• sun. 17. nóv. 2019
  • A karla
  • Landslið

A karla - 2-1 sigur gegn Moldóvu

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann 2-1 sigur gegn Moldóvu í síðasta leik liðsins í undankeppni EM 2020. Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason skoruðu mörk Íslands.

Ísland var töluvert meira með boltann í fyrri hálfleiknum, en leikurinn var fremur rólegur til að byrja með. Fátt var um færi til að byrja með, en það var á 17. mínútu sem Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark leiksins eftir frábæra sókn Íslands.

Tíu mínútum síðar var Birkir nálægt því að skora sitt annað mark í leiknum, en skot hans fór í slánna. Á 29. mínútu þurfti Ísland að gera fyrstu skiptingu sína. Kolbeinn Sigþórsson fór þá útaf meiddur, en inn á kom Viðar Örn Kjartansson.

Strákarnir héldu áfram að vera meira með boltann og voru sterkari aðilinn. Á 36. mínútu tók Gylfi Þór Sigurðsson aukaspyrnu utan af kanti, Birkir kom fætinum í boltann og endaði hann í stönginni. Stuttu síðar átti Gylfi frábæra stungusendingu á Viðar Örn, en skot hans var varið.

Síðari hálfleikurinn byrjaði af krafti og bæði lið voru nálægt því að skapa sér góð færi. Eftir um sjö mínútna leik átti Jón Daði B0ðvarsson góðan sprett upp völlinn, komst inn í teiginn og lagði boltann til baka á Gylfa. Skot hans fór hins vegar af varnarmanni og yfir.

Á 54. mínútu þurfti Mikael Neville Anderson að fara útaf vegna meiðsla. Í hans stað kom inn á Samúel Kári Friðjónsson. Aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu Moldóvar, en þar var að verki Nicolae Milinceanu.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði síðan annað mark Íslands á 65. mínútu og Ísland aftur komið yfir, staðan orðin 2-1. Fimm mínútum síðar komst Vitalie Damascan einn í gegn, en skot hans fór í stöngina.

Ísland var sterkari aðilinn og þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var brotið á Arnóri Sigurðssyni í vítateign Moldóva og víti dæmt. Gylfi steig á punktinn, en skot hans var varið. Mínútu síðar átti hann skot fyrir utan teig sem fór rétt framhjá. Stuttu síðar var Gylfi aftur nálægt því að skora, en skot hans var vel varið af Koselev í mark Moldóva.

Á 87. mínútu kom Hörður Björgvin Magnússon inn á fyrir Birki Bjarnason. Lítið markvert gerðist til loka leiksins og 2-1 sigur Íslands staðreynd í síðasta leik undankeppni EM 2020.