• mán. 07. sep. 2020
  • Fundargerðir
  • Stjórn

2241. fundur stjórnar KSÍ - 3. september 2020

2241. fundur stjórnar Knattspyrnusambands Íslands var haldinn fimmtudaginn 3. september 2020 á skrifstofu KSÍ á Laugardalsvelli og hófst kl. 16:00. Fundurinn fór fram með fjarfundabúnaði.


Mættir: Guðni Bergsson formaður, Gísli Gíslason varaformaður (yfirgaf fundinn kl. 17:45), Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Ásgeir Ásgeirsson, Haraldur Haraldsson, Ingi Sigurðsson, Magnús Gylfason, Ragnhildur Skúladóttir, Valgeir Sigurðsson og Þorsteinn Gunnarsson.

Mættur varamaður: Guðjón Bjarni Hálfdánarson.

Mættir fulltrúar landshluta: Tómas Þóroddsson, Jakob Skúlason, Björn Friðþjófsson og Bjarni Ólafur Birkisson.

Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.

Forföll: Þóroddur Hjaltalín varamaður í stjórn og Jóhann K. Torfason varamaður í stjórn.


Þetta var gert:

Stjórn KSÍ óskar Söru Björk Gunnarsdóttur landsliðsfyrirliða innilega til hamingju með frábæran árangur í Meistaradeild UEFA.

1. Fundargerð síðasta stjórnarfundar var þegar samþykkt á rafrænan hátt á milli funda af öllum stjórnarmönnum sambandsins.

2. Fundargerðir nefnda og starfshópa voru lagðar fram til kynningar.

  • 2.1 Unglinganefnd kvenna 11. ágúst 2020
  • 2.2 Landsliðsnefnd U21 karla 20. júlí 2020
  • 2.3 Dómaranefnd 8. júní 2020
  • 2.4 Dómaranefnd 7. júlí 2020
  • 2.5 Fjárhagsnefnd 3. september 2020

3. Covid-19

  • 3.1 Guðni Bergsson formaður fór yfir aðkomu sambandsins að málum varðandi áhorfendabann. Rétt fyrir stjórnafund bárust fréttir um að mögulega verði frekari tilslakanir í næstu viku.

4. Fjármál

  • 4.1 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti 6 mánaða uppgjör sambandsins og endurskoðaða rekstraráætlun fyrir seinni hluta ársins.
  • 4.2 Guðni Bergsson formaður ræddi um fjármál félaganna og skert tekjuflæði þeirra vegna áhorfendabanns. ÍTF hefur óskað eftir því að KSÍ skoði hvort sambandið geti stutt enn frekar við félögin með frekari styrkjum og þegar hafa farið fram tveir fundir um málið með ÍTF. Guðni og Borghildur halda áfram að vinna málið í samvinnu við aðila frá ÍTF. Fjárhags- og eftirlitsnefnd KSÍ hefur einnig fjallað um málið.
  • 4.3 Stjórn samþykkti tillögu Guðna Bergssonar formanns og Borghildar Sigurðardóttur formanns fjárhags- og eftirlitsnefndar um að greiða félögum í Pepsi Max deild karla fyrirfram (ef þau kjósa svo) síðustu sjónvarpsréttargreiðslu ársins (4 milljónir króna á hvert félag) vegna skerts tekjuflæðis þeirra vegna áhorfendabanns.
  • 4.4 Stjórn samþykkti ennfremur að fresta frekari ákvörðunartöku varðandi framlag til aðildarfélaga þar til skýrari mynd liggur fyrir varðandi fjárhagsstöðu KSÍ. Haldið verður áfram samræðum við ÍTF um næstu skref.
  • 4.5 ÍSÍ greiddi 150 mkr í dag til íþróttahreyfingarinnar. Þessi greiðsla var til að mæta áhrifum vegna samkomubanns á vormánuðum þ.e. frá 1. mars til 1. júní 2020. Meta þarf hvað knattspyrnuhreyfingin er að tapa miklu á þessu tímabili og tímabilinu eftir að umsóknarfrestur í ÍSÍ-sjóðinn rann út.

