• mið. 21. okt. 2020
  • Evrópuleikir
  • Mótamál

Dregið í Meistaradeild kvenna á fimmtudag

Íslandsmeistarar Vals verða í pottinum á fimmtudag þegar dregið verður í 1. umferð forkeppni Meistaradeildar kvenna í höfuðstöðvum UEFA í Sviss.  Drátturinn verður í beinni vefútsendingu á uefa.com og hefst kl. 10:00 að íslenskum tíma.

Í september tilkynnti UEFA um breytingar á keppnisfyrirkomulagi í forkeppni Meistaradeildarinnar þannig að í stað hefðbundinnar forkeppni (hraðmóts/riðlakeppni) verða leiknar tvær umferðir af útsláttarkeppni (einn leikur í umferð, ekki heima og heiman). 40 lið taka þátt í 1. umferð forkeppninnar sem fram fer dagana 3. eða 4. nóvember og liðin 20 sem vinna sína leiki komast áfram í 2. umferð, sem leikin verður 18. eða 19. nóvember. 32-liða úrslitin fara svo fram í desember, en þá er leikið heima og heiman - 8. eða 9. desember og 15. eða 16. desember. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á öðrum umferðum í keppninni.