• þri. 20. okt. 2020
  • COVID-19
  • Mótamál
  • Stjórn

Keppni haldið áfram í deildakeppni meistaraflokka

Stjórn KSÍ fundaði í gær og í dag, þriðjudaginn 20. október, um stöðu Íslandsmóta í knattspyrnu og bikarkeppni karla og kvenna vegna takmarkana og banns við æfingum og keppni samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar heilbrigðisráðuneytis. Á fundinum var eftirfarandi ákveðið: 

  • Að mótum meistaraflokka verði haldið áfram í öllum deildum að því tilskyldu að takmarkanir á æfingum og keppni verði afnumdar eigi síðar en 3. nóvember.
  • Að keppni skuli hætt í öllum yngri flokkum og í eldri flokkum (40+ og 50+).

Niðurröðun leikja með nýjum leikdögum verður gefin út á miðvikudag.

Stjórn KSÍ hefur áður ályktað um að leita verði allra leiða til að ljúka mótum í meistaraflokki samkvæmt mótaskrá auk þess sem stjórn ÍTF hefur ályktað á sama veg. Þó er ljóst að þau áform eru háð óvissu og í þeirri von að úr því ástandi rætist sem nú blasir við. Með hliðsjón af því og þróun mála næstu daga mun stjórn KSÍ taka ákvörðun um Mjólkurbikarkeppni karla og kvenna.

Standi reglur yfirvalda ekki í vegi fyrir því að unnt verði að hefja keppni að nýju í byrjun nóvember munu KSÍ og aðildarfélögin vinna samkvæmt öllum reglum sem settar verða af heilbrigðisyfirvöldum og kappkosta um að fylgja áfram ítrustu sóttvarnarúrræðum.

Frá stjórn KSÍ:

Það er ljóst að ákvörðunin um að halda áfram keppni er tekin á erfiðum tímum í samfélaginu. Keppnistímabilið hefur reynt á aðildarfélögin og iðkendur okkar sem og sjálfboðaliða. Á sama tíma höfum við staðið undir þeim áskorunum sem við höfum þurft að takast á við saman og notið fótboltans á þessum erfiðu tímum. Það er í þeim anda sem að við teljum mikilvægt að við klárum tímabilið í öllum deildum þar sem skýr niðurstaða liggur ekki fyrir í deildakeppninni.

Það reynir á okkur í knattspyrnuhreyfingunni eins og samfélagið allt en við vonumst til þess að í góðu samráði og samkvæmt reglum heilbrigðisyfirvalda takist að finna leiðir til þess að ljúka deildarkeppninni fyrir 1. desember. Við stöndum saman þegar á reynir og látum úrslitin ráðast á vellinum ef mögulegt er.