• þri. 24. nóv. 2020
  • Landslið
  • A kvenna

Undirbúningur hafinn fyrir leikinn gegn Slóvakíu

Undirbúningur A landsliðs kvenna fyrir leikina tvo í undankeppni EM 2022 er hafinn í Slóvakíu.

Liðið kom til landsins á sunnudag, en Ísland mætir Slóvakíu á fimmtudaginn í Senec. Leikurinn hefst kl. 17:00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu á RÚV. Ísland mætir svo Ungverjalandi í Búdapest þriðjudaginn 1. desember og hefst sá leikur kl. 14:30 að íslenskum tíma. Hann verður einnig í beinni útsendingu á RÚV.

Bækistöðvar Íslands eru í Bratislava, en vegna landslaga í Slóvakíu þarf liðið að æfa hinum megin við landamærin í Austurríki og hefur það fengið aðstöðu hjá SV Hundsheim.

Þess má geta að íslenska karlalandsliðið í körfubolta er einnig í Bratislava þar sem þeir mæta Lúxemborg á fimmtudaginn og Kosóvó á laugardaginn. Í ljósi aðstæðna vegna Covid-19 eru bæði lið í sinni búbblu, á sitthvoru hótelinu.