• lau. 22. feb. 2020
  • Ársþing

Ungmennafélag Langnesinga hlýtur Grasrótarverðlaun KSÍ

Í grasrótarheimsóknum KSÍ síðasta sumar til 33 staða á landsbyggðinni sem Siguróli Kristjánsson sá um, vakti sérstaka athygli krafturinn og knattspyrnuáhuginn á Þórshöfn hjá Ungmennafélagi Langnesinga.

Þrátt fyrir fámennið, þar sem um 70 börn eru á grunnskólaaldri, er haldið úti knattspyrnuæfingum allt árið fyrir börnin þar sem þátttaka er góð.

Ungmennafélag Langnesinga, sem er aðildarfélag innan KSÍ, sendir lið til þátttöku á opnum mótum undir eigin nafni, eða í samstarfi við Einherja, víða um land þar sem öflugt foreldra- og sjálfboðaliðastarf er lykillinn að öflugu knattspyrnu- og forvarnarstarfi.

Ungmennafélag Langnesinga er dæmi um lítið félag þar sem áhugasamir og öflugir foreldrar eru drifkrafturinn í starfinu og hvatning fyrir aðra í sambærilegum sveitarfélögum. Knattspyrnan þarf á sjálfboðaliðum að halda í öllum byggðum landsins til þess að byggja upp öflugt knattspyrnustarf til lengri tíma.