• lau. 25. jan. 2020
  • Landslið
  • U17 karla

Sigur gegn Úsbekistan hjá U17 karla

U17 landslið karla mætti Úsbekistan í dag, laugardag, í leik um 7.-8. sætið á æfingamóti UEFA (UEFA Development tournament) sem fram fer í Hvíta-Rússlandi. Ísland tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu og hafnaði í neðsta sæti síns riðils, þrátt fyrir sigur í lokaumferð riðlakeppninnar. 

Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og ógnaði marki Úsbekistan strax á fyrstu mínútum leiksins og svo hvað eftir annað út hálfleikinn, án þess þó að ná að skora. Úsbekar náðu í tvígang að skapa usla upp við mark Íslands. Markalaust í hálfleik.
Úsbekar byrjuðu vel eftir hlé og voru nálægt því að skora eftir þrjár mínútur.

Það var Ísland sem náði forystunni á 47. mínútu þegar Jakob Franz Pálsson skoraði með óvæntu og glæsilegu skoti vinstra megin í teignum. Úsbekistan jafnaði metin aðeins tveimur mínútum síðar. Íslenska vörnin skallaði þá hornspyrnu frá marki, en leikmaður Úsbekistan tók þar á móti boltanum og skoraði með góðu skoti frá vítateigslínu.

Hákon Arnar Haraldsson og Daniel Dejan Djuric komu inn á eftir klukkutíma leik og góður samleikur þeirra skapaði mark strax á 64. mínútu, þegar Kristian Nökkvi Hlynsson renndi boltanum í netið.

Liðin skiptust á að sækja það sem eftir lifði leiks, en íslenska liðið komst nær því að bæta við marki. Lokatölur 2-1 sigur fyrir Ísland, sem hafnaði í 7. sæti mótsins.

Leikskýrslan

Helstu atvik leiksins

Riðlakeppnin

Mynd með grein:  Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net