• mán. 27. jan. 2020
  • Landslið
  • A kvenna

A kvenna - Ísland tekur þátt í móti á Pinatar í mars

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

A landslið kvenna tekur þátt í móti á Pinatar í mars ásamt Skotlandi, Norður Írlandi og Úkraínu.

Undanfarin ár hefur liðið tekur þátt í Algarve Cup á sama tíma, en í ár er það mót minna í sniðum og fékk liðið því ekki sæti þar.

Ísland mætir Norður Írlandi 4. mars, Skotlandi 7. mars og Úkraínu 10. mars.

Mótið er liður í undirbúningi liðsins fyrir tvo mikilvæga leiki í undankeppni EM 2021 í apríl. Þá mætir Ísland Slóvakíu og Ungverjalandi, en báðir leikirnir fara fram ytra.

Innbyrðis viðureignir

Ísland hefur mætt Norður Írlandi fjórum sinnum og unnið alla leikina, markatalan í þeim leikjum er 7-0. Liðin mættust síðast árið 2012 í undankeppni EM 2013 og vann Ísland þann leik 2-0.

Ísland og Skotland hafa mæst 12 sinnum. Ísland hefur unnið sex leiki, tveir hafa endað með jafntefli og Skotar unnið 4. Markatalan í leikjunum er 26-17. Liðin mættust tvisvar árið 2019, fyrst vann Ísland 2-1 sigur á La Manga, en sá síðari fór fram á Algarve Cup og endaði með 4-1 sigri Skotlands.

Ísland hefur mætt Úkraínu sex sinnum, unnið þrjá, gert eitt jafntefli og Úkraína unnið tvo. Markatalan í leikjunum er 13-12. Síðast mættust liðin í umspili fyrir EM 2013. Ísland vann báða leikina 3-2 og tryggði sér með því sæti á EM 2013.