Stuttu síðar fengu þeir annað færi í vítaeig Íslands, en skot þeirra fór í hliðarnetið. Tíu mínútum síðar átti Sveinn Aron skot yfir markið.

Á 77. mínútu komu þeir Valdimar Þór Ingimundarson og Daníel Hafsteinsson inn á fyrir Stefán Teit og Svein Aron. Á 80. mínútu kom svo Finnur Tómas Pálmason inn á fyrir Ísak Óla Ólafsson. Stuttu síðar átti Alex Þór Hauksson gott skot að mark Íra, en markvörður þeirra varði vel.

Bæði liðin voru nálægt því að komast í góð færi, en það tókst ekki og endaði því leikurinn með 1-0 sigri Íslands.