• fim. 12. nóv. 2020
  • COVID-19

ÍSÍ - Staða mála vegna Covid-19

ÍSÍ hefur tekið saman stöðu mála og ýmsar upplýsingar varðandi Covid-19 faraldurinn í bréfi sem sent hefur verið á íþróttahreyfinguna, til að gefa innsýn í starfið og verkefnin.  Upplýsingar úr bréfinu má sjá hér að neðan.  

Frá ÍSÍ:

Stuðningur ríkisins við íþróttahreyfinguna

Eins og tilkynnt var 31. október sl. þá er í undirbúningi umfangsmikill stuðningur ríkisins við íþróttahreyfingunna í landinu. Tíðindin voru afar gleðileg og voru afrakstur viðamikilla viðræðna og samskipta ÍSÍ og viðkomandi ráðuneyta. Félags- og barnamálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið vinna nú að drögum að frumvarpi um stuðningi við íþróttahreyfinguna, í góðu samstarfi við ÍSÍ og er vonast eftir því að þeirri vinni ljúki um miðjan nóvembermánuð.

Í undirbúningi frumvarpsdraganna hefur ÍSÍ þurft að safna saman ýmsum upplýsingum, bæði fjárhagslegum og starfslegum og leggja mat á áætlað tap og tekjufall íþróttahreyfingarinnar. Fjárhagslegar upplýsingar frá öllum einingum ÍSÍ, sem árlega er safnað með innheimtu starfsskýrslna, hafa reynst afar dýrmætar í þessari vinnu allri.

Fyrirhugað er að bæta að einhverju leyti upp tap og tekjufall íþróttahreyfingarinnar á seinni hluta ársins 2020, með svipuðum hætti og var gert á vormánuðum þegar úthlutað var með almennum og sértækum aðgerðum.

Iðkendur og sjálfboðaliðar

Íþróttahreyfingin hefur verið undir gríðarlegu álagi undanfarna mánuði og hefur verið bæði flókið og erfitt að halda úti íþróttastarfi í landinu undir síbreytilegu regluverki og takmörkunum. Áskoranir í rekstrinum eru fjölmargar og margar þeirra erfiðar úrlausnar. Íþrótta- og ungmennafélögin í landinu hafa sýnt mikla ráðdeildarsemi í að finna lausnir á skerðingu æfingatíma, bæði með fjarlausnum og einnig með lengingu tímabila og gætt þess að vera í miklum samskiptum við sína iðkendur og forsjáraðila þeirra, sem og sjálfboðaliða. Gera má ráð fyrir því að þessa stundina, vegna lokunar íþróttastarfs, hafi félögin verið að huga að slíkum lausnum.

Með góðri samvinnu og samstöðu hefur íþróttahreyfingin komist í gegnum ýmsa erfiðleika og við erum þess fullviss að svo verður einnig nú. Núna er þetta varnarbarátta en þegar upprof verður á faraldrinum þá þarf að fara í hraða sókn til að vinna gegn brottfalli iðkenda og við höfum ekki neina ástæðu til annars en ætla að stjórnvöld leggist á sveif með íþróttahreyfingunni í því verkefni, í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem íþróttir spila í samfélaginu.

Verkefni ÍSÍ á tímum Covid-19

ÍSÍ hefur milligöngu um allar undanþágubeiðnir frá íþróttahreyfingunni vegna íþróttatengdra viðburða á Covid-tímum, hvort heldur er undanþágur frá reglugerð eða undanþágur frá sóttkví. ÍSÍ hefur einnig á sinni könnu að samþykkja reglur allra sérsambanda ÍSÍ er varða viðkomandi íþróttir á Covid-tímum og koma þeim til viðkomandi sóttvarnayfirvalda til staðfestingar.

Daglega berast fjölmörg erindi frá aðilum í íþróttahreyfingunni varðandi Covid-tengd málefni og íþróttir, sem reynt er að leysa úr hverju sinni eins og kostur er.

ÍSÍ er í miklum tengslum við systursamtök sín á Norðurlöndum varðandi stöðuna þar og úrlausnir. Hefur verið afar gagnlegt að eiga slíkt samráð og að fá vitneskju um stuðning yfirvalda við íþróttastarfið innan þeirra samtaka.

Könnun hefur verið gerð um stuðning sveitarfélaga við íþróttahreyfinguna á Covid-tímum og verða niðurstöður úr þeirri könnun kynntar á næstunni.

ÍSÍ heldur sambandsaðilum sínum upplýstum um nýjustu reglur sem gilda um íþróttastarfið á Covid-tímum og safnar saman hagnýtum upplýsingum um málefnið á heimasíðu ÍSÍ. ÍSÍ er nánast í daglegum samskiptum við sóttvarnayfirvöld, heilbrigðisyfirvöld og embætti landlæknis og þegar nýrrar reglugerðar er að vænta þá færist venjulega fjör í leikinn. Fundir með sambandsaðilum og viðeigandi yfirvöldum eru tíðir og reynt er að upplýsa hreyfinguna með eins skjótum hætti og unnt er um hvað framundan er í starfi hreyfingarinnar.

Við endum þetta yfirlit á því að minna ykkur á að huga vel að heilsunni.

Þann 14. október sl. hóf ÍSÍ að senda jákvæð og hvetjandi skilaboð á samfélagsmiðlum út í samfélagið undir slagorðinu #verumhraust. Markmið skilaboðanna er að hvetja landsmenn til daglegrar hreyfingar með einföldum skilaboðum og hvatningu.