• mið. 06. jan. 2021
  • Landslið
  • A karla

Leikur Þýskalands og Íslands fer fram í Duisburg

Mynd - fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Leikur A karla gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2022 fer fram í Duisburg.

Þetta verður fyrsti leikur Íslands í undankeppninni og fyrsti leikur liðsins undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar. Fer hann fram á Schauinsland-Reisen-Arena í Duisburg 25. mars. Þess má geta að völlurinn var notaður í 8 liða úrslitum Evrópudeildarinnar í ágúst síðastliðnum.

Leikurinn verður einnig leikur númer 500 hjá A landsliði karla, en fyrsti leikur A karla var gegn Danmörku þann 17. júlí 1946.

Liðin hafa mæst tvisvar sinnum eftir sameiningu landsins, en þau voru saman í riðli í undankeppni EM 2004. Þýskaland vann 3-0 sigur ytra, en liðin gerðu markalaust jafntefli á Laugardalsvelli. Ísland og V-Þýskaland mættust einnig tvisvar, en V-Þjóðverjar unnu báða leikina. Ísland mætti A-Þýskalandi 13 sinnum, Ísland vann tvo þeirra, A-Þjóðverjar 10 og einn endaði með jafntefli.