• þri. 14. apr. 2020
  • Fundargerðir

2233. fundur stjórnar KSÍ - 8. apríl 2020

2233. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn miðvikudaginn 8. apríl 2020 á skrifstofu KSÍ á Laugardalsvelli og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði.

Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Mættur varamaður í stjórn: Guðjón Bjarni Hálfdánarson.
Mættir fulltrúi landshluta: Björn Friðþjófsson (Norðurland) og Bjarni Ólafur Birkisson (Austurland).
Mættur framkvæmdastjóri KSÍ: Klara Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.


Þetta var gert: 

  1. Fundargerð síðasta fundar
    • Fundargerð síðasta fundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

  2. Fundargerðir nefnda/starfshópa voru lagðar fram til kynningar
    • Mótanefnd 7. apríl 2020. Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fylgdi fundargerðinni úr hlaði og fór yfir stöðuna varðandi mótamál.
      • Mótanefnd veitti umsögn um tillögu knattspyrnusviðs um breytingum á reglugerðum sem tengjast keppni í 5. flokki, þ.e. leiktíma og leikreglum. Nefndin gerir ekki athugasemdir við tillöguna. Stjórn frestaði afgreiðslu málsins til næsta fundar og ætlar að rýna það betur á milli funda. Stjórn óskar eftir því að hafin verði undirbúningur að að nauðsynlegum reglugerðarbreytingum þannig að hægt sé að ljúka málinu í næstu viku verði það niðurstaðan.
      • Fulltrúar mótanefndar hafa fundað með ÍTF um mótamál. Í næstu viku er fundur með fulltrúa yfirvalda og vonir standa til að línur skýrist eitthvað frekar. Framundan er líklega mót sem verða ekki sambærileg við það sem við eigum að venjast. Rætt um opin mót félaga en fyrirsjáanlegt tap félaganna er mikið.

  3. Covid-19 / fjármál
    • Guðni Bergsson formaður fór yfir umræðu um sértæk úrræði fyrir íþróttahreyfinguna. Guðni ræddi einnig um styrki ríkisins til lista/íþróttamála. Vonandi fréttir af þessum þáttum strax eftir páska.
    • Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti endurskoðaða rekstaráætlun sambandsins 2020. Búið er að taka tillit til þeirra verkefna yngri landsliða sem falla niður og bæta frekari varúð á tekjuhliðana. Þó er ennþá óvissa er um tekjuhliðina, m.a. hvað varðar landsleiki. Lögð er áhersla á að ná hagræðingu í rekstri á öllum sviðum, m.a. í skrifstofu-og stjórnunarkostnaði og kostnaði við landslið.
    • Borghildur Sigurðardóttir formaður fjárhags-og endurskoðunarnefndar kynnti eftirfarandi tillögu:
      • Fjárhagsnefnd og formaður KSÍ leggja til við stjórn sambandsins að greiðsludegi á 75% barna og unglingastyrks til handa félögum i neðri deildum sambandsins verði flýtt til 17. apríl. Erum við vel meðvituð um þann fjárhagsvanda sem félög sambandsins eru að glíma við vegna áhrifa Covid 19 og er tillagan lögð fram til að styðja félögin við að standa við skuldbindingar sínar gagnvart þjálfurum í unglingastarfi sínu en nú þegar er farið að bera á erfiðari innheimtu æfingagjalda vegna ástandsins i samfélaginu. Um er að ræða tæpar 46 milljónir króna.
    • Þessi aðgerð er eitt skref í aðstoð við félögin á erfiðum tímum og miðað er við sömu forsendur og í síðustu úthlutun, þ.e. um er að ræða styrk til barna-og unglingastarfs. Í framhaldinu verða aðrir þættir skoðaðir eins og fram hefur komið til dæmis ferðaþátttökugjald og þáttökugjöld. Stjórn samþykkti tillöguna og fól skrifstofu sambandsins að hrinda henni í framkvæmd.

  4. Önnur mál
    • Guðni Bergsson formaður greindi frá fundum sem fram hafa farið undanfarna daga með félögum í deildakeppnum. Gagnlegir fundir og mikilvægir. Stjórn leggur áherslu á að viðhalda góðu upplýsingastreymi.
    • Þorsteinn Gunnarsson spurði um aðkomu sveitarfélaga. KSÍ fylgist vel með þeim þætti.

Næsti stjórnarfundur verður fimmtudaginn 16. apríl kl. 16:00.
Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 17:45.