• mið. 19. maí 2021
  • Landslið
  • U21 karla

Hermann Hreiðarsson ráðinn aðstoðarþjálfari U21 karla

Hermann Hreiðarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari U21 landsliðs karla og mun hann því starfa með Davíð Snorra Jónassyni, sem ráðinn var þjálfari liðsins í janúar á þessu ári.

Hermann, sem er með UEFA Pro gráðu í þjálfun, er fæddur 1974 og steig hann sín fyrstu skref sem leikmaður í meistaraflokki með ÍBV. Alls lék Hermann 89 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði 5 mörk, og átti langan feril sem atvinnumaður í Englandi.

Á þjálfaraferlinum hefur Hermann starfað sem aðalþjálfari í efstu deildum karla og kvenna hér á landi – þjálfaði karlalið ÍBV sumarið 2013, karlalið Fylkis árin 2015-2016 og kvennalið Fylkis 2017. Þá hefur hann starfað sem þjálfari í ensku deildarkeppninni hjá Southend United og í indversku deildinni hjá Kerala Blasters. Hermann hefur þjálfað meistaraflokk karla hjá Þrótti Vogum síðan 2020 og mun hann halda því áfram samhliða starfinu með U21 landsliði karla.

KSÍ býður Hermann velkominn til starfa.