• mið. 21. apr. 2021
  • Lög og reglugerðir
  • Agamál

Breytingar á reglugerðum um aga- og úrskurðarmál og um áfrýjunardómstól

Á fundi stjórnar KSÍ 15. febrúar sl. voru samþykktar breytingar á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál og reglugerð KSÍ um áfrýjunardómstól KSÍ.  Breytingar hafa verið kynntar aðildarfelögum með dreifibréfi nr. 4/2021.

Helstu atriði breytinga eru eftirfarandi (sjá nánar í dreifibréfinu sjálfu):

1. Sú viðbót hefur verið samþykkt í grein 4 um hæfi nefndarmanna til að fara með mál að ekki sé um vanhæfi að ræða ef þeir hagsmunir, sem málið snýst um, eru það smávægilegir, eðli málsins er með þeim hætti eða þáttur nefndarmanns í meðferð málsins er það lítilfjörlegur að ekki er talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun. Samhljóma ákvæði er að finna í hæfisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2. Ný grein 5.4. fjallar á afmarkaðann hátt um hverjir geti verið sóknaraðilar að kærumáli og hverjir geti verið varnaraðilar. Efnislega er ekki gerð breyting í reglugerðinni á því hverjir geti talist sóknaraðilar. Hins vegar er nú sérstaklega talið upp í grein 5.4. hverjir geti verið varnaraðilar, en þar hefur bæst við að stjórn KSÍ geti verið varnaraðili í kærumáli. Er það til samræmis við úrskurði/dóma sem fallið hafa í knattspyrnuhreyfingunni hér á landi undanfarin ár.

3. Í nýrri grein 6.4.2. er veitt heimild til skrifstofu KSÍ, ef í ljós kemur að mistök hafi orðið við skráningu á leikskýrslu vegna atviks í leik að leiðrétta skráningu á leikskýrslu. Þó er skrifstofu KSÍ það aðeins heimilt að fenginni staðfestingu dómara leiks.

4. Í grein 6.5. er lögð áhersla á að skýrsla dómara og/eða eftirlitsmanns sé það gagn sem skuli lagt til grundvallar niðurstöðu í agamálum. Hins vegar, ef vafi leikur á atvikalýsingu er aga- og úrskurðarnefnd m.a. heimilt að styðjast við myndbandsupptökur við ákvörðun viðurlaga vegna agabrota. Er þetta í samræmi við agareglugerð FIFA (FIFA Disciplinary Code).

5. Í grein 7.4. hefur sú viðbót verið samþykkt að félagi eða einstaklingi sem hefur hagsmuni af niðurstöðu máls skal einnig send afrit kæru ásamt gögnum og honum gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu. Þetta gildir þrátt fyrir félag eða einstaklingur sé ekki sóknar- eða varnaraðili að máli.

6. Í grein 8.2. hefur því verið bætt við að ef skýrsla dómara- eða eftirlitsmanns berst ekki til aga- og úrskurðarnefndar innan 3 daga eftir að leikur fer fram þá er nefndinni heimilt að úrskurða um viðurlög án þess að skýrsla dómara og/eða eftirlitsmanns liggi fyrir. Áður sagði í ákvæðinu að nefndinni væri heimilt að vísa viðkomandi máli frá.

7. Í grein 9.2. hefur sú breyting verið samþykkt að úrskurðir nefndarinnar í agamálum taki gildi kl. 12 á hádegi næsta dag frá birtingu þeirra nema um sjálfkrafa leikbann sé að ræða. Þarna er átt við um úrskurði nefndarinnar um leikbönn vegna uppsafnaðra gulra spjalda. Um langa hríð hefur sú regla verið í gildi að slíkir úrskurðir taki gildi á hádegi næsta föstudag frá birtingu. Því er mikilvægt veita því athygli að nú taka úrskurðir vegna uppsafnaðra gulra spalda gildi strax á hádegi næsta dag eftir að úrskurður er birtur.

8. Í grein 9.3. er heimild veitt til formanns aga- og úrskurðarnefndar, ef augljóst er að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður varðandi agamál, að leiðrétta úrskurð ef um augljós mistök er að ræða. Í öðrum tilvikum skal aga- og úrskurðarnefnd halda aukafund og leiðrétta úrskurð eða kveða upp nýjan.

9. Í grein 13.9. hafa verið gerðar breytingar á sektarheimildum aga- og úrskurðarnefndar. Hefur hámarkssektarfjárhæð í ákveðnum tilvikum verið hækkuð. Breytingar í ákvæðinu skýra sig sjálfar að öðru leyti.

10. Sama á við um í grein 14.2. en þar hafa verið gerðar breytingar á sektarfjárhæðum sem eiga við um leyfiskerfi KSÍ.

11. Loks hefur verið færð inni í reglugerðina heimild fyrir áfrýjunardómstól KSÍ til þess að heimila áfrýjun úrskurða í agamálum, sem almennt væri ekki hægt að áfrýja skv. reglugerðinni. Nær sú heimild aðeins til undantekningartilvika og ef dómstóllinn telur sérstakar ástæður fyrir hendi. Skrifleg beiðni þar að lútandi skal send formanni dómsins inna tveggja virkra daga frá því úrskurður aga- og úrskurðarnefndar var kveðinn upp. Beiðni um áfrýjun skal vera rökstudd og með henni skulu fylgja afrit af úrskurði aga- og úrskurðarnefndar og önnur gögn ef við á. Formaður áfrýjunardómstóls skal tilkynna aðilum eins fljótt sem verða má um hvort áfrýjun sé heimil á grundvelli sérstakra ástæðna. Er tillaga þessi unnin í kjölfar tillögu frá Fram á ársþingi KSÍ 2021 á þingskjali nr. 13.

12. Aðrar breytingar snúa að bættu orðalagi og uppfærslu m.t.t. annarra reglugerða eða laga.

Breytingar sem samþykktar hafa verið á reglugerð um áfrýjunardómstól KSÍ eru efnislega þær sömu og gerðar hafa verið á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál. Því þarfnast breytingar á reglugerð KSÍ um áfrýjunardómstól KSÍ ekki frekari skýringa. Vísað er til greinargerðar/samantektar með breytingum á reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál.

Skoða dreifibréf