• þri. 10. mar. 2020
  • Stjórn
  • Fundargerðir

2229. fundur stjórnar - 21. febrúar

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættir varamenn í stjórn: Þóroddur Hjaltalín, Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Jóhann K. Torfason.

Mættir fulltrúar landshluta: Björn Friðþjófsson (Norðurland), Tómas Þóroddsson (Suðurland), Jakob Skúlason (Vesturland) og Bjarni Ólafur Birkisson (Austurland)

Mættur framkvæmdastjóri KSÍ: Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

1. Fundargerð síðasta fundar
- Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2. Fundargerðir nefnda/starfshópa voru lagðar fram til kynningar:
 - Mannvirkjanefnd 7. febrúar. Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar fylgdi fundargerðinni úr hlaði og ræddi sérstaklega um nýja reglugerð um mannvirkjasjóð. Reglugerðin er tilbúin til kynningar en bíður eftir því að framkvæmdastjóri fundi með UEFA um framlag UEFA í sjóðinn.
 - Mótanefnd 17. febrúar. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fylgdi fundargerðinni úr hlaði og fór yfir það sem er efst á baugi í mótamálum. Miðað við þátttöku í mótum er iðkendum að fjölga, en fleiri lið eru nú skráð í mót en áður. Drög að niðurröðun yngri flokka verður birt 1. mars. Þá upplýsti Valgeir stjórn um að þar sem reglugerðir kveða á um að mótanefnd ákveði fyrirkomulag úrslitakeppna yngri flokka þá hefur nefndin tekið ákvörðun um að einfalda þær frá því sem verið hefur.

3. Reglugerðir
 - Dagskrárliðnum var frestað.

4. Ársþing
  a. Dagskrá fyrir málþing 21. febrúar í Ólafsvík var lögð fram.
  b. Rætt var um framkomnar tillögur.
  c. Borghildur Sigurðardóttir formaður fjárhags- og eftirlitsnefndar kynnti ársreikningi 2019. Stjórn var sammála um að nefndir styðji betur við fjárhagsáætlunargerð og stefnan væri sett á sjálfbærni sambandsins.
  d. Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti fjárhagsáætlun 2020. Stjórn samþykkti tillögu fjárhags-og eftirlitsnefndar að skrifstofa KSÍ hætti að taka við reiðufé til að auka rekjanleika og gegnsæi í bókhaldi/fjármálum.

5. Undirbúningur landsleiks Íslands og Rúmeníu 26. mars 2020
 - Framkvæmdastjóri kynnti úttektarskýrslu STRI um stöðuna á Laugardalsvelli. Niðurstaða skýrslurnar er jákvæð hvað varðar þá vinnu og undirbúning sem þegar hefur verið lagt í.

6. Leyfismál
 - Öll 24 félögin sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ fyrir keppnistímabilið 2020, þ.e. félögin í Pepsi Max deild karla og 1. deild karla, hafa skilað leyfisgögnum. Leyfisstjórn hefur þegar farið yfir gögnin og gert athugasemdir þar sem við á.

7. Mótamál
 - Dagskrárliður var afgreiddur undir dagskrárlið 2.

8. Dómaramál
 - Þóroddur Hjaltalín formaður dómaranefndar kynnti stuttlega fyrir stjórn það sem er efst á baugi í dómaramálum sambandsins.

9. Önnur mál
 - Fulltrúar landshluta kynntu málefni sinna landshluta. Í samhengi var til dæmis rætt um erfiðleika í rekstri félaga, ferðakostnað, mikilvægi aðkomu sveitarfélaga, erfitt tíðarfar og nýja knattspyrnuhöll á Selfossi.
- Stjórn samþykkti svohljóðandi tillögu starfshóps um eigið fé:
Miðað við afkomu KSÍ á árinu 2019 og áætlaða niðurstöðu fjárhagsáætlunar árið 2020 er ekki skynsamlegt að lækka eigið fé með ofangreindum hætti. Því er ráðlegt að ákvörðun um ofangreint verði ekki tekin fyrr en jafnvægi er komið á rekstrarafkomu KSÍ og að hún sé þá jákvæð.


Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 16:00.