• sun. 15. nóv. 2020
  • Landslið
  • A karla

Met í augsýn

Þegar litið er yfir leikmannahóp A landsliðs karla, leikjafjölda og markaskorun einstakra leikmanna, má sjá að góðar líkur eru á að leikja- og markamet landsliðsins falli á næstu misserum. 

Leikjahæsti leikmaður A landsliðs karla frá upphafi er Rúnar Kristinsson, sem lék 104 leiki fyrir Ísland árin 1988-2004. Rúnar er raunar eini leikmaður A landsliðs karla sem hefur náð yfir hundrað leikjum.  Ragnar Sigurðsson hefur leikið 97 leiki nú þegar og mun vafalítið rjúfa 100 leikja múrinn á næsta ári.  Birkir Már Sævarsson er kominn með 93 landsleiki og Kári Árnason með 86.  Tveir leikmenn náðu þeim áfanga gegn Ungverjum á dögunum að leika sinn 90. A-landsleik, þeir Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason, og báðir gætu þeir farið yfir 100 leikja markið áður en langt um líður.

Markahæstu leikmenn A landsliðs karla frá upphafi eru þeir Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson.  Eiður Smári skoraði 26 mörk í 88 leikjum árin 1996-2016.  Kolbeinn hefur skorað 26 mörk í 59 leikjum og vantar því aðeins eitt mark til að komast upp fyrir Eið.  Skammt undan er Gylfi Þór Sigurðsson, sem hefur skorað 25 mörk í 77 leikjum með A landsliðinu.

Landsliðsferill Rúnars Kristinssonar

Landsliðsferill Eiðs Smára Guðjohnsen

Hægt er að skoða tölfræði leikmanna á vef KSÍ.