• fim. 16. jan. 2020
  • Landslið
  • A karla

A karla - 1-0 sigur gegn Kanada

Ísland vann 1-0 sigur gegn Kanada í vináttuleik sem fór fram í Irvine í Bandaríkjunum, en það var Hólmar Örn Eyjólfsson sem skoraði mark Íslands.

Bæði lið fengu færi í fyrri hálfleik, en það var Hólmar Örn sem skoraði fyrsta og eina mark leiksins á 21. mínútu eftir hornspyrnu.

Höskuldur Gunnlaugsson var nálægt því að bæta við marki undir lok fyrri hálfleiks, en skot hans fór í utanverða stöngina og þaðan framhjá.

Kanada komst betur inn í leikinn í síðari hálfleik og áttu sín færi. Á sama tíma varðist Ísland vel og voru ávallt hættulegir í skyndisóknum. Kristján Flóki Finnbogason var ekki langt frá því að skora seint í síðari hálfleik, en skot hans var vel varið. 

Kanada sótti ívið meira undir lok leiks, en þeim tókst ekki að jafna leikinn og 1-0 sigur staðreynd.

Þess má geta að Daníel Leó Grétarsson, Höskuldur Gunnlaugsson, Stefán Teitur Þórðarson, Alfons Sampsted og Bjarni Mark Antonsson léku allir sinn fyrsta A landsleik.

Ísland mætir El Salvador í seinni vináttuleik ferðarinnar aðfararnótt mánudags, en leikurinn hefst á miðnætti og fer fram á Dignity Sports Health Park.