• fim. 17. sep. 2020
  • Landslið
  • A kvenna

Öruggur níu marka sigur gegn Lettlandi

A landslið kvenna mætti Lettlandi í undankeppni EM 2022 á Laugardalsvelli í kvöld, fimmtudagskvöld, og vann öruggan níu marka sigur. 

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir einungis 30 sekúndur var fyrsta markið komið, en þar var Elín Metta Jensen að verki, í sínum 50. A-landsleik.  Sveindís Jane Jónsdóttir jók forystuna á 8. mínútu með sínu fyrsta A-landsliðsmarki í sínum fyrsta A-landsleik. Dagný Brynjarsdóttir bætti við tveimur mörkum á 19. og 22. mínútu og fimmta markið kom á 32. mínútu þegar Sveindís Jane gerði sitt annað mark.  Dagný Brynjarsdóttir fullkomnaði svo þrennu sína í fyrri hálfleik með sjötta marki Íslands á 40. mínútu.  Ótrúlegar tölur og frábær frammistaða í fyrri hálfleik.

Þrjú mörk bættust við í seinni hálfleik, fyrst á 71. mínútu þegar leikmaður Letta varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.  Seinustu tvö mörkin komu svo seint í leiknum, Alexandra Jóhannsdóttir skoraði á 87. mínútu og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir innsiglaði 9-0 sigur þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.  Frábær úrslit og verðskuldaður stórsigur íslenska liðsins, sem hafði mikla yfirburði allan leikinn, eins og lokatölurnar gefa til kynna.

Næsti leikur íslenska liðsins er heimaleikur gegn Svíum næstkomandi þriðjudag, sem unnu fyrr í dag 8-0 sigur á Ungverjum á Gamla Ullevi leikvanginum í Gautaborg.  Sænska liðið leiddi með einu marki eftir fyrri hálfleikinn, en rétt fyrir hlé fékk Barbara Biro í ungverska liðinu að líta rauða spjaldið og Svíarnir gengu á lagið í seinni hálfleik. Ísland og Svíþjóð eru jöfn að stigum í riðlinum, bæði lið með fullt hús stiga eftir fjóra leiki, en Svíar eru í toppsætinu með betri markatölu.

Skoða leikina og stöðuna í riðlinum