• þri. 07. apr. 2020
  • Stjórn
  • Fundargerðir

2232. fundur stjórnar - 2. apríl 2020

2232. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 2. apríl 2020 á skrifstofu KSÍ á Laugardalsvelli og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði.

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættir varamenn í stjórn: Guðjón Bjarni Hálfdánarson og Þóroddur Hjaltalín.

Mættir fulltrúar landshluta: Björn Friðþjófsson (Norðurland), Jakob Skúlason (Vesturland), Bjarni Ólafur Birkisson (Austurland).

Mættur framkvæmdastjóri KSÍ: Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert:

1. Fundargerð síðasta fundar

- Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

- Á milli funda samþykkti stjórn samhljóða á rafrænan hátt að greiða félögum í Pepsi-Max deild karla fyrirfram samningsgreiðslu vegna sjónvarpssamninga. Samkvæmt samningi er gjalddagi þessarar greiðslu 1. júní en verður nú greiddur 1. apríl.

2. Fundargerðir nefnda/starfshópa voru lagðar fram til kynningar:

- Mótanefnd 1. apríl 2020

- Fjárhagsnefnd 27. mars 2020

- Fjarhagsnefnd 2. apríl 2020. Borghildur Sigurðardóttir formaður nefndarinnar fylgdi fundargerðum nefndarinnar úr hlaði. Til umfjöllunar voru eftirfarandi þættir:

✓ Fjárhagsáætlun KSÍ 2020: Nauðsynlegt er að endurskoða fjárhagsáætlun aftur, meðal annars vegna þeirra upplýsinga sem bárust frá UEFA í gær um mót yngri landsliða.

✓ Ferðaþátttökugjald: Rætt um gjalddaga ferðaþátttökugjalds sem samkvæmt reglugerð er 15. maí. Þá var rætt um ákvæði um dagsektir í sömu reglugerð. Nefndin leggur til að gjalddaga verði frestað um óákveðinn tíma og verði ekki ákveðinn fyrr en staða mála verður skýrari. Rætt um greiðslur úr sjóðnum, en ákvörðun um breytingar bíður og verður tengd innheimtudegi. Rætt um að útborgun verði ein í stað tveggja þetta árið. Stjórn samþykkti tillögu nefndarinnar.

✓ Þátttökugjöld: Skoðað þegar betri heildarmynd liggur fyrir.

✓ Barna- og unglingastyrkur: Skoðað þegar betri heildarmynd liggur fyrir.

✓ Ríkisstyrkur: Rætt um ríkisstyrk og skiptingu hans milli íþrótta- og menningarmála.

✓ Sértæk úrræði frá FIFA. Framkvæmdastjóri hefur leitað upplýsinga um svokallaða FIFA Marshall aðstoð sem nefnd hefur verið í fjölmiðlum. Samkvæmt svörum FIFA hefur ekkert verið ákveðið ennþá um styrki til aðildarsambanda/félaga.

✓ Rætt um styrki frá UEFA. Ef leikjum í Meistaradeild UEFA/Evrópudeild UEFA fækkar eða þeir falla niður gæti komið til skerðingar á greiðslum UEFA til félaga í efstu deild karla vegna barna- og unglingastarfs.

✓ Laugardalsvöllur: Illa gengur að fá svör frá Reykjavíkurborg varðandi upptöku rekstrarsamnings Laugardalsvallar og styrk vegna umspilsaðgerðar. Formaður KSÍ hefur gengið á eftir svörum en án árangurs.

✓ Rætt um starfsmannahald skrifstofu KSÍ. Rætt um þau úrræði sem eru til staðar og verkefnastöðu. Formanni og framkvæmdastjóra var falið að vinna málið áfram.

✓ Haraldur Haraldsson ræddi um möguleikann á fyrirframgreiðslu/lánalínu til félaga í 1. deild. Rætt um heildstæðar lausnir og misjafna stöðu félaganna.

✓ Rætt um leyfiskerfið. Öllum félögum í leyfiskerfinu bar að birta ársreikninga sína fyrir 1. apríl sl. skv. grein 52.6. í leyfisreglugerð KSÍ. Borist hafa tilkynningar frá félögum um meiriháttar fjárhagslega atburði sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu m.t.t til leyfiskerfisins til loka leyfistímabils vegna Covid-19. Félög sem heyra undir leyfiskerfi KSÍ þurfa að tilkynna um slíkt með vísan til 69. greinar leyfisreglugerðar KSÍ.

3. Covid-19

- Rætt um tilmæli yfirvalda um æfingabann. Engar forsendur eru til breytinga á afstöðu KSÍ. Dæmi eru um að félögum gangi illa að hindra leik barna og fullorðinna á völlum sínum.

- Rætt um fjármál félaganna. Guðni Bergsson formaður KSÍ upplýsti stjórn um hvað hefur verið gert síðan á síðasta fundi.

- Guðni Bergsson formaður hefur boðað fund með félögunum í Pepsi Max deild karla um stöðuna. Rætt um að boða aðrar deildir í framhaldinu um stöðuna eins og kostur er.

- Í framhaldi af umræðum um fjármál samþykkti stjórn KSÍ eftirfarandi bókun:

Formaður KSÍ fór yfir þau úrræði sem Alþingi hefur samþykkt og geta nýst íþróttahreyfingunni. Stjórnin leggur áherslu á eftirfarandi:

1. Mikilvægt er að úrræði varðandi skert hlutfall starfa nýtist iðkendum og starfsfólki félaga.

2. Knattspyrnuhreyfingin leggur áherslu á að tillaga skattahóps ríkisins, þar sem fjallað er um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna mannvirkjaframkvæmda og skattafrádrátt stuðningsfólks hreyfingarinnar, verði gerðar að varanlegum úrræðum.

3. Mikilvægt er að tekið verði fullt tillit til íþróttahreyfingarinnar við úthlutun fjármuna sem ætlað er að mæta þeim áföllum sem dynja nú á hreyfingunni. Hafa verður í huga mikilvægi unglingastarfs félaganna og vinnu þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem leggja hreyfingunni lið. Fjárhagslega sterk íþróttahreyfing er traustur vettvangur til öflugrar viðspyrnu og því er það góð ráðstöfun fjármuna að mæta vanda íþróttafélaganna með öflugu framlagi.

4. Stjórn KSÍ skorar á sveitarfélögin í landinu að grípa til öflugra aðgerða og undirbúa nú þegar og styðja íþróttafélögin í að koma starfi sínu af stað á ný þegar það verður mögulegt.

Stjórn KSÍ færir stjórnum knattspyrnufélaganna þakkir fyrir snör viðbrögð á erfiðum tímum og hvetur þær áfram til dáða þannig að knattspyrnan á Íslandi komi sterkari en fyrr til leiks þegar óvissutímar eru að baki.

---

- Rætt um mótamál. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fór yfir stöðuna. Forsendur hafa skýrst að einhverju leyti frá síðasta stjórnarfundi. Rætt um það hvenær mótin geti hafist. Fulltrúar mótanefndar funda með fulltrúum ÍTF á morgun. Rætt um áhrif á áhorfendur og mögulegar fjöldatakmarkanir á leikjum. Verið að þétta planið, fleiri leikir á styttra tímabili sem getur til dæmis valdið vandræðum með dómgæslu. Skoða þarf fljótlega mögulegar breytingar á félagaskiptagluggum.

4. Önnur mál

- Valgeir Sigurðsson ræddi um skipulag og uppbyggingu ungmenna- og íþróttastarfs og lagði fram minnisblað þar að lútandi.

Næsti stjórnarfundur verður miðvikudaginn 8. apríl kl. 16:00.

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 17:40.