5. Mótamál

  • 5.1 Valgeir Sigurðsson formaður mótanefndar fór yfir mótamál sambandsins. Endurröðun hefur gengið vel og hafa félögin sýnt skilning á þeirri erfiðu stöðu sem uppi er í mótamálum. Starfsmenn mótamála og mótanefnd hafa staðið vaktina og haft í nógu að snúast.
  • 5.2 Úrslitakeppnir yngri flokka eru komnar í gang. Úrslitakeppnum hefur fækkað á liðnum árum. Mótanefnd telur þá þróun vera af hinu góða.
  • 5.3 Í deildarkeppnum meistaraflokka er staða deildanna í samræmi við væntingar en þó má ekkert út af bregða í Pepsi Max deild kvenna, Peps Max deild karla og Lengjudeild karla svo núverandi áætlanir gangi upp. Komi til frestanir leikja af einhverjum ástæðum í þessum deildum gæti það haft veruleg áhrif á framgang mótanna.
  • 5.4 Rætt um undanúrslitaleiki í Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Mótanefnd hefur fundað með ÍTF um málið. Mótanefnd telur nauðsynlegt að leika undanúrslitin á hlutlausum völlum þar sem eru flóðljós, að öðrum kosti getur þurft að leika um hádegisbil á virkum degi. Mótanefnd leggur til að stjórn samþykki bráðabirgðaákvæði í reglugerð sem heimilar þessar breytingu. Stjórn samþykkti tillöguna og vísaði henni til laga- og leikreglnanefnd til úrvinnslu.

6. Mannvirkjamál

  • 6.1 Ingi Sigurðsson formaður mannvirkjanefndar ræddi um mögulegt bann við notkun plastagna í gervigrasvöllum. ECHA (stofnun á vegum Evrópusambandsins) hefur haft til skoðunar frá árinu 2019 mögulegt bann við notkun núverandi innfylliefna frá og með árinu 2028 vegna mögulegra umhverfisáhrifa. UEFA, í umboði aðildarsambanda sinna, hefur verið að safna saman gögnum um notkun gervigrasvalla með innfylliefnum og hefur í samantekt sinni til ECHA lagt áherslu á að frekari gögn vantar um umhverfisáhrif og að finna þurfi aðrar lausnir í stað núverandi innfylliefna. Um er að ræða mikilvægt mál fyrir knattspyrnu á norðlægum slóðum og hafa knattspyrnusamböndin á Norðurlöndum sammælst um að vinna saman að málinu. Í kjölfar upplýsinga sem samböndin sendu til UEFA hafa knattspyrnusambönd Norðurlanda sent sameiginlegt bréf til ECHA til að styðja við og leggja enn frekar þunga í þá stöðu sem er uppi á Norðurlöndum með tilkomu gervigrasvalla og hvaða afleiðingar slíkt bann myndi hafa á knattspyrnuiðkun á Norðurlöndum.
  • 6.2 Stjórn staðfesti áður samþykkta greiðslu til Vals, kr. 300.000.- vegna framkvæmda 2019.

7. Landsliðsmál

  • 7.1 Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri kynnti „UEFA Return to Play Protocol“. Mikil vinna hefur verið innt að hendi í undirbúningi fyrir komandi verkefni og þakkaði stjórn starfsmönnum sambandsins fyrir mikla og góða vinnu.
  • 7.2 U21 karla leikur gegn Svíum í undankeppni EM 4. september 2020.
  • 7.3 A karla leikur gegn Englandi í Þjóðadeildinni 5. september 2020.
  • 7.4 A kvenna leikur tvo heimaleiki í september á heimavelli. Sá fyrr er gegn Lettlandi 17. september en sá síðari 22. september gegn Svíþjóð.
  • 7.5 Öðrum landsleikjum ársins, fyrir utan milliriðla EM U19 hefur verið frestað eða þeir felldir niður.

8. Sameiginleg umsókn Norðurlandanna um HM kvenna 2027

  • 8.1 Formaður KSÍ, Guðni Bergsson, lagði fram tillögu um stofnun starfshóps sem vinnur að umsókn Norðurlandanna fyrir HM 2027. Samþykkt að skipa Gísla Gíslason formann, Borghildi Sigurðardóttur, Þorstein Gunnarsson og Stefán Svein Gunnarsson í hópinn.

9. Önnur mál

  • 9.1 Þorsteinn Gunnarsson formaður starfshóps um útbreiðslumál gaf skýrslu um Molaverkefnið 2020 sem er nýlokið. Verkefnið gekk mjög vel, en Moli heimsótti um 30 staði og hitti 500-700 áhugasöm börn.
  • 9.2 Guðni Bergsson formaður fór yfir stöðuna varðandi nýjan þjóðarleikvang. Von er á skýrslu um sviðsmyndir á næstunni.
  • 9.3 Stjórn KSÍ óskar ÍR og Reykjavíkurborg til hamingju með nýtt knatthús sem verður vígt á morgun.

Fleira var ekki á dagskrá og var fundi slitið kl. 18:10